Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð
01

Algengar spurningar

Hversu hár er uppgreiðsluafslátturinn?

Uppgreiðsluafslátturinn er frá 5% - 15% og fer prósentan eftir hversu há námslánaskuldin er hjá greiðenda (samanlögð upphæð af öllum skuldabréfum sem  komin eru til innheimtu) þegar greiðsla fer fram. Ef greiðandi skuldar 1 mkr. þá nemur afslátturinn 5% og fer stighækkandi eftir námslánaskuld og verður 15% ef greiðandinn skuldar 4,8 m.kr. eða meira.

Einnig er hægt að sækja um afslátt vegna aukainnborgunar inn á námslán. Uppgreiðsluafsláttur vegna aukainnborgunar er 5% - 15%, allt eftir því hversu mikið lántaki skuldar í námslán.

Eingöngu hægt að fá afslátt vegna uppgreiðslu á eldri lánum og afslátt vegna aukainnborgana af námslánum samkvæmt eldri lögum. Ekki er hægt að fá uppgreiðsluafslátt af H-lánum. 
 

Fæ ég undanþágu frá afborgun ef ég fer aftur í nám?

Við ákveðnar aðstæður er Menntasjóðnum heimilt að veita undanþágu frá afborgun fari greiðandi námsláns aftur í nám:

 • Námsmaður þarf að vera innritaður í nám sem er viðurkennt sem lánshæft hjá Menntasjóðnum, gildir líka þó námsmaður hyggist ekki sækja um nýtt námslán.
 • Sýna þarf fram á að námsárangur eða loknar einingar á misserinu á undan samsvari kröfum um lánshæfi.
 • Undanþáguheimildin er hugsuð fyrir þá sem eru í verulegum fjárhagsörðugleikum og því er einnig miðað við ákveðið tekjuhámark. 
 • Sækja þarf um á Mitt Lán.

 

Hafa fjölskylduaðstæður mínar áhrif á hve háa afborgun ég á að greiða?

Tekjur maka og fjöldi barna á framfæri lánþega hafa eingöngu áhrif á afborganir V-lána, en það eru lán sem tekin voru á árabilinu 1976 -1982.

Hvaða úrræði eru í boði hjá Menntasjóðnum fyrir þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum?

Undanþága frá  afborgun kemur til álita ef aðstæður eins og t.d. atvinnuleysi, barnsburður, veikindi, ástundun lánshæfs náms eða aðrar sambærilegar aðstæður valda fjárhagserfiðleikum. Sjá nánar í úthlutunarreglunum um undanþágu frá afborgun.

 

Hve há er hver afborgun?

Árleg afborgun S-, R- og G-lána er tvíþætt: Föst afborgun og tekjutengd afborgun.

Heildarafborgun hvers árs af G- lánum er 3,4% af tekjum fyrra árs, framreiknuðum miðað við breytingu á vísitölu neysluverðs frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári. Sjá einnig ákvæði um fjármagnstekjur þegar um G-lán er að ræða.

Heildarafborgun hvers árs af R-lánum er 4,4% af tekjum fyrra árs, framreiknuðum miðað við breytingu á vísitölu neysluverðs frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári.

Heildarafborgun hvers árs af S-lánum er 3,4% af tekjum fyrra árs, framreiknuðum miðað við breytingu á lánskjaravísitölu frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári.

H-lán, veitt frá og með námsárinu 2020-2021:

Greiðendur geta valið um hvort þeir endurgreiða lánin sem jafngreiðslulán með jöfnum mánaðarlegum endurgreiðslum eða sem tekjutengda endurgreiðslu námsláns. Tekjutengdar endurgreiðslur eru einnig með mánaðarlegum gjalddögum. Lánþega er þó aðeins heimilt að velja tekjutengda endurgreiðslu ef námslok eru áður eða á því ári sem 40 ára aldri er náð.

Ef jafngreiðslulán er valið tekur lengd lánstíma mið af heildarskuld og aldri lántaka, þar sem lántaki skal greiða upp lánið fyrir 65 ára aldur. Er þá reiknað út samkvæmt þessum forsendum hversu mikið lántaki þarf að greiða á mánuði til að lánið verði uppgreitt fyrir 65 ára aldur. Sjá grein 14.2 í úthlutunarreglum Menntasjóðsins fyrir námsárið 2020-2021.

Hægt er að áætla árlegar afborganir á reiknivél afborgana á forsíðunni.

 

Hvenær byrja ég að borga?

Endurgreiðslur G-lána hefjast tveimur árum eftir námslok, eins og þau eru skilgreind hjá sjóðnum.

Gjalddagi fyrstu föstu afborgunar af G-lánum er almennt 30. júní tveimur árum eftir námslok. Dæmi; ef námsmaður var síðast í lánshæfu námi vorið 2019 er fyrsta afborgun af námsláni hans 30. júní 2021. 

Eftir fyrsta afborgunarárið er gjalddagi fastrar afborgunar þessara lána alltaf 1. mars ár hvert.

Gjalddagi tekjutengdu afborgunarinnar af G-, R- og S-lánum er alltaf 1. september ár hvert. 

