Almenn skilyrði
Umsækjendur þurfa að vera orðnir fjárráða (18 ára) á þeirri önn sem sótt er um lán fyrir. Þá þurfa umsækjendur að uppfylla ákveðin búsetuskilyrði og/eða skilyrði um tengsl við Ísland sem íslenskir eða erlendir ríkisborgarar.
Til þess að námsmaður teljist lánhæfur hjá sjóðnum má hann ekki vera í vanskilum við sjóðinn þegar sótt er um lán.
Ábyrgðar á námsláni er krafist ef lánþegi telst ekki tryggur. Lánþegi telst ekki tryggur þegar hann er á vanskilaskrá, bú hans er í gjaldþrotameðferð eða ef sjóðurinn hefur þurft að afskrifa lán gagnvart viðkomandi.
Námsmenn þurfa að vera í fullu lánshæfu námi til að geta fengið námslán. Lágmarksárangur á önn eru 22 ECTS-einingar eða ígildi þeirra.
Námsmaður sem þiggur námsstyrk samkvæmt lögum um námsstyrki nr. 79/2003 (jöfnunarstyrk) á ekki rétt á námsláni á þeirri önn sem hann fær styrkinn.
Námsmaður getur ekki fengið lán frá sjóðnum ef hann þiggur á sama tíma námsaðstoð frá öðru ríki.
Búsetuskilyrði sem þarf að uppfylla
Réttindi flóttamanna
Erlendur ríkisborgari sem hefur fengið dvalarleyfi hér á landi sem flóttamáður á grundvelli alþjóðlegrar verndar á rétt til námsaðstoðar til að stunda nám á Íslandi.
Við umsókn þarf flóttamaður að skila staðfestingu frá Útlendingastofnun um stöðu sína.
Réttur til aðstoðar vegna náms á Íslandi
Rétt á námsaðstoð vegna náms á Íslandi á námsmaður sem uppfyllir almenn skilyrði um lánshæfi ásamt því að uppfylla eitt eftirtalinna skilyrða:
1. er íslenskur ríkisborgari,
2. er ríkisborgari Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar,
3. er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis sem er launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi á Íslandi eða heldur stöðu sinni sem slíkur á rétt á því að fá námsaðstoð til að stunda nám á Íslandi. Að jafnaði er miðað við að vinnuframlag ríkisborgarans sé ekki undir 40 klukkustundum á mánuði á meðan námi hans stendur og skal hann senda mánaðarlega inn afrit af launaseðli sínum inn á gagnaskil "Mitt lán".
4. er aðstandandi ríkisborgara skv. 3. tölul.,
5. er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis og hefur öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar hérlendis,
6. er aðstandandi ríkisborgara skv. 5. tölul.,
7. er erlendur ríkisborgari og er í hjúskap eða hefur um tveggja ára skeið verið í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og hefur átt lögheimili á Íslandi að lágmarki tvö ár af síðastliðnum fimm árum áður en nám hefst,
8. hefur dvalarleyfi hér á landi sem flóttamaður,
9. hefur ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.
Réttur til aðstoðar vegna náms erlendis
Námsmaður sem sækir um lán til þess að stunda nám erlendis þarf að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:
- Almenn skilyrði samkvæmt grein 1.4 í úthlutunarreglum Menntasjóðsins.
- Eitt af þeim skilyrðum sem koma fram í greinum 1.5.1 - 1.5.6 í úthlutunarreglunum og
- hafa búið á Íslandi í að lágmarki tvö ár af síðastliðnum fimm árum áður en nám hefst og hafa sterk tengsl við íslenskt samfélag að mati Menntasjóðsins.
Ríkisborgari EES- eða EFTA ríkis og aðstandandi hans er undanþeginn skilyrði um búsetu á Íslandi í tvö ár af síðustu fimm vegna náms innan EES- eða EFTA ríkis.