Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

1. Kafli – Almennt

1.1 Almennt

Bæði námsmenn og greiðendur bera ábyrgð á því sjóðurinn hafi réttar samskiptaupplýsingar um viðkomandi, s.s. netfang, heimilisfang og símanúmer.

Námsmanni ber að tilkynna allar breytingar á högum sínum er haft geta áhrif á veitingu námsaðstoðar, svo sem breyttar fjölskylduaðstæður, breytingar á fjárhag, heimilisfangi, netfangi, farsímanúmeri og námsáætlun. Meðal annars ber að tilkynna sjóðnum þegar námsmaður stofnar til hjúskapar eða skráðrar sambúðar. Námsmanni ber auk þess að senda sjóðnum öll þau gögn sem hann kann að verða beðinn um vegna umsóknar um námslán eða frest á lokun skuldabréfs.

Að námi loknu fara öll samskipti sjóðsins við lántaka í gegnum netfang hans nema annars sé óskað af hans hálfu. Lántaki ber ábyrgð á því að sjóðurinn hafi réttar upplýsingar um netfang hans eftir að námi lýkur.

1.2 Fylgiskjöl og skilafrestir

Fylgiskjölum sem viðskiptavinum sjóðsins ber að skila vegna umsókna, hvort sem um er að ræða umsókn vegna láns, undanþágu, frestunar eða annars, eiga að berast sjóðnum eigi síðar en einum mánuði eftir að sá umsóknarfrestur, sem við á hverju sinni, rennur út. Að öðrum kosti er heimilt að líta svo á að viðskiptavinur sé fallinn frá umsókn og er sjóðnum þá heimilt að fella umsóknina úr gildi.

1.3 Umsóknir um námslán

1.3.1 Rafrænar umsóknir

Sótt er um námslán rafrænt í gegnum „Mitt Lán“ sem aðgengilegt er á heimasíðu sjóðsins, www.menntasjodur.is eða í gegnum island.is.

1.3.2 Umsóknir og gildistími

Sækja skal sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár. Umsóknarfrestir eru eftirfarandi:
Haust 2020 - til og með 1. september 2020
Vor 2021 - til og með 5. janúar 2021
Sumar 2021 - til og með 1. júní 2021

1.3.3 Lánsáætlun

Á grundvelli upplýsinga umsækjanda, m.a. um tekjur og fjölskylduhagi, fær hann útfyllta lánsáætlun frá sjóðnum. Eftir yfirferð lánsáætlunar ber umsækjanda að láta sjóðinn vita ef þær upplýsingar sem lagðar eru til grundvallar reynast ekki réttar.
Komi í ljós að lánsáætlun byggi á röngum upplýsingum, mistökum eða á röngum forsendum miðað við gildandi úthlutunarreglur þess námsárs sem sótt er um lán fyrir, breytist lánsáætlun til samræmis við þær reglur.

1.3.4 Umboðsmaður

Ef viðskiptavinur sjóðsins telur þörf á, getur hann óskað eftir því að hafa umboðsmann fyrir sína hönd. Umboðsmaður hefur umboð til að annast mál lántaka fyrir hans hönd og heimild til að fá afhentar upplýsingar varðandi lántaka. Viðskiptavinur ber ábyrgð á að Menntasjóður hafi rétt heimilisfang, netfang og síma umboðsmanns.

1.3.5 Greiðsla félagsgjalda

Menntasjóðurinn innheimtir gjald vegna félagsaðildar að Sambandi íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE), óski námsmaður þess. Félags-gjaldið er dregið af námsláni.

1.4 Lánshæfi námsmanna

Skilyrði til aðstoðar frá sjóðnum er að umsækjandi sé orðinn fjárráða á þeirri önn sem sótt er um námslán fyrir.

Það nám sem lánþegi stundar þarf að vera lánshæft, sbr. 2. kafla og lánþegi þarf að uppfylla lágmarkskröfur um námsframvindu, sbr. 3. kafla.

Námsmaður getur ekki fengið lán frá sjóðnum ef hann þiggur á sama tíma námsaðstoð frá öðru ríki.

Námsmaður sem þiggur námsstyrk samkvæmt lögum um námsstyrki nr. 79/2003 á ekki rétt á námsláni á þeirri önn sem hann fær styrkinn.

Til þess að námsmaður teljist lánshæfur hjá sjóðnum má hann ekki vera í vanskilum við sjóðinn þegar sótt er um lán.

Ef námsmaður hefur vísvitandi veitt sjóðnum rangar eða villandi upplýsingar fellur öll námsaðstoð við hann niður og aðstoð sem hann kann að hafa fengið vegna slíkra upplýsinga ber námsmanni að endurgreiða með verðbótum frá útborgunardegi. Þetta á m.a. við ef sannað þykir að námsmaður hafi gefið upp rangar tekjur samkvæmt skilgreiningu sjóðsins um tekjur, þegar viðkomandi skattaári er lokið.

