Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-03/2000 - Lánshæfi - lánshæfi sérnáms lækna

Úrskurður

Ár 2000, fimmtudaginn 20. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-3/2000.

Kæruefni

Með bréfi dags. 3. febrúar 2000 kærði lánþegi, úrskurð stjórnar LÍN dags. 27. september 1999 í málinu nr. L-408/99. Í nefndum úrskurði stjórnar LÍN er umsókn kæranda um námslán vegna sérfræðináms hans í bæklunarskurðlækningum hafnað með vísan til gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN, á þeirri forsendu að eiginlegur hluti náms nái ekki 75% af heildarstarfstíma námsmannsins, heldur sé í raun launað starf sem sé ekki lánshæft skv. reglum LÍN.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 11. febrúar 2000 þar sem stjórninni var gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust með bréfi dags. 25. febrúar 2000 og var kæranda með bréfi dags. 2. mars 2000 gefinn kostur á að tjá sig um þær athugasemdir. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 8. mars 2000. Með bréfi dags. 15. mars 2000 sendi málskotsnefnd LÍN kæranda nokkrar fyrirspurnir vegna málsins, en svör við þeim fyrirspurninum bárust nefndinni dags. 24. mars 2000.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundar sérnám í bæklunarskurðlækningum við háskólasjúkrahúsið í Gautaborg. Samhliða hinu eiginlega sérfræðinámi stundar kærandi doktorsnám í bæklunarskurðlækningum við bæklunardeild Sahlgrenska háskólasjúkrahússins og háskólann í Gautaborg. Áætlar kærandi að verja doktorsritgerð sína vorið 2005.

Fyrir liggur að kærandi stundar vinnu á sjúkrahúsi í tengslum við námið. Af hálfu stjórnar LÍN er því haldið fram að skv. gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN sé ekki veitt lán til náms sem er liður í launuðu starfi samkvæmt ráðningarsamningi. Þetta gildi m.a. um launað framhaldsnám lækna. Stjórn sjóðsins hefur þó heimild skv. nefndri grein til að lána til slíks náms í samræmi við mat á samningsbundnum ákvæðum um námið og á þeim launum sem greidd eru. Í því sambandi hefur LÍN miðað við að hluti eiginlegs náms sé a.m.k. 75% af heildarstarfstíma námsmanns og launin séu óveruleg. Að áliti stjórnar LÍN eiga þessi undanþáguákvæði ekki við í tilfelli kæranda, enda séu störf hans sem læknir á háskólasjúkrahúsinu í raun launuð vinna og launin veruleg, eða sambærileg við það sem háskólamenntuðum mönnum standi til boða á Íslandi er erlendis fyrst í stað að loknu háskólanámi.

Af hálfu kæranda er ofangreindri túlkun stjórnar LÍN hafnað. Í fyrsta lagi vegna þess að hann stundi í raun meira en 100% nám og því ekki rétt hjá LÍN að hann nái ekki 75% af eiginlegu námi. Þá telur kærandi rangt að það hafi nokkur áhrif á lánshæfið sjálft hvort launin séu veruleg eða óveruleg. Rétturinn á lánshæfni námsins sé eitt, en lánsupphæðin sjálf ákvarðist svo af þeim tekjum sem námsmaður hafi skv. reglum þar að lútandi. Kærandi tekur sérstaklega fram að hann starfi ekki sem sjálfstætt starfandi læknir nú, heldur séu allar ákvarðanir gerðar í samráði og með leyfi eldri og reyndari sérfræðings.

Kærandi bendir jafnframt á að LÍN veiti nú þegar lán til ýmis konar náms er byggist að verulegu leyti á verknámi s.s. nám í Fiskvinnsluskólanum, iðnnámi í allt að 6 misseri, nám aðstoðarfólks tannlækna, sjúkraliðanám, snyrtifræðinám o.fl. Þá bendir kærandi á að skv. álitsgerðum umboðsmanns Alþingis hafi verið talið að sérnám lækna erlendis sé lánshæft. Kærandi bendir jafnframt á að sérnám sé nú nauðsynlegur hluti læknanámsins, enda fái læknir ekki að starfa við helstu sjúkrastofnanir á Íslandi nema vera með sérnám af einhverju tagi að baki.

