Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð
01

Almennt um endurgreiðslur

S-, R- og G-lán

Afborganir G-lána hefjast tveimur árum eftir námslok og miðast námslok við lok síðasta aðstoðartímabils. Afborganir eru almennt tvisvar á ári, annars vegar föst afborgun sem er á gjalddaga 1. mars og svo tekjutengd afborgun á gjalddaga 1. september ár hvert. Föst afborgun er sú sama fyrir alla lánþega en tekjutengd afborgun tekur mið af tekjum ársins á undan samkvæmt skattframtali.

Fyrir lánþega sem eru að hefja endurgreiðslur af námslánum er fasta afborgun á fyrsta endurgreiðsluárinu almennt þann 30. júní í stað 1. mars. Tekjutengd afborgun þess árs er þó eftir sem áður 1. september.

Vextir af námslánum reiknast frá lokun skuldabréfs, þ.e. frá  lokum síðasta lánshæfa misseris. Vextir á R- og G-lánum eru 0,4%. S-lánin eru vaxtalaus. 

H-lán

Veitt frá og með námsárinu 2020-2021.

Afborganir hefjast einu ári eftir námslok.

Vextir á H-lánum eru breytilegir og byggja á vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði að viðbættu föstu 0,8% vaxtaálagi.

Þrátt fyrir framangreint er vaxtaþak:
Verðtryggð lán – 4%,
Óverðtryggð lán – 9%.

Lánin eru verðtryggð en vaxtalaus fram að námslokadegi.
Verðtrygging reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir útborgun hverrar greiðslu. 
Á námslokadegi er námslánið reiknað og grunnvísitala skuldabréfs miðar við vísitölu neysluverðs á námslokadegi.

Við lok náms velur lánþegi hvernig hann vill haga endurgreiðslum sínum þ.e.:
Jafngreiðslulán eða tekjutengdar afborganir.

Eingöngu þeir sem ljúka námi fyrir eða á því ári sem þeir verða 40 ára geta óskað eftir að vera með tekjutengdar afborganir.

Að öðrum kosti er aðeins um að velja jafngreiðslulán.

Greiðendur geta einnig valið við námslok hvort þeim vilja verðtryggt eða óverðtryggt lán.

Ef ekkert er valið verður lánið sjálfkrafa verðtryggt jafngreiðslulán.

02

Föst afborgun

Föst afborgun námslána er sú sama fyrir alla lánþega sem eru að greiða af sama lánaflokki en upphæðin tekur breytingum ár frá ári í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs.

Föst afborgun R- og G-lána á árinu 2022 er 152.048 kr.

Föst afborgun S-lána á árinu 2022 er 90.036 kr.

Eldri gjalddagar

03

Tekjutengd afborgun

Tekjutengd afborgun S-, R- og G-lána tekur mið af tekjum lánþega á árinu á undan greiðsluári. Þannig er tekjutengd afborgun ársins 2020 t.d. byggð á tekjum ársins 2019. Fjárhæð tekjustofnsins samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum er margfölduð með hlutfallslegri breytingu á vísitölu frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári.

Svo hægt sé að reikna út tekjutengda afborgun hvers árs þarf Menntasjóðurinn að afla upplýsinga um tekjur lánþega frá ríkisskattstjóra.

Lánþegar sem búa erlendis þurfa sjálfir að senda upplýsingar frá skattyfirvöldum í sínu búsetulandi til sjóðsins svo hægt sé að reikna tekjutengda afborgun. Upplýsingar um tekjur erlendis skulu hafa borist sjóðnum fyrir 1. júlí ár hvert. Berist sjóðnum ekki upplýsingar um tekjur er fjárhæð tekjutengdrar afborgunnar byggð á áætluðum tekjum. Hafi tekjur lánþega verið áætlaðar (á einnig við ef Ríkisskattstjóri hefur áætlað tekjur í skattframtali) getur lánþegi óskað eftir endurútreikningi tekjutengdrar afborgunnar. Sækja þarf um slíkan endurútreikning innan 60 daga frá gjalddaga.

Erlendar tekjur eru yfirfærðar í íslenskar krónur miðað við meðalgengi Seðlabanka Íslands á viðmiðunarárinu.

Tekjustofninn og hlutfall tekna sem er notað við útreikning á upphæð afborgunar er mismunandi eftir tegund lána. Nánari upplýsingar er að finna hér fyrir neðan.

H-lán - (veitt frá og með námsárinu 2020-2021)

Endurgreiðslur námslána eru 1. hvers mánaðar og skiptast í annars vegar jafngreiðslulán þar sem endurgreiðslutími fer eftir fjárhæð lánsins og hins vegar tekjutengd lán þar sem endurgreiðsla fer eftir tekjum lántaka en þó með ákveðinni fastri lágmarksfjárhæð, sjá nánar grein 14.2.3.
Lántaka er aðeins heimilt að velja tekjutengda endurgreiðslu ef námslok eru áður eða á því ári er 40 ára aldri er náð.

