Áhrif tekna á námslán
Tekjur námsmanns á viðmiðunarári geta haft áhrif á fjárhæð veittra námslána ef tekjurnar fara yfir frítekjumark. Viðmiðunarár í þessum skilningi er upphafsár námsársins og er horft til allra skattskyldra tekna á árinu eins og þær koma fram í skattframtali námsmanns. Árið 2020 er viðmiðunarár fyrir námsárið 2020-2021.
Námsmaður má hafa allt að 1.364.000 kr. í tekjur á árinu 2020 án þess að námslán hans á námsárinu 2020-2021 skerðist. 45% allra skattskyldra tekna umfram frítekjumark koma til frádráttar á námsláni og skal skerðingunni að jafnaði dreift jafnt á 60 einingar.
Séu tekjur það háar að framfærslulán skerðist að fullu hafa tekjurnar einnig áhrif á mögulegt skólagjaldalán og barnastyrki.
Námsmaður, sem er að koma af vinnumarkaði og hefur ekki verið í námi síðustu 6 mánuði áður en nám hefst, á rétt á fimmföldu frítekjumarki á námsárinu.
Hvað telst til tekna?
Allar tekjur á viðmiðunarárinu sem mynda skattstofn teljast vera tekjur við útreikning námslána.
Innifalið í þessu eru m.a. launatekjur, skattskyldir náms- og rannsóknarstyrkir, kennslulaun, greiðslur í fæðingarorlofi, tryggingabætur, atvinnuleysisbætur og lífeyrisgreiðslur.
Frádráttur frá tekjum
Til viðbótar frítekjumarki koma skólagjöld, sem námsmaður fær ekki lánað fyrir og föst afborgun námsláns sem til fellur og greidd er á aðstoðarstímabilinu, til frádráttar á tekjum.