Kærandi telur að úrskurður stjórnar LÍN í málinu nr. L-15/1998, mál kæranda, er stundaði nám í augnlækningum í Bandaríkjunum, sé fordæmisgefandi í þessu máli, en þar hafi málskotsnefnd LÍN úrskurðað að námið væri lánshæft þó stór hluti þess fælist í launaðri vinnu á sjúkrahúsi.

Stjórn LÍN telur framangreindan úrskurð í málinu nr. L-15/1998 hafa takmarkað fordæmisgildi hér þar sem úthlutunarreglum LÍN hafi verið breytt eftir að sá úrskurður gekk. Vísar stjórn LÍN sérstaklega til viðbótar sem búið er að gera við 3. mgr. gr. 1.1. í úthlutunarreglunum er fjalli nú sérstaklega um launað framhaldsnám lækna.

Niðurstaða

Fyrir liggur að kærandi stundar framhaldsnám í bæklunarskurðlækningum í Svíþjóð. Liður í náminu eru launuð störf hans á sjúkrahúsi og liggur m.a. fyrir í málinu ráðningarsamningur kæranda við viðkomandi sjúkrahús og staðfesting þess efnis að laun hans nemi SEK 22.300- á mánuði.

Í máli þessu kemur einkum til skoðunar gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 1999-2000. Meginreglan í gr. 1.1. er sú að LÍN lánar til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Þá er sjóðnum og heimilt að veita námslán til sérnáms.

3. mgr. gr. 1.1. í úthlutunarreglunum hljóðar svo:

"Lán er ekki veitt til náms sem er liður í launuðu starfi samkvæmt ráðningarsamningi. Þetta gildir m.a. um launað framhaldsnám lækna. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að lána til slíks náms í samræmi við mat á samningsbundnum ákvæðum um námið og á þeim launum sem greidd eru."

Vegna hinna launuðu starfa kæranda í tengslum við nám hans sendi málskotsnefndin kæranda beiðni um upplýsingar um eftirfarandi atriði með bréfi dags. 15. mars 2000:

1.     Upplýsingar um hversu mikill hluti af starfi kæranda væri nauðsynlegur þáttur af
náminu eins og er skipulagt af skólanum.

2.     Hversu mikið starf hann tæki að sér nú umfram það sem beinlínis er nauðsynlegt
vegna námsins.

3.     Upplýsingar um heildartekjur námsmanns á mánuði og hvernig þær tekjur skiptast,
annars vegar vegna vinnunnar sem er hluti af náminu og hins vegar vegna annarra starfa.

Í svari kæranda dags. 24. mars 2000 kemur fram að allt starf sem hann stundar sé nauðsynlegur þáttur í náminu, að öðru leyti en því að hann taki að sér vaktavinnu án beinnar aðstoðar sérfræðings. Sú vinna sé að meðaltali um 30 klst. á mánuði eða um 18% af heildarvinnu mánaðarins. Öll önnur vinna sé námsvinna og hluti af náminu, framkvæmd undir leiðsögn sérfræðings og því ekki sjálfstæð læknisvinna.

Kærandi kveður laun sín vera SEK 22.600- á mánuði fyrir námstengda vinnu, en vaktavinnulaunin séu ekki innifalin í þeirri fjárhæð. Launin fyrir þá vinnu nemi u.þ.b. SEK 3.300- á mánuði.

Fyrir liggur að störf kæranda á sjúkrahúsi samhliða náminu eru forsenda þess að hann öðlist þá prófgráðu sem hann sækist eftir. Vegna skýrs orðalags 3. mgr. gr. 1.1. í núgildandi úthlutunarreglum LÍN, verður ekki hjá því komist að skilgreina nám kæranda sem launað framhaldsnám lækna, sem ekki er veitt lán til. Tilvísanir kæranda til álitsgerða Umboðsmanns Alþingis og máls Jóhannesar Kára Kristinssonar þykja ekki eiga við í máli þessu, enda er framangreint ákvæði í úthlutunarreglunum nýtt af nálinni, en það kom fyrst inn í úthlutunarreglurnar fyrir námsárið 1998-1999.

Með vísan til framangreindra atriða og gagna málsins að öðru leyti er úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 27. september 1999 í málinu nr. L-408/99 er staðfestur.

Til baka