Afborganir af H-lánum hefjast einu ári eftir námslok og eru með mánaðarlegum gjalddögum. Sjá grein 14.2 í úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna fyrir árið 2020-2021. 

Þarf að sækja um undanþágu á hverju ári?

Greiðendur sem óska eftir undanþágu frá afborgunum námslána vegna verulegra fjárhagsörðugleika sem orsakast af veikindum, námi, örorku eða öðrum sambærilegum ástæðum verða að sækja um undanþágu fyrir hverja einstaka afborgun.

Ef greiðandi fær samþykkta undanþágu frá einni afborgun og aðstæður sem valda viðkomandi greiðanda verulegum fjárhagsörðugleikum eru enn til staðar þegar kemur að næstu afborgun, þarf einnig að sækja um undanþágu frá þeirri afborgun.

 • Sótt er um undanþágu frá afborgun á Mitt Lán, en þar kemur einnig fram hvaða gögn þurfa að fylgja umsókninni.
 • Umsóknarfrestur um undanþágu frá hverri afborgun er 60 dagar frá gjalddaga afborgunar.
 • Ekki er heimilt að taka við umsóknum til afgreiðslu eftir 60 daga frestinn frá gjalddaga.

Best er að sækja um undanþágu frá afborgun áður en kemur að gjalddaga hennar, því umsókn um undanþágu frestar ekki innheimtu.

Hvernig virkar innheimtuferlið?

Greiðsluseðlar eru ekki sendir út nema greiðandi óski sérstaklega eftir því.
Ef greiðendur óska eftir greiðsludreifingu hjá Menntasjóðnum er hvorum gjalddaga um sig dreift á 6 mánuði. Þeir borga þá hverja mánaðarafborgun í byrjun hvers mánaðar. ATH: Gjalddaganum 30. júní er þó aldrei dreift á meira en 2 mánuði.

Greiðendur geta einnig óskað eftir því að greiðslan verði skuldfærð í einu lagi eða dreift í 6 mánuði á kreditkort.

Innheimtuferlið er annars á þessa leið:

Kröfur birtast í heimabönkum u.þ.b. 10 dögum fyrir gjalddaga. Greiðsluseðlar eru þá sendir út ef óskað hefur verið eftir þeim. 

Séu ekki gerð skil innan tilskilins frests fer krafan til milliinnheimtu. Innheimtuviðvörun er send út áður en það er gert.

Ef milliinnheimta ber ekki árangur fer krafan áfram í löginnheimtu. Athygli er vakin á því að slíkar innheimtuaðgerðir hafa í för með sér stóraukinn kostnað.

Hvenær eru gjalddagar afborgana?

Gjalddagar V-,S-, R- og G-lána eru tvisvar á ári.

 • Föst afborgun S-, R- og G-lána er 1. mars ár hvert.
 • Fyrsta afborgun af nýjum G-lánum er þó 30. júní. Það á aðeins við um fyrsta afborgunarárið.
 • Föst afborgun V-lána (1976-1982) er 1. júlí ár hvert.
 • Tekjutengd afborgun er 1. september ef um S-, R- eða G-lán er að ræða en 1. nóvember af V-lánum.
 • H-lán; hægt er að velja um að greiða lánin tilbaka sem jafngreiðslulán eða tekjutengdar afborganir. Gjalddagar eru 1. hvers mánaðar. Sjá grein 14.2 í úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna fyrir námsárið 2020-2021.

Þegar tekjutengda afborgunin er fundin er í öllum tilfellum reiknað ákveðið hlutfall af tekjum fyrra árs, uppfært með vísitölubreytingum á milli tekjuárs og innheimtuárs. Upphæð föstu afborgunarinnar er dregin frá þeirri tölu sem þá kemur út. Sú upphæð sem eftir stendur þá er tekjutengda afborgunin.

Ef tekjur eru lágar er ekki víst að greiðendum reiknist tekjutengd afborgun.  

Tekjutengda afborgunin, hvenær liggur hún fyrir?

Tekjutengda afborgunin af S-, R- og G-lánum er með gjalddaga 1. september, eindaginn er 6. september. Ef um er að ræða V-lán þá er gjalddaginn 1. nóvember.

Upphæðin ræðst af tekjustofni lánþegans árið á undan. Menntasjóðurinn reiknar tekjutengdu afborgunina eftir að skattálagning RSK liggur fyrir. Við útreikninginn er tekjustofninn margfaldaður með hlutfallslegri breytingu á vísitölu frá 1. júlí á tekjuöflunarárinu til 1. júlí á endurgreiðsluárinu.

Greiðendur sem búsettir eru erlendis þurfa að senda vottorð frá skattayfirvöldum í búsetulandinu yfir tekjur sínar á árinu á undan endurgreiðsluári. Þegar verið er að reikna tekjutengda afborgun á árinu 2021 er miðað við tekjur ársins 2020. 

Lánþegi getur hvenær sem er áætlað upphæð afborgunar sinnar með því að setja viðeigandi forsendur inn í reiknivél afborgana á forsíðunni.