Úrskurður
Ár 2000, þriðjudaginn 27. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-15/2000.
Kæruefni
Með kæru dagsettri 5. september 2000 kærði lánþegi, úrskurð
stjórnar LÍN frá 25. nóvember 1999 í málinu nr. L-318/99 þar sem hafnað var
beiðni kæranda um lán fyrir skólagjöldum.
Með bréfi dagsettu 8.
september sl. var stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna gefinn kostur á að tjá
sig um framkomna kæru. Umsögn stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna er dagsett
21. september 2000.
Kæranda var send umsögn stjórnar LÍN með bréfi
dagsettu 26. september sl. og honum gefinn fjórtán daga frestur til að koma
frekari sjónarmiðum á framfæri við nefndina. Af hálfu kæranda voru gerðar
frekari athugasemdir í bréfi dagsettu 10. október sl.
Málskotsnefnd LÍN
sendi kæranda bréf 20. desember 2000 þar sem óskað var eftir að kærandi léti
nefndinni í té læknisvottorð sem gerði námkvæma grein fyrir fötlun hans. Þann 3.
janúar 2001 óskaði Réttindaskrifstofa stúdenta fyrir hönd kæranda eftir frekari
fresti til að afla læknisvottorðs og var sá frestur veittur með bréfi dagsettu
5. janúar sl. og stjórn LÍN tilkynnt um frestunina.
Læknisvottorð Péturs
Lúðvíkssonar var móttekið 31. janúar sl. Í framhaldi af því var í bréfi
nefndarinnar dagsettu 16. febrúar sl. til Péturs óskað frekari upplýsinga um
ástand kæranda og voru Réttindaskrifstofu stúdenta og stjórn LÍN sent afrit þess
bréfs. Pétur Lúðvíksson læknir sendi málskotsnefnd síðan annað vottorð og er það
dagsett og sendi læknirinn annað vottorð dagsett 11. mars sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að kærandi er með dyslexia og dysgraphia sem
er einnig kallað lesblinda eða sértækir lestrar- og skriftarörðugleikar. Skv.
vottorði Sölvínu Konráðs, ráðgefandi sálfræðings, er kærandi með dyslexiu sem
hamlar námsárangri hans verulega. Telur þó námsgetu hans miðað við
námshæfisprófun vera talsvert yfir meðallagi. Vottorð Salóme Þórisdóttur á
Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík dagsett 6. apríl 1999 um að
kærandi sé greindur með dyslexia og dysgraphia liggur fyrir. Kærandi stundar BA
nám í "industrial design" við University of Central England in Birmingham
og sótti um námslán fyrir skólagjöldum 7. júlí 1999 en því var hafnað í bréfi
dagsettu 8. júlí 1999.
Með bréfi til LÍN, sem móttekið var af sjóðnum 3.
september 1999, óskaði kærandi eftir undanþágu skv. grein 4.8. í
úthlutunarreglum sjóðsins. Í bréfi LÍN dags. 16. september 1999 óskaði sjóðurinn
eftir vottorði sérfræðings um fötlun kæranda ásamt upplýsingum frá
menntamálaráðuneytinu um þá menntun sem námsmönnum með þessa fötlun stendur til
boða hér á landi. Samkvæmt bréfi menntamálaráðuneytisins dagsettu 20. október
1999 segir að ljóst sé að það nám, sem kærandi hyggist stunda, sé kennt hér á
landi við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Síðan segir í bréfinu að líklegt
megi telja að aðstaða fyrir nemendur með dyslexiu sé betri við þann erlenda
skóla, sem kærandi hafi sótt um inngöngu í, heldur en í sambærilegu námi hér á
landi.
Í bréfi myndlistardeildar Listaháskóla Íslands dagsettu 2.
september 1999 segir hins vegar að deildin hafi ekki tök á að sinna kennslu
fyrir fatlaða nemendur né bjóða upp á nokkra aðstöðu fyrir þá til að stunda nám
hér eins og sakir standi. Nemendur eins og kærandi hafi því ekki kost á að sækja
nám hér á landi í þeim greinum myndlistar og hönnunar sem myndlistardeild
skólans bjóði upp á. Þá liggur frammi í málinu vottorð Listaháskóla Íslands
dagsett 14. ágúst 2000 þar sem staðfest er að iðnhönnun sé ekki kennd við
Listaháskóla Íslands.
Kærandi byggir kröfu sína um undanþágu frá grein
4.8 í úthlutunarreglum LÍN á því að hann sé með alvarlega námsfötlun sem komi
m.a. í veg fyrir að hann geti lokið við framhaldsskólastigið hér á landi miðað
við núverandi kröfur. Hefur kærandi sent nefndinni fjölda gagna um uppbyggingu
námsins.
Þá sendi kærandi nefndinni taugasálfræðilega athugun Jónasar G.
Halldórssonar sálfræðings og sérfræðings í klínískri taugasálfræði og fötlunum,
þar sem fram kemur m.a. að taugasálfræðilegir veikleikar séu til staðar í
þroskamynstri tengdir sjónrænni úrvinnslu og áttun, hljóðgreiningu, ákveðnum
minnisþáttum og einbeitingu og meðferð skriffæris. Veikleikar hafi leitt til
sértækrar lesröskunar og þeir hafi einnig haft áhrif á skrift, stafsetningu og
ákveðna þætti stærðfræðinnar. Síðan segir að sértækir námserfiðleikar geti komið
niður á sjálfstrausti og krafti við nám og leitt til kvíða. Álit sálfræðingsins
er að þörf sé á áframhaldandi stuðningi og tilhliðrunum í skóla og aðlaga þurfi
kennslu að taugasálfræðilegum styrkleikum auk þess sem huga þurfi vel að
prófaðstæðum.
Stjórn LÍN vísar til meginreglunnar í grein 4.8 í
úthlutunarreglum LÍN um að lán til skólagjalda séu einungis veitt til
framhaldsháskólanáms en heimilt sé að veita undanþágu frá reglunni ef námsmaður
sé verulega fatlaður, geti sannanlega ekki stundað nám sitt hér á landi að
óbreyttum aðstæðum og sérstakar ástæður mæli með því. Ekki sé hægt að fallast á
að í máli kæranda liggi fyrir viðhlítandi gögn til staðfestingar því að kærandi
sé verulega fatlaður. Til að undanþága vegna fötlunar komi til álita hafi
sjóðurinn sett það skilyrði að fötlunin sé staðfest með læknisvottorði. Þá hafi
stjórn sjóðsins túlkað undanþáguákvæði eins og þetta þröngt og miðað verulega
fötlun við örorku sem samkvæmt læknisvottorði sé metin 75% eða meiri.
Niðurstaða
Í grein 4.8 í úthlutunarreglum segir að lán vegna skólagjalda
séu aðeins veitt til framhaldsháskólanáms. Stjórn sjóðsins er heimilt að veita
undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar ef námsmaður er verulega fatlaður, getur
sannanlega ekki stundað nám sitt hér á landi að óbreyttum aðstæðum og sérstakar
ástæður mæla með undanþágu. Ofangreint nám kæranda á Englandi fellur ekki undir
skilgreininguna framhaldsháskólanám og því reynir á undanþáguheimildina.
Lögð hafa verið fram ýmis gögn um aðstæður kæranda en læknisvottorð eru
tvö og eru bæði undirrituð af Pétri Lúðvígssyni, sérfræðingi í heila- og
taugasjúkdómum barna. Fyrra vottorðið er móttekið 31. janúar 2001 og er
svohljóðandi: "Að beiðni Harðar vottast hér með að ég greindi hann með
sértæka lestrarörðugleika ("lesblindu") í desembermánuði 1990. Vinsamlega
tilkynnið undirrituðum ef frekari upplýsinga er þörf." Með bréfi dagsettu
16. febrúar sl. til Péturs Lúðvígssonar óskaði málskotsnefnd eftir ítarlegra
vottorði þar sem óskað var upplýsinga um hvort hann teldi að hinni sértæku
lestrarörðugleikar kæranda væru veruleg fötlun og ef svo væri var óskað eftir
nákvæmri útlistun á því í hverju sú fötlun væri fólgin. Jafnframt var óskað
álits læknisins á því hvort breyting gæti orðið á því ástandi með tímanum.
Í seinna vottorði Péturs dagsettu 11. mars 2001 kemur fram að Pétur hafi
ekki fylgt kæranda eftir síðan 1990 og geti því ekki svarað til um ástand hans
nú. Almennt sé þó ljóst að sértækir námsörðugleikar geti verið veruleg fötlun,
sérstaklega hjá einstaklingum sem leggi fyrir sig langskólanám. Undir þeim
kringumstæðum geti sértækir námsörðugleikar verið nægilega hamlandi til þess að
teljast alvarleg fötlun.
Hvorugt þessara vottorða né áðurgreind
taugasálfræðileg athugun verður talið næg staðfesting um að kærandi eigi við
verulega fötlun að stríða og því verður ekki talið að það skilyrði greinar 4.8
sé uppfyllt til að unnt sé að veita kæranda námslán vegna skólagjalda. Hins
vegar er heimilt að taka tillit til aðstæðna kæranda við mat á námsárangri sbr.
heimild í grein 2.3.3 í úthlutunarreglum LÍN.
Að þessu virtu er
úrskurður stjórnar LÍN í málinu nr. L-318/99 staðfestur með vísan til forsendna
hans.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 25. nóvember 1999 í máli kæranda nr. L-318/99 er staðfestur.