Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

14. Kafli – Endurgreiðslur

 

14.1 Endurgreiðslutími

Lánþega er heimilt að greiða inn á eða greiða upp námslán fyrr en ákvæði skuldabréfs kveða á um án viðbótarkostnaðar. 
Einstaklingur sem greiðir aukalega inn á námslánaskuldabréf samkvæmt eldri lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna á rétt á afslætti vegna aukainnborgunarinnar sem nemur 5-15% af ógjaldföllnum eftirstöðvum skuldabréfs fyrir greiðslu. Hlutfall afsláttar af aukainnborgun ræðst af eftirstöðvum námslána greiðanda og er 5% ef skuld lántaka er 1 milljón króna eða lægri, hækkar línulega eftir það og verður að hámarki 15% séu eftirstöðvar 4,8 milljónir eða hærri. Beiðni um aukainnborgun skal berast í gegnum heimasvæði greiðanda inn á Mitt Lán.

Einstaklingar eiga ekki rétt á afslætti vegna aukainnborgunar inn á námslán nema endurgreiðsla á einu eða fleiri námslána hans sé hafin. 

Sækja þarf um uppgreiðsluafslátt inn á Mitt Lán og dregst hann frá heildarskuld lánsins þegar greitt er. Í þeim tilvikum þar sem annar en skuldari námsláns greiðir upp námslánið skal sækja um uppgreiðsluafsláttinn innan þriggja mánaða frá greiðslu og senda beiðni um það inn á menntasjodur@menntasjodur.is þar sem afsláttur skal endurgreiddur til þess aðila sem greiddi inn á námslánið.

14.2 Árleg endurgreiðsla

14.2.1 Endurgreiðslur námslána

Endurgreiðslur námslána eru 1. hvers mánaðar og skiptast í annars vegar jafngreiðslulán þar sem endurgreiðslutími fer eftir fjárhæð lánsins og hins vegar tekjutengd lán þar sem endurgreiðsla fer eftir tekjum lántaka en þó með ákveðinni fastri lágmarksfjárhæð, sjá nánar grein 14.2.3.
Einungis lántakar sem eru undir 40 ára aldri við námslok (á því almanaksári) hafa heimild til að velja tekjutengdar afborganir.
 

14.2.2 Endurgreiðslufyrirkomulag háð lántökufjárhæð

Lán skulu vera endurgreidd sem jafngreiðslulán með mánaðarlegum endurgreiðslum 1. dag hvers mánaðar. Lengd lánstíma tekur mið af heildarfjárhæð skuldabréfsins og aldri lántaka þar sem lántaki skal greiða upp lánið fyrir 65 ára aldur. Endurgreiðslur verða eftirfarandi:

                            Endurgr.-             Árlegar endurgreiðslur*
    Námslánaskuld                        tími (ár)                   Lægsta   Hæsta
                0        399.999          2                              0          200.000
   400.000        -799.999          4                     100.000       200.000
   800.000     - 1.599.999         6                     133.333   266.667
1.600.000 - 2.399.999  8                     200.000   300.000
2.400.000 - 3.199.999 10                     240.000   320.000
3.200.000 - 3.999.999 12                     266.667   333.333
4.000.000 - 4.799.999 14                     285.714   342.857
4.800.000 - 5.599.999 16                     300.000   350.000
5.600.000 - 6.399.999 18                     311.111   355.556
6.400.000 - 7.199.999 20                     320.000   360.000
7.200.000 - 7.999.999 22                     327.273   363.636
8.000.000 - 8.799.999 24                     333.333   366.667
8.800.000 - og hærra 25                     352.000   ?

* Upphæðir án vaxta og verðbóta.

14.2.3 Tekjutengd endurgreiðsla námsláns

Lántaka er aðeins heimilt að velja tekjutengda endurgreiðslu ef námslok eru áður eða á því ári er 40 ára aldri er náð.

Tekjutengd endurgreiðsla er innheimt mánaðarlega og hver afborgun byggð upp af tveimur þáttum. Annars vegar er föst afborgun, óháð tekjum og hins vegar er tekjutengd afborgun.

Fjárhæð fastrar afborgunar er bundin vísitölu neysluverðs og tekur breytingum í takt við mánaðarlegar breytingar á vísitölunni. Fjárhæð fastrar afborgunar er kr. 10.000 miðað við neysluverðsvísitöluna 470,5.

Mánaðarleg tekjutengd afborgun er 0,3125% af tekjustofni lánþega. Fyrstu átta mánuði endurgreiðsluársins er miðað við tekjustofn lánþega tveimur árum á undan endurgreiðsluári, en síðustu fjóra mánuði endurgreiðsluársins er miðað við tekjustofn lánþega ársins á undan endurgreiðsluári. Tekjutengd afborgun skal greidd mánaðarlega fyrsta dag hvers mánaðar. Frá fjárhæð tekjutengdrar afborgunnar dregst fjárhæð fastrar afborgunnar.

Með tekjustofni er átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum fjármagnstekjum, sbr. c–lið 7. grein laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Ef lánþegi er í skráðri sambúð er miðað við 50% fjármagnstekna hans og sambúðaraðilans og skiptir þá ekki máli hvort tekjurnar eru af séreign samkvæmt kaupmála eða hjúskapareign. 
Sé lánþega áætlaður skattstofn skal miða við hann. Sé lánþegi á endurgreiðslutíma ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skulu mánaðarlegar endurgreiðslur ákveðnar í samræmi við það. Við myndun gjalddaga eru erlendar tekjur umreiknaðar í íslenskar krónur fyrir viðkomandi mynt og er miðað við meðalgengi Seðlabanka Íslands þess tekjuárs sem afborgun er reiknuð út frá. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal sjóðurinn áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu með ríflegu álagi.

Lánþegi á rétt á endurútreikningi mánaðarlegra greiðslna hafi þær verið byggðar á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 15 dögum eftir gjalddaga afborgunar en umsókn frestar ekki innheimtu á gjalddaga. Endurútreikningur fer fram þegar sjóðnum hafa borist bestu fáanlegar upplýsingar um tekjur greiðanda. Þegar staðfestar tekjuupplýsingar liggja fyrir skulu þær sendar sjóðnum og endurútreikningurinn endurskoðaður til samræmis. Hafi tekjustofn verið of hátt áætlaður skal lánþega endurgreidd ofgreidd fjárhæð.

Verði veruleg vanskil á endurgreiðslu námsláns eða hafi lánþegi vantalið tekjur sínar á framtali er heimilt að fella allt lánið í gjalddaga. Hækkun á viðbótargreiðslu vegna endurskattlagningar er gjaldkræf þegar í stað ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma frá gjalddaga greiðslunnar.

 


 
 
 
Yfirlit