Úrskurður
Ár 2001, fimmtudaginn 17. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-15/2001
Kæruefni
Með bréfi dagsettu 11. nóvember 2001 kærði kærandi úrskurð
stjórnar LÍN frá 1. október 2001 þar sem samþykkt var að veita kæranda undanþágu
frá endurgreiðslu námslána árin 1998-2001 en úrskurður stjórnar frá 1. september
1995 ítrekaður um synjun á undanþágu frá endurgreiðslum árið 1995.
Framan greind kæra barst Lánasjóði íslenskra námsmanna 13. nóvember 2001
en var framsend málskotsnefnd ásamt öðrum gögnum málsins með bréfi sjóðsins 15.
nóvember 2001.
Með bréfi dagsettu 22. nóvember 2001 var stjórn LÍN
gefinn frestur til að tjá sig um fram komna kröfu og gefinn frestur til að gera
athugasemdir og koma að gögnum til 11. desember s.á. Umsögn stjórnarinnar er
dagsett 30. nóvember 2001.
Í bréfi málskotsnefndar dagsettu 5. desember
2001 var kæranda send umsögn stjórnar LÍN og gefinn kostur á að koma á framfæri
frekari sjónarmiðum innan hálfs mánaðar. Kærandi sendi athugasemdir sínar í
bréfi dagsettu 18. desember 2001.
Málsatvik og ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að kærandi er einstæð móðir sem greindist með
krabbamein á árinu 1987 eftir að hafa hafið nám. Eftir það vann hún 50% vinnu
þar til hún veiktist aftur 1990 og hefur hún verið lögð inn á sjúkrahús af og
til síðustu sex ár. Faðir kæranda gekkst í ábyrgð fyrir námslánum hennar.
Kærandi sótti um og fékk undanþágu frá endurgreiðslu námslána 1990-1994.
Árið 1995 sótti hún um undanþágu en fékk synjun þar sem tekjur hennar árið 1994
voru kr. 1.057.279 og henni reiknaðist tekjutengd afborgun. Gjalddagar ársins
1995 voru settir í lögmannsinnheimtu hjá LÍN í febrúar 1996 og í ágúst voru
greiddar kr. 5.000 inn á skuldina. Kærandi sótti um undanþágu frá endurgreiðslum
árin 1996-1997.
Kærandi sendi enn erindi til LÍN í september 2001 og
óskaði eftir undanþágu frá endurgreiðslu og féllst stjórnin á að verða við
þeirri ósk varðandi endurgreiðslu áranna 1998-2001 með tilliti til aðstæðna
hennar.
Af hálfu kæranda var á því byggt að staða hennar hafi verið
jafnerfið á árinu 1995 og hún var á þeim árum bæði fyrir og eftir 1995 þegar LÍN
samþykkti að veita henni undanþágu frá endurgreiðslu námslána vegna aðstæðna
hennar. Hún hafi eingöngu örorkubætur og kr. 125.000 til greiðslu á láninu og
það væri henni og föður hennar ógerlegt að greiða það. Tekjur hennar hefðu verið
yfir viðmiðunarmörkum á árinu 1995 vegna þess að hún hefði fengið félagslega
fjárhagsaðstoð vegna bágrar stöðu. Ef sú aðstoð yrði reiknuð henni til tekna
væri verið að hegna henni fyrir að hafa leitað sér aðstoðar.
Af hálfu
stjórnar LÍN er á því byggt að tekjur hennar á árinu 1994 hafi verið yfir
viðmiðunarmörkum og engin frekari gögn hafi borist og því hafi gjalddagar þess
árs verið sendir í lögfræðilega innheimtu. Þá séu liðin rúm sex ár frá því
stjórnin hefði synjað upphaflegu erindi hennar um undanþágu frá endurgreiðslu
ársins 1995. Hins vegar hefði verið samþykkt að veita henni undanþágu frá
endurgreiðslu áranna 1990-1994, 1996-1997 og síðast 1998-2001 þrátt fyrir að
beiðni hennar þar um hefði verið seint fram komin. Niðurstaða stjórnar sjóðsins
í málinu sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerðar og úthlutunarreglna sé þess
krafist að sú ákvörðun verði staðfest.
Niðurstaða
Upphaflega hafnaði stjórn LÍN beiðni kæranda um endurgreiðslu
vegna afborgana námslána 1995 í september sama ár. Ekkert er fram komið um það
að kærandi hafi leitað til ráðuneytis eða annarra aðila vegna ákvörðunarinnar og
erindi þessa efnis hefur ekki borist málskotsnefnd á starfstíma hennar frá 1997
fyrr en með ofangreindri kæru.
Samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr.
37/1993 skal bera kæru vegna stórnvaldsákvörðunar fram innan þriggja mánaða frá
því að aðila máls var tilkynnt um hana. Í 28. gr. segir að berist kæra að liðnum
kærufresti skuli vísa henni frá nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en þó
skuli henni ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt
aðila.
Með vísan til þessa verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu
frá nefndinni enda verður að telja að erfiðar aðstæður kæranda hefðu ekki átt að
koma í veg fyrir að hún gæti leitað réttar síns að þessu leyti mun fyrr.
Úrskurðarorð
Máli kæranda er vísað frá málskotsnefnd LÍN.