Úrskurður
Ár 2000, miðvikudaginn 10. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-4/2000.
Kæruefni
Með kæru dagsettri 7. febrúar 2000, kærði lánþegi, úrskurð
stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 3. nóvember 1999 í máli L-530/99 þar
sem námslok kæranda voru talin vera lok vormisseris 1997 og jafnframt talið að
miða ætti upphaf afborgana af námsláni hans við 30. júní 1999. Kærandi óskaði
eftir endurupptöku máls síns með bréfi til stjórnar LÍN dags. 22. nóvember sl.
en þeirri beiðni var hafnað með bréfi dagsettu 23. desember 1999.
Kærandi hefur krafist þess fyrir málskotsnefnd að úrskurði stjórnar LÍN
verði breytt á þann veg að viðurkennt verði að fyrstu afborganir af greiðslum
námslána hans verði með gjalddaga 1. mars 2000.
Með bréfi dagsettu 10.
febrúar sl. var framangreind kæra endursend kæranda þar eð hún væri of seint
fram komin. Þessu mótmælti kærandi með í bréfi dagsettu 14. febrúar sl. og
krafðist þess að kæran yrði tekin til efnislegrar meðferðar.
Með bréfi
dagsettu 28. febrúar sl. var stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna gefinn kostur
á að tjá sig um framkomna kæru innan tveggja vikna. Umsögn stjórnar Lánasjóðs
íslenskra námsmanna er dagsett 24. mars 2000.
Kæranda var send umsögn
stjórnar LÍN með bréfi dagsettu 29. mars sl. og honum gefinn fjórtán daga
frestur til að koma frekari sjónarmiðum á framfæri við nefndina. Kærandi sendi
frekari athugasemdir í bréfi dagsettu 4. apríl sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að kærandi stundaði nám við lagadeild Háskóla
Íslands. Síðasta misseri námsins tók hann sem Erasmus stúdent við háskóla í
Austurríki og lauk þar námi um mánaðamótin júní/júlí 1997. Síðan lauk hann
lokaritgerð sinni og útskrifaðist í október 1997.
Ágreiningur aðila
snýst um það hvort kærandi eigi að hefja endurgreiðslur námslána sinna 30. júní
1999 eins og LÍN gerir kröfu til eða 1. mars 2000 eins og kærandi heldur fram.
Af hálfu kæranda er byggt á því að í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um
LÍN segi að námslán skuli ekki veita nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti
en það hafi átt við um námsframvindu hans sjálfs miðað við að nám hans í
Austurríki sé viðurkenndur hluti laganáms hans hér á landi. Hann hafi í samræmi
við þetta fengið lokagreiðslur frá LÍN 4. nóvember 1997 en hafi síðan verið
krafinn um endurgreiðslu tæpum 18 mánuðum eftir það þótt í 4. mgr. 7. gr.
framangreindra laga segi að endurgreiðsla námslána skuli hefjast tveimur árum
eftir námslok.
Þá telur kærandi að málsmeðferðin hjá LÍN brjóti gegn
stjórnsýslulögum og eðlilegum samskiptareglum. Með því að svara ekki bréfi
kæranda frá 17. janúar 1999 hafi málinu ekki verið hraðað eins og eðlilegt sé í
stjórnsýslurétti, andmálaréttur hafi ekki verið virtur, enginn rökstuðningur
hafi fylgt o.fl. Málsmeðferðin eigi að leiða til þess að vafi sé túlkaður
kæranda í hag.
Kærandi byggir ennfremur á því að jafnræðisregla
stjórnsýsluréttar hafi verið brotin þar sem fram komi í bréfi LÍN dags. 15.
nóvember 1999 að þeir, sem voru í sömu aðstöðu og kærandi einu ári fyrr, hafi
ekki þurft að hefja endurgreiðslur lána sinna fyrr en í mars 1999. Kröfur hans
eigi því að hljóta sömu meðferð þannig að gjalddagi fyrstu afborgunar verði í
marsmánuði 2000.
Kærandi bendir á að reglugerðarbreyting sú sem gerð var
með reglugerð nr. 303 frá 1997 þar sem breytt er 21. gr. reglugerðar um LÍN geti
ekki virkað afturvirkt á þá skilmála sem hann gekk út frá og samþykkti að
gangast undir og því verði að fallast á kröfu hans.
Kærandi kveður
meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar leiða til þeirrar túlkunar að rétt sé að hann
hefji endurgreiðslur í mars 2000 en ekki í júní 1999. Megininntak
meðalhófsreglunnar sé það að þegar stjórnvald taki ákvörðun, sem háð sé mati
þess, þá skuli velja þá leið sem vægust er en þó til þess fallin að ná því
markmiði sem að er stefnt.
Af hálfu stjórnar LÍN er á því byggt að skv.