Tekjutengd endurgreiðsla er innheimt mánaðarlega og hver afborgun byggð upp af tveimur þáttum. Annars vegar er föst afborgun, óháð tekjum og hins vegar er tekjutengd afborgun.

Fjárhæð fastrar afborgunar er bundin vísitölu neysluverðs og tekur breytingum í takt við mánaðarlegar breytingar á vísitölunni. Fjárhæð fastrar afborgunar er kr. 10.000 miðað við neysluverðsvísitöluna 470,5.

Mánaðarleg tekjutengd afborgun er 0,3125% af tekjustofni lánþega. Fyrstu átta mánuði endurgreiðsluársins er miðað við tekjustofn lánþega tveimur árum á undan endurgreiðsluári, en síðustu fjóra mánuði endurgreiðsluársins er miðað við tekjustofn lánþega ársins á undan endurgreiðsluári. Tekjutengd afborgun skal greidd mánaðarlega fyrsta dag hvers mánaðar. Frá fjárhæð tekjutengdrar afborgunnar dregst fjárhæð fastrar afborgunnar.

Með tekjustofni er átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum fjármagnstekjum, sbr. c–lið 7. grein laga um tekjuskatt nr. 90/2003.

G-lán (veitt frá 2005-)

Tekjutengd afborgun G-lána er reiknuð út frá útsvarsstofni og fjármagnstekjum greiðanda árið á undan endurgreiðsluári.

Með fjármagnstekjum er fyrst og fremst átt við vexti, arð, leigutekjur og söluhagnað. Fjármagnstekjur skiptast jafnt á milli hjóna og sambúðaraðila.

Með útsvarsstofni er átt við launatekjur, en einnig ýmsar aðrar tekjur s.s. lífeyrisgreiðslur og tryggingabætur, sbr. lög um tekju- og eignarskatt.

Endurgreiðsluhlutfall hvers árs er 3,4% af tekjustofni ársins á undan. Fasta greiðslan á fyrri hluta ársins kemur til frádráttar.

Lánþegi getur óskað þess að umsaminn hundraðshluti (3,75%) haldist óbreyttur á námslánum teknum í tíð eldri laga. Umsókn þess efnis skal berast Menntasjóðnum. 

R-lán (veitt frá 1992-2005)

Tekjutengd afborgun er reiknuð út frá útsvarsstofni greiðanda árið á undan endurgreiðsluári.
Með útsvarsstofni er átt við launatekjur, en einnig ýmsar aðrar tekjur s.s. lífeyrisgreiðslur og tryggingabætur, sbr. lög um tekju- og eignarskatt.

Endurgreiðsluhlutfall hvers árs er 4,4% af tekjustofni ársins á undan. Fasta greiðslan á fyrri hluta ársins kemur til frádráttar, það sem þá stendur eftir er tekjutengda greiðslan með gjalddaga 1. september. 
Lánþegi getur óskað þess að umsaminn hundraðshluti (4,75%) haldist óbreyttur á námslánum teknum í tíð eldri laga. Umsókn þess efnis skal berast Menntasjóðnum. 

S-lán (veitt 1982-1992)

Tekjutengd afborgun er reiknuð út frá útsvarsstofni greiðanda árið á undan endurgreiðsluári.
Með útsvarsstofni er átt við launatekjur, en einnig ýmsar aðrar tekjur s.s. lífeyrisgreiðslur og tryggingabætur, sbr. lög um tekju- og eignarskatt.

Endurgreiðsluhlutfall er 3,4% af tekjustofni ársins á undan. Fasta greiðslan á fyrri hluta ársins kemur til frádráttar, það sem þá stendur eftir er tekjutengda greiðslan með gjalddaga 1. september.

Lánþegi getur óskað þess að umsaminn hundraðshluti (3,75%) haldist óbreyttur á námslánum teknum í tíð eldri laga. Umsókn þess efnis skal berast Menntasjóðnum.

 

V-lán (veitt til 1982)

Tekjutengda afborgunin reiknast sem hlutfall af tekjum (sameiginlegum tekjum ef um hjón er að ræða) umfram viðmiðunartekjur. Hlutfallið er mismunandi eftir því hvenær endurgreiðslur hófust :1979-83 = 1 % 1984=1,3% eftir 1984= 1,7%.

Viðmiðunartekjur fara eftir fjölskyldustærð.

Ef maki er einnig að greiða af V-láni þá helmingast afborganir (júlí og nóv.) hjá þeim báðum.
Ef greitt er einnig af S-láni á sama tíma (greiðandi með S-og V-lán) eru báðar afborganir reiknaðar samkvæmt ákvæðum lánanna og afborganir V-láns síðan dregnar frá heildarafborgun S-láns. Ef út kemur upphæð hærri en kr. 0 þá kemur gjalddagi 1. september af S-láni einnig.