Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

Námsframvinda

Fullt nám telst 60-ECTS einingar á hverju skólaári, það eru 30-ECTS einingar á hverju misseri/önn eða ígildi þess ef einingar eru á öðru formi. Lágmarksnámsframvinda til að fá afgreidd námslán er 22-ECTS einingar eða ígildi þeirra á hverju misseri/önn.

Fullt nám í fjórðungaskólum (skólum þar sem skólaári er skipt niður á haust-, vetrar- og vorönn) er 20-ECTS einingar á hverjum fjórðungi (samtals 60-ECTS einingar á skólaári). Lágmarksnámsframvinda er því 15 ECTS-einingar á hverjum fjórðungi.

Í sumum skólum er boðið upp á nám á sumarönn. Fullt nám á sumarönn er 20 ECTS-einingar og lágmarksnámsframvinda 15 ECTS-einingar.

Umframeiningar

Ef námsmaður lýkur meira en 30 ECTS-einingum á önn eða 20 einingum á fjórðungi, er hægt að nýta umframeiningarnar á seinni önnum í sama námi. Það er þó skilyrði að ljúka lágmarksárangri á önninni. Til dæmis getur námsmaður sem lýkur 22 ECTS-einingum á önn síðar í náminu nýtt umframeiningar, ef einhverjar eru, til að hækka námsárangurinn upp í 30 einingar.

Uppgjör að loknu skólaári

Að loknu skólaári (haust- og vorönn í misseraskólum og haust-, vetrar- og vorönn í fjórðungaskólum) er árangur ársins gerður upp. Skili námsmaður a.m.k. 44 ECTS-eininga árangri á skólaárinu í heild (misseraskólar) eða 45 ECTS-einingum í fjórðungaskólum, á hann rétt á láni í hlutfalli við árangur á einstökum önnum. Það er þó skilyrði í þessu tilfelli að námsmaður hafi verið skráður í a.m.k. 22 ECTS-eininga nám á hverju misseri eða 15 ECTS-einingar á önn í fjórðungaskólum til loka annar.

Mat á ástundun

Heimilt er að veita lán að fengnu ástundunarvottorði ef námsmaður tekur einungis próf einu sinni á ári eða í lok skólaárs. Lán er þá veitt í samræmi við vottorð um námsframvindu sem metin er í vottorðinu. Þegar niðurstaða námsársins liggur fyrir er námsframvindan endurmetin. Komi þá í ljós að námsframvindan er ekki fullnægjandi á árinu er veitt námsaðstoð endurskoðuð sem því nemur og endurkrafin hafi of hátt lán verið veitt.

Einingaskil við sérstakar aðstæður og námslok

Námsmaður sem á einungis kost á að vera í 10 ECTS-eininga eða 20 ECTS-eininga kúrsum á tiltekinni önn getur fengið lán í samræmi við loknar einingar ef hann lýkur a.m.k. 20 ECTS-einingum. Námsmaður þarf þó að vera skráður i 30 ECTS-einingar til loka annar.
Námsmaður sem á ekki kost á að ljúka lágmarksárangri vegna skipulags náms eða mats á fyrra námi getur átt rétt á láni í hlutfalli við lokinn einingafjölda ef;

1. Námsmanni stendur til boða að ljúka 15-21 ECTS-einingu á önn í misseraskóla eða 10-14 ECTS-einingum á önn í fjórðungaskóla og
2. námsmaður lýkur öllum einingum á önninni sem honum standa til boða. 

Aukið svigrúm í námi/undanþágur

Vegna veikinda, barnsburðar, örorku og lesblindu

Námsmenn geta sótt um aukið svigrúm í námi ef veikindi, barnsburður, örorka eða annað, s.s. lesblinda, gera að verkum að þeim tekst ekki að skila lágmarksnámsárangri á tiltekinni önn.

Sé aukið svigrúm veitt eru lánseiningar hækkaðar upp í lágmarksnámsframvindu (almennt 22 ECTS-einingar) en aldrei umfram það.