Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð
02

Undanþágur

Veikindi

Námsmenn geta sótt um aukið svigrúm í námi ef þeir geta ekki lokið lágmarksárangri á önn vegna veikinda.

Ef námsmaður veikist verulega á námstíma er heimilt að bæta allt að 6 einingum í misseraskólum og 4 einingum í fjórðungaskólum við loknar einingar þannig að einingarnar verði samtals 22 í misseraskólum og 15 í fjórðungaskólum eftir að viðbótareiningum hefur verið bætt við. 

Veikist námsmaður á seinnihluta annar eða í prófum er heimilt að bæta við allt að 22 ECTS-einingum í misseraskólum og 15 ECTS-einingum í fjórðungaskólum. 

Undanþága þessi getur einnig átt við ef um alvarleg veikindi maka, barns eða foreldra námsmanns hafa kallað á innlögn á sjúkrahús eða sambærilega umönnun og hafi raskað verulega högum námsmannsins. 

Sé aukið svigrúm samþykkt eru lánseiningar hækkaðar upp í lágmarksnámsframvindu en aldrei umfram það.

Í öllum tilfellum þarf að framvísa greinargóðu læknisvottorði.  

Barnsburður

Almennt skilyrði fyrir því að námsmaður geti fengið aukið svigrúm vegna barnseignar er að hann hafi áður lokið fullnægjandi námsárangri á einu misseri síðustu 12 mánuði eða hann ljúki fullnægjandi árangri á næstu önn á eftir hann þarf á undanþágunni að halda.

Samkvæmt þessari reglu er hægt að bæta allt að 16 ECTS-einingum í misseraskólum og 10 einingum í fjórðungaskólum við loknar einingar og lánsréttur þannig hækkaður upp í 22 ECTS-einingar á önninni. Námsmaður getur nýtt þetta svigrúm fram að 12 mánaða aldri barns. Samanlagt skal þó viðbótarsvigrúm beggja foreldra vegna barneignar ekki vera hærra en 16 ECTS-einingar í misseraskólum og 10 ECTS-einingum í fjórðungaskólum. 

Móðir getur átt rétt á auknu svigrúmi í allt að 3 mánuði fyrir fæðingu vegna veikinda á meðgöngu. Framvísa þarf læknisvottorði/fæðingarvottorði. 

Lánsréttur hjá sjóðnum eykst ekki vegna þessa. 

 

Örorka 

Geti námsmaður ekki skilað lágmarksárangri vegna örorku (a.m.k. 75%) er heimilt að bæta allt að 13 ECTS-einingum í misseraskólum og 8 einingum í fjórðungaskólum við loknar einingar og lánsréttur þannig hækkaður upp í lágmarksárangur á önn. 

Sækja þarf sérstaklega um undanþágu vegna orörku og senda læknisvottorð. 

Lesblinda og aðrir sértækir námsörðugleikar

Geti námsmaður ekki lokið lágmarksnámsframvindu vegna lesblindu eða annarra sértækra námsörðugleika er heimilt að veita undanþágu frá lágmarksárangri. Er þá heimilt að bæta allt að 13 ECTS-einingum í misseraskólum og 8 ECTS-einingum í fjórðungaskólum við námsárangur á önn og hækka þannig lánsrétt á önn upp í lágmarksárangur. Liggja þarf fyrir greining/vottorð um lesblindu eða sértæka námsörðugleika áður en undanþága er veitt. Einnig þurfa að liggja fyrir upplýsingar um það svigrúm sem skólinn veitir námsmanni vegna þessa. 

Sækja þarf sérstaklega um þessa undanþágu til sjóðsins.