Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2000 - Útreikningur námslána - tekjuútreikningur

Úrskurður

 

Ár 2000, miðvikudaginn 12. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-2/2000.

 

Kæruefni

 

Með kæru dags. 2. febrúar sl. kærði lánþegi, þann úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 4. nóvember sl. í málinu L-520/99, þar sem ósk hennar um að miðað væri við þriggja mánaða meðaltekjur við útreikning á láni hennar var hafnað þar sem hún hafði ekki verið í fullri vinnu a.m.k. sjö og hálfan mánuð á árinu 1999. 

Með bréfi dags. 9. febrúar sl. var stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Umsögn stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna er dags. 25. febrúar sl. Kæranda var með bréfi dags. 2. mars sl. gefinn kostur á að tjá sig um umsögn stjórnar LÍN og eru athugasemdir kæranda dags. 14 mars sl.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi hóf nám við Akademiökonom i turisme við Handelsskolen í Randers, Danmörk haustið 1997. Námið sem tók tvö og hálft ár var skipulagt sem bóklegt og verklegt nám þannig: 

Bóklegt nám: Verklegt nám:
1/9 1997 - 31/3 1998 1/4 1998 - 30/9 1998
1/10 1998 - 31/3 1999 1/4 1999 - 30/9 1999
1/10 1999 - 28/2 2000
Verklegt nám kæranda var launað.

Þegar kærandi hóf nám haustið 1997 var ákvæði 1. mgr., gr. 3.3.2 í úthlutunarreglum LÍN orðað svo: "Heimilt er að leggja þriggja mánaða jafnaðartekjur, að frádregnum sköttum, til grundvallar við útreikning á lánsupphæð hjá námsmanni sem kemur úr námshléi, enda liggi fyrir staðfesting á að hann hafi verið í fullri vinnu lengur en 6 mánuði á árinu." 

Við útreiking námsláns kæranda á árinu 1998 var byggt á ofangreindu ákvæði, en verklegi hluti náms kæranda nam sex mánuðum hvort ár. 

Við afgreiðslu lánsumsóknar kæranda á árinu 1999 hafnaði stjórn LÍN ósk kæranda um að tekjur hennar árið 1999 yrðu meðhöndlaðar skv. gr. 3.3.2 í úthlutunarreglum LÍN, líkt og gert hafði verið árið áður. Vísaði stjórn LÍN til þeirrar breytingar, sem gerð hafði verið á gr. 3.3.2 í úthlutunarregum LÍN þess efnis, að gert var að skilyrði að námsmaður hafi verið í vinnu a.m.k. 7,5 mánuði í stað 6 mánaða áður. 

Í rökstuðningi sínum bendir kærandi m.a. á að er hún hóf nám sitt hafi nefnd 6 mánaða regla verið í gildi og hafi kærandi verið fullvissaður um að hún gilti við afgreiðslu lána hennar m.t.t. verklega hluta námsins, sem var launaður. 

Þá bendir kærandi einnig á að hún hafi fengið námslán sitt útreiknað miðað við 6 mánaða regluna á árinu 1998. 

Stjórn LÍN rökstyður synjun sína með vísan til þeirra breytinga, sem gerðar hafi verið á gr. 3.3.2 í úthlutunarreglum LÍN. Breytingarnar hafi verið samþykktar í stjórn LÍN 21. maí 1999, staðfestar af menntamálaráðherra 22. maí 1999 og birtar í Stórnartíðindum 10. júní 1999 og beri stjórninni að fara eftir gildandi úthlutunarreglum á hverjum tíma.

 

 

Niðurstaða

 

Er kærandi hóf nám í síðari verklega hluta námsins þann 1. apríl 1999 var það skilyrði fyrir beitingu gr. 3.3.2 í úthlutunarreglum LÍN, að námsmaður hafi verið í fullri vinnu lengur en 6 mánuði á árinu. Einnig liggur fyrir að nefndri reglu var beitt við útreikning á láni til kæranda á árinu 1998. 

Ekki verður fallist á að breyting sú sem gerð var á gr. 3.3.2 í úthlutunarreglum LÍN og tóku gildi með birtingu í Stjórnartíðindum þann 10. júní 1999, eða rúmum mánuði eftir að kærandi hóf verklegt nám sitt, gildi í tilviki kæranda. Gagnvart kæranda felur breytingin í sér afturvirka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun, sem ekki fær staðist. 

Með vísan til framanritaðs er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN felldur úr gildi.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 4. nóvember 1999 í málinu nr. L-520/99 er felldur úr gildi.

Til baka