Úrskurður
Ár 2001, þriðjudaginn 27. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-1/2001.
Kæruefni
Með kæru dags. 15. janúar 2001 kærði kærandi, úrskurð stjórnar
LÍN frá 20. október 2000 í málinu nr. L-248/00 þar sem umsókn um námslán vegna
fjarnáms í mastersnámi í bókasafns- og upplýsingafræðum við The University of
Wales, Aberystwyth, var hafnað á þeim forsendum að námið fæli ekki í sér 75% af
fullu námi á hverju misseri.
Þá var hafnað beiðni kæranda um undanþágu
frá endurgreiðslu námslána meðan á framangreindu mastersnámi stendur.
Með bréfi málskotsnefndar dags. 16. janúar sl. var stjórn Lánasjóðs
íslenskra námsmanna tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana.
Þann 31. janúar sl. var fyrra bréf til LÍN ítrekað og stjórn LÍN gefinn
lokafrestur að tjá sig um fram komna kæru. Umsögn stjórnar Lánasjóðs íslenskra
námsmanna er dags. 2. febrúar sl. Kæranda var með bréfi dags. 16. febrúar sl.
gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina. Kærandi gerði frekari athugasemdir í
bréfi dags. 28. febrúar sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hóf mastersnám í MSC Econ Management of Library and
Information Services við The University of Wales, Aberystwyth, haustið 2000. Nám
kæranda er fjarnám og tekur 3 ár, en mastersnám við sama skóla, sem ekki er
tekið í fjarnámi, tekur 12 mánuði. Kærandi óskaði eftir því við LÍN að henni
yrði veitt lