Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð
01

Algengar spurningar

Hvaða gögnum þarf að skila?

Upplýsingar og gögn sem námsmenn þurfa að skila eftir að þeir hafa lagt inn umsókn eru afar mismunandi eftir hverri námsbraut fyrir sig og hvar námsmaðurinn er staddur á námsferlinum.

Eftir að umsókn hefur verið skilað inn fær námsmaður tilkynningu frá Menntasjóðnum þar sem tilgreind eru þau gögn og upplýsingar sem þarf að skila inn.


Þess má geta að ekki þurfa allir að senda viðbótargögn með umsókninni, það fer allt eftir aðstæðum og stöðu í námi. Námsmenn geta alltaf kannað á Mitt Lán  hvort gögn vantar frá þeim.  

Hvaða nám er lánshæft?

Nám er lánshæft ef skólinn skipuleggur það sem fullt nám á hverju skólaári. Fullt nám er 60 ECTS-einingar eða sambærilegt.

Nám í öllum viðurkenndum háskólum er lánshæft ef það er skipulagt sem fullt nám. En einnig er lánað til ýmis konar sérnáms.

Heimilt er að veita skólagjaldalán eingöngu til náms sem skipulagt er sem 45-59 ECTS-eininga nám á skólaárinu. Það verður hins vegar að vera a.m.k. 45 ECTS-einingar á hverju skólaári, þ.e. 75% nám.

Hvernig hafa tekjur áhrif á lán?

Allar skattskyldar tekjur námsmanns (og maka ef sótt er um makalán) árið 2020 hafa áhrif á upphæð námsláns veturinn 2020-2021.

Námsmaður má hafa 1.364.000 krónur í tekjur á árinu án þess að lánið skerðist.

Séu tekjurnar hærri lækkar lánið sem nemur 45% af umframtekjunum, þ.e. 45% af öllum tekjum umfram 1.364.000 kr. koma til lækkunar á námsláni.

Lækkunin dreifist jafnt á allar annir skólaársins.

Námsmenn sem eru að koma af atvinnumarkaði og hafa ekki verið í námi síðustu 6 mánuði mega hafa fimmfalda þessa upphæð án þess að lánið skerðist, en síðan skerða umframtekjur lánið með sama hætti og lýst er hér að ofan.


Hvernig á að sækja um lán?

Sækja þarf um námslán fyrir hvert námsár og mikilvægt að velja allar annir sem námsmaður hyggst stunda nám á.

Umsóknarfrestir á námsárinu 2020-2021 eru eftirfarandi:

Haustönn 2020: Til og með 1. september 2020.
Vorönn 2021: Til og með 5. janúar 2021.
Sumarönn 2021: Til og með 1. júní 2021.

Umsókn sem berst eftir að umsóknarfrestur er liðinn verður sjálfkrafa hafnað.

Hvað er lánsáætlun?

Eftir að námsmaður hefur sótt um námslán og skilað inn þeim upplýsingum sem Menntasjóðurinn óskaði eftir, er útbúin lánsáætlun og birt á Mitt Lán. Þar er reiknað út hvað námsmaðurinn fær mikið í námslán út frá aðstæðum viðkomandi, t.d. fjölskylduhögum, tekjum og áætlun um námsframvindu.

 

Hvað er ofgreitt lán?

Ef námsmaður hefur fengið lán sem hann á ekki rétt á þarf hann að endurgreiða það.

Námsmaður fær ekki frekari námslán fyrr en hann hefur borgað til baka ofgreidda lánið eða samþykkt skuldabréf fyrir greiðslu þess. Um leið og hann hefur samþykkt skuldabréfið telst hann vera í skilum og getur fengið aftur lán.

Ofgreidd lán geta verið af ýmsum ástæðum. Algengustu tilvikin eru þegar námsmaður fær greitt skólagjaldalán fyrirfram vegna annar, en skilar ekki lánshæfum árangri á önninni. Þá á hann ekki rétt á láninu og verður að endurgreiða það.

Önnur algeng ástæða er sú að námsmaður reynist hafa haft hærri tekjur en gefið var upp. Lánið er þá endurreiknað og ef í ljós kemur að námsmaðurinn hafi fengið of hátt lán afgreitt þarf hann að endurgreiða mismuninn.

Er hægt að fá undanþágu vegna veikinda?

Lágmarkseiningafjöldi til að fá námslán er 22 ECTS-einingar á önn. Nái námsmaður því ekki vegna veikinda má veita undanþágu og greiða lán fyrir allt að 22 ECTS-einingar.

Skilyrði er að námsmaður hafi áður skilað fullnægjandi árangri í lánshæfu námi (22 ECTS-einingum eða sambærilegu).

Með sama hætti er hægt að veita undanþágu vegna veikinda barns, maka eða foreldra námsmanns ef veikindin raska verulega högum námsmanns.

Þetta á einnig við um aukið svigrúm vegna andláts í fjölskyldunni.

Leggja þarf fram sérstaka beiðni um ofantaldar undanþágur ásamt nákvæmu læknisvottorði og öðrum gögnum sem námsmaður kann að vera beðinn um. Námsárangur þarf alltaf að liggja fyrir.

Hvaða háskólanám erlendis er lánshæft?

Námslán eru veitt til náms í viðurkenndum erlendum háskólum sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsnáms (stúdentspróf eða sambærilegt) og háskólar á Íslandi.

Ef skóli er ekki á skrá hjá Menntasjóðnum þýðir það ekki endilega að hann sé ekki lánshæfur. Erlendir skólar eru ekki settir á skrá hjá sjóðnum nema námsmaður hafi áður sótt um námslán til þess skóla og fengið samþykki.

Hvaða sérnám erlendis er lánshæft?

Aðfaranám erlendis

Aðfaranám erlendis sem nemur ígildi 60 staðlaðra framhaldsskólaeininga er lánshæft ef það er tekið í skóla sem viðurkenndur er af menntamálayfirvöldum viðkomandi lands. 

Starfsnám/iðnnám og viðbótarnám við framhaldsskóla erlendis

Starfsnám/iðnnám erlendis er lánshæft ef það er sambærilegt við iðnnám eða viðbótarnám á framhaldsskólastigi á Íslandi. Skólinn og námið þarf að vera viðurkennt af menntamálayfirvöldum viðkomandi lands. Þarf einnig að uppfylla önnur skilyrði s.s. að námslok séu a.m.k. á þriðja hæfnisstigi og að sambærilegt nám sé ekki í boði á háskólastigi á Íslandi. 

Undirbúningsnám í tungumálum

Námsmenn geta fengið námslán til tungumálanáms ef það er nauðsynlegur undirbúningur undir frekara nám í landinu. Ekki er lánað til tungumálanáms ef um er að ræða ensku, norsku, dönsku og sænsku.

Hvaða sérnám/iðnnám á Íslandi er lánshæft?

Aðfaranám á Íslandi

Aðfaranam (t.d. frumgreinadeildir) sem nemur allt að 60 stöðluðum framhaldsskólaeiningum er lánshæft.

Starfsnám/iðnnám og viðbótarnám í framhaldsskóla er lánshæft. 

  • Námið þarf að hafa fengið samþykki frá viðkomandi starfsgreinaráði ef við á,
  • námslok þurfa a.m.k að vera á þriðja hæfnisþrepi og 
  • sambærilegt nám sé almennt ekki í boði á háskólastigi hér á landi.

Framhaldsskólanemar sem stefna á stúdentspróf eða sambærilegt próf geta ekki fengið námslán.

Hvernig eiga námsmenn erlendis að senda námsárangur?

Allir námsmenn erlendis verða sjálfir að senda námsárangur til sjóðsins því sjóðurinn er ekki í beinu sambandi við skólana.

Námsárangurinn þarf að vera á bréfsefni merktu skólanum. Þar verður að koma fram nafn námsmanns og skólans, einnig námsárið og einingarnar sem námsmaðurinn lýkur á viðkomandi önn eða skólaári.

Ekki er tekið við tölvupósti sem vottorði um námsárangur. Hins vegar geta námsmenn eða skóli skannað inn einkunnablöð og sent sem viðhengi í tölvupósti til sjóðsins.

Hvað gerir umboðsmaður?

Allir námsmenn sem fara í nám til útlanda þurfa að hafa umboðsmann sem búsettur er á Íslandi. Umboðsmaðurinn hefur umboð frá námsmanni til að annast hans mál hjá sjóðnum.

Umboðsmaður getur átt von á að sjóðurinn óski eftir milligöngu hans þegar koma þarf tilkynningum eða gögnum til námsmanns.

Hvað gerist ef ég hætti í námi?

Ef námsmaður skilar ekki lágmarksnámsárangri, 22 ECTS-einingum á önn, er litið svo á að viðkomandi hafi hætt í námi. Ef námsmaður hefur fengið fyrirframgreidd skólagjöld verða þau innheimt sérstaklega sem ofgreiðslulán. Þau lán þarf annað hvort að endurgreiða strax eða semja um endurgreiðslu á skuldabréfi sem getur verið til allt að 15 mánaða.

 

Sækja um námslán