4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN sé kveðið á um að endurgreiðslur námslána
hefjist tveimur árum eftir námslok og að sjóðsstjórn skilgreini hvað telja beri
námslok skv. lögunum og úrskurði um vafatilfelli. Stjórnin hafi í kafla 2.5 í
úthlutunarreglunum sett almennar reglur um við hvað námslok skuli miðast. Sú
meginregla komi fram í grein 2.5.1. að námslok skuli teljast við lok þess
misseris sem námsmaður hættir að fá lán, nema námsmaður sýni frá á áframhaldandi
lánshæft nám á næsta skólaári þar á eftir. Tilvik kæranda falli hér undir og því
hafi námslok hans verið réttilega ákvörðuð 26. júní 1997.
Stjórn LÍN
kveður það ekki breyta niðurstöðu þessa máls þótt láðst hafi að svara bréfi
kæranda frá 17. janúar 1999 og hafi hann þegar verið beðinn velvirðingar á því.
Kærandi hafi ekki haft nokkra ástæðu til að ætla að fallist hefði verið á
sjónarmið hans vegna þessa enda hefði hann fengið tilkynningu um námslokin og
fyrstu afborgun með bréfi dags. 21. desember 1998 og síðan sendur gíróseðill með
gjalddaga 30. júní og eindaga 15. júlí 1999. Kærandi hafi 14. júlí 1999 sent
sjóðnum kæru sem afgreidd hafi verið með úrskurði stjórnar 3. nóvember s.á.
Stjórn LÍN bendir á að kærandi hafi á greiðsluseðli verið krafinn um
endurgreiðslu á R-láni sem veitt séu skv. lögum nr. 21/1992 en í 4. mgr. 7. gr.
þeirra laga segi að endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok og
samhljóðandi ákvæði sé í skuldabréfi því sem kærandi undirritaði. Þá segi einnig
í skuldabréfinu að gjalddagi föstu greiðslunnar sé 1. mars en þó geti fyrsti
gjalddagi þessa láns verið breytilegur eftir námslokadegi. Stjórn LÍN vísar
einnig til breytingar sem gerð var með reglugerð nr. 303/1997 á 21. gr.
reglugerðar nr. 210/1993 sem tekin var upp í 8. gr. reglugerðar nr. 602/1997 þar
sem fram komi að ef námslok séu á fyrri hluta árs sé gjalddagi fyrstu föstu
greiðslunnar 30. júní tveimur árum eftir námslok en séu námslok á síðari hluta
ársins eigi að greiða fyrstu föstu greiðslu 1. mars á þriðja ári frá námslokum.
Reglugerð þessi hafi fulla lagastoð og sé í samræmi við texta skuldabréfsins um
að endurgreiðsla eigi að hefjast tveimur árum eftir námslok og að fyrsti
gjalddagi geti verið breytilegur eftir námslokadegi.
Að síðustu mótmælir
stjórn LÍN þeirri fullyrðingu kæranda að á honum hafi verið brotin
jafnræðisregla þótt framkvæmdin hafi verið með öðrum hætti í gildistíð eldri
reglugerðar eftir að héraðsdómur gekk í máli Jóhannesar B. Björnssonar 11. apríl
1997. Með setningu nýrrar reglugerðar hafi verið eytt óvissu og hafi framkvæmdin
verið sú sama gagnvart öllum námsmönnum sem luku námi eftir gildistöku
reglugerðarinnar.
Stjórn LÍN bendir á að niðurstaða málsins hafi ekki
byggst á mati stjórnvalds heldur á skýrum ákvæðum laga, reglugerða og
skuldabréfs og eigi stjórnsýslureglur um meðalhóf því ekki við.
Niðurstaða
Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN hefst
endurgreiðsla námslána tveimur árum eftir námslok og síðan er sjóðsstjórn falið
að skilgreina hvað telja beri námslok skv. lögunum og úrskurða um vafatilfelli.
Stjórn LÍN hefur sett almennar reglur um námslok í úthlutunarreglum og í
grein 2.5.1. segir að námslok teljist við lok þess misseris þegar námsmaður
hættir að fá lán nema námsmaður sýni fram á áframhaldandi lánshæft nám án hlés.
Síðan segir að frestun á útborgun námsláns hafi ekki í för með sér frestun á
skilgreindum námslokum. Ljóst er að kærandi naut síðast námslána vegna
vormisseris 1997 og því teljast námslok hans réttilega ákvörðuð 26. júní 1997
sbr. framangreindar reglur.
Ekki verður fallist á það með kæranda að
beiting reglugerðar nr. 303 frá 1997 brjóti gegn meginreglunni um að lög skuli
ekki vera afturvirk. Reglugerðin fjallar um endurgreiðslu námslána og tók gildi
28. maí 1997 og hefur ekki afturvirk áhrif á réttindi kæranda miðað við áður
tilgreind námslok hans. Geta má þess að í skuldabréfi því, sem kærandi
undirritaði 4. janúar 1993, er ákvæði þess efnis að gjalddagi föstu greiðslunnar
sé 1. mars en þó geti fyrsti gjalddagi þessa láns verið breytilegur eftir
námslokadegi.
Þá verður ekki talið að jafnræðisregla hafi verið brotin
gagnvart kæranda enda gildir sama regla gagnvart öllum námsmönnum sem luku námi
eftir gildistöku reglugerðarinnar.
Með vísan til þess er að framan
greinir og gögnum málsins er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN, dags. 3. nóvember 1999, í máli lánþega er staðfestur.