1.5 Réttur til aðstoðar vegna náms á Íslandi

 Námsmaður sem sækir um námslán til þess að stunda nám á Íslandi þarf auk skilyrða sem koma fram í grein 1.4 að uppfylla eitt af þeim skilyrðum sem koma fram í greinum 1.5.1-1.5.6. Sjóðurinn áskilur sér rétt til að gera kröfu um að umsækjandi skili viðurkenndum staðfestingum um þá stöðu sem hann grundvallar umsókn sína um námslán á.

Með aðstandanda námsmanns er í kafla þessum átt við maka, niðja og/eða niðja maka ef niðjinn er yngri en 21 árs og á framfæri námsmanns og ættmenni hans eða maka hans, í beinan legg, sem er á framfæri hans.

1.5.1 Réttindi íslenskra og norrænna námsmanna

Ríkisborgarar Íslands og Norðurlandanna eiga rétt á að fá námsaðstoð til þess að stunda nám á Íslandi. 

1.5.2 Réttindi ríkisborgara EES- og EFTA ríkja sem eru launþegar/sjálfstætt starfandi og aðstandenda þeirra

Ríkisborgari EES- eða EFTA ríkis sem er launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi á Íslandi, eða heldur stöðu sinni sem slíkur, ásamt aðstandanda hans, á rétt á því að fá námsaðstoð til þess að stunda nám á Íslandi. Að jafnaði er miðað við að vinnuframlag ríkisborgarans sé ekki undir 40 klukkustundum á mánuði á meðan á námi hans eða aðstandanda hans stendur og skal hann senda mánaðarlega inn afrit af launaseðli sínum inn á gagnaskil Mitt Lán.

EES- eða EFTA- ríkisborgari sem hættir að vera launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur heldur stöðu sinni sem slíkur við eftirfarandi aðstæður;

a. Á meðan hann er tímabundið óvinnufær vegna veikinda eða slyss.

b. Hann staðfestir að hann sé atvinnulaus án eigin atbeina eftir að hafa unnið við launað starf í meira en eitt ár og er jafnframt í virkri atvinnuleit á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar,

c. Hann staðfestir að hann sé atvinnulaus án eigin atbeina eftir að lokið er ráðningarsamningi sem er til skemmri tíma en eins árs eða hann hefur án eigin atbeina misst atvinnu á því tímabili og er jafnframt í virkri atvinnuleit á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Í því tilviki skal hann halda stöðu sinni sem launþegi í a.m.k. sex mánuði,

d. Hefji hann starfsnám,

e. Sé ekki um að ræða atvinnuleysi fyrir eigin atbeina skal hann einungis halda stöðu sinni sem launþegi ef starfsnámið tengist fyrra starfi hans.

1.5.3 Réttindi ríkisborgara EES- og EFTA-ríkja sem hafa öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar hérlendis og aðstandenda þeirra

Ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis sem öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar hérlendis og aðstandendur hans eiga rétt til námsaðstoðar til þess að stunda nám á Íslandi. 

1.5.4 Réttindi annarra erlendra ríkisborgara

Erlendur ríkisborgari sem er í hjúskap eða hefur um tveggja ára skeið verið í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og hefur átt lögheimili á Íslandi að lágmarki tvö ár af síðastliðnum fimm árum áður en nám hefst á rétt til námsaðstoðar til að stunda nám á Íslandi.

1.5.5 Réttindi flóttamanna

Erlendur ríkisborgari sem hefur fengið dvalarleyfi hér á landi sem flóttamaður á grundvelli alþjóðlegrar verndar á rétt til námsaðstoðar til að stunda nám á Íslandi. Við umsókn þarf flóttamaður að skila staðfestingu frá Útlendingastofnun um stöðu sína.

1.5.6 Réttindi erlendra ríkisborgara með ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi

Erlendur ríkisborgari sem hefur ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi á rétt til námsaðstoðar til að stunda nám á Íslandi.

1.6 Réttur til aðstoðar vegna náms erlendis

1.6.1 Almennt

Námsmaður sem sækir um lán til þess að stunda nám erlendis þarf að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:

1. Almenn skilyrði samkvæmt grein 1.4.
2. Eitt af þeim skilyrðum sem koma fram í greinum 1.5.1- 1.5.6 og
3. hafa búið á Íslandi í að lágmarki tvö ár af síðastliðnum fimm árum áður en nám hefst og hafa sterk tengsl við íslenskt samfélag að mati Menntasjóðsins.

Ríkisborgari EES- eða EFTA- ríkis og aðstandandi hans er undanþeginn skilyrði um búsetu á Íslandi í tvö ár af síðustu fimm vegna náms innan EES- eða EFTA-ríkis.

Yfirlit