Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð
02

Fjárhæð láns og styrks

Framfærslulán

Fjárhæð framfærsluláns grundvallast á reiknaðri grunnframfærslu. Þar til viðbótar getur komið önnur framfærsla sem byggir á aðstæðum námsmanns og er þá tekið mið af högum námsmanns á námstímanum, til dæmis búsetuformi, hjúskaparstöðu, fjölda barna og tekjum. 

Þannig getur námsmaður sem býr í leigu- eða eigin húsnæði á rétt á viðbótarláni vegna húsnæðis. Er þá tekið mið af því hvort viðkomandi býr einn eða er í sambúð/giftur eða ekki, hvort börn eru á heimilinu og þá hversu mörg.

Barnastyrkur

Námsmaður á rétt á styrk til framfærslu barns/barna undir 18 ára aldri sem nemur einföldum barnalífeyri á mánuði. Fjárhæð styrksins á námsárinu 2020-2021 er kr. 5.340 pr. barn fyrir hverja ECTS-einingu. Fyrir eina önn er styrkurinn kr. 160.200 pr. barn og er þá miðað við 30 ECTS-einingar á önninni. Skilyrði er að viðkomandi sé í lánshæfu námi og að barnið eigi lögheimili hjá námsmanni.

Námsmenn sem greiða meðlag

Námsmenn sem greiða meðlag með barni undir 18 ára aldri geta einnig fengið styrk vegna meðlagsgreiðslna sem nemur sömu upphæð (kr. 5.340 pr. barn) á hverja ECTS-einingu á námsárinu.

Nánari upplýsingar um mögulegar lánsupphæðir og barnastyrki má finna með því að nota reiknivél framfærsluláns.

Beiðnir

Menntasjóðurinn sendir út beiðnir um staðfestingar á hinum ýmsu aðstæðum námsmanns ef með þarf. 

 

 

 

03

Áhrif tekna á námslán

Tekjur námsmanns á viðmiðunarári geta haft áhrif á fjárhæð veittra námslána ef þær fara yfir frítekjumark. Viðmiðunarár í þessum skilningi er upphafsár námsársins og er horft til tekna frá 1. janúar til 31. desember eins og þær koma fram í skattframtali námsmanns. Sem dæmi er árið 2019 viðmiðunarár fyrir námsárið 2019-2020.

Námsmaður má hafa  allt að 1.330.000 kr. í tekjur á árinu 2019 án þess að námslán hans á námsárinu 2019-2020 skerðist. 45% allra tekna umfram frítekjumark koma til frádráttar á námsláni og er skerðingunni dreift hlutfallslega á umsóttar einingar.
Séu tekjur það háar að framfærslulán skerðist að fullu hafa tekjurnar einnig áhrif á mögulegt skólagjaldalán.

Námsmenn sem eru að koma af vinnumarkaði og hafa ekki verið í námi síðustu 6 mánuði áður en nám hefst geta átt rétt á þreföldu frítekjumarki á fyrsta námsári eftir að nám hefst.

Hvað telst til tekna?
Allar tekjur á viðmiðunarárinu sem mynda skattstofn teljast vera tekjur við útreikning námslána á námsárinu sem um ræðir.

 Innifalið í þessu eru m.a.
launatekjur, skattskyldir náms- og rannsóknarstyrkir, kennslulaun, greiðslur í fæðingarorlofi, tryggingabætur, atvinnuleysisbætur og lífeyrisgreiðslur.

 Til frádráttar tekjum koma skólagjöld sem námsmaður fær ekki lánað fyrir og föst afborgun námsláns sem til fellur og greidd er á stuðningstímabilinu.04

Lánsáætlun

Þegar námsmaður hefur sótt um námslán og skilað inn þeim gögnum og upplýsingum sem beðið var um í sambandi við umsóknina er gefin út lánsáætlun sem birt er á Mitt LÍN. Þar kemur fram fjárhæð þess láns sem námsmaður getur vænst að fá greitt í lok hverrar annar að því tilskildu að veittar upplýsingar í umsókn reynist réttar.

Námsmenn geta framvísað lánsáætluninni í banka og fengið yfirdrátt út á hana sem þeir síðan endurgreiða með námsláninu þegar það verður borgað út í lok misseris. Verði breytingar á högum námsmanns eftir að hann skilar lánsumsókn gætu þær haft áhrif á upphæð láns.

Breytingar sem geta haft áhrif á upphæð láns eru t.d. námstímabil, fjöldi eininga, nýtt nám, nýr skóli, breyttar tekjur o.s.frv. Námsmaður skal tilkynna breytingarnar á Mitt LÍN. Sé um að ræða breytingar sem námsmaður getur ekki gefið upp á Mitt LÍN er hægt að setja sig í samband við sjóðinn með því að senda tölvupóst á netfangið lin@lin.is.

 

06

Skuldabréf

Útborgun lána er háð því skilyrði að LÍN hafi undir höndum undirritað skuldabréf  þar sem lánþegi ábyrgist endurgreiðslu lánsins. Námsmaður fær skuldabréfið sent til undirritunar áður en kemur að fyrstu útborgun námsláns. Ef námsmaður stundar nám erlendis er umboðsmanni lánþega heimilt að undirrita skuldabréfið fyrir hans hönd.

Námsmaður getur nýtt sama skuldabréfið allan námstíma sinn ef hann gerir ekki lengra námshlé en eitt námsár meðan á námi stendur. Geri námsmaður meira en eins árs hlé á námi verður skuldabréfinu lokað og afborganir þess hefjast. Námsmaður þarf þá að undirrita nýtt skuldabréf hyggist hann taka aftur námslán.

Tveir aðilar þurfa að votta rétta undirskrift á skuldabréfi.

 

Sé námsmaður á vanskilaskrá eða telst af öðrum ástæðum ekki tryggur lántaki, gerir LÍN kröfu um að hann útvegi ábyrgðarmann/menn á skuldabréfið. Ábyrgðarmenn þurfa að uppfylla tiltekin skilyrði, s.s. að vera ekki á vanskilaskrá, en einnig þarf lánveitingin að uppfylla skilyrði laga um ábyrgðarmenn, s.s. að lántaki undirgangist greiðslumat í banka.

 

Í lögum um ábyrgðarmenn er kveðið á um skyldu lánveitanda (í þessu tilviki LÍN) til að upplýsa verðandi ábyrgðarmann um þá áhættu sem felst í því að gangast í ábyrgð fyrir láni. Í því felst meðal annars að meta þarf með greiðslumati líkur á því að lántaki geti staðið í skilum á láninu og í kjölfarið þarf að kynna greiðslumat fyrir verðandi ábyrgðarmanni.

 

LÍN gerir ekki kröfu um að greiðslumat skili tiltekinni niðurstöðu (t.d. að það sé jákvætt) og þjónar það því aðeins þeim tilgangi að upplýsa verðandi ábyrgðarmann um hver greiðslugeta lántaka sé. Ef greiðslumat sýnir neikvæða niðurstöðu þarf ábyrgðarmaður að vera upplýstur um hana áður en hann gengst í ábyrgð.

 

Vakin er athygli á því að námsmenn sem eru í vanskilum við LÍN geta ekki fengið lán að nýju fyrr en búið er að koma afborgunum lána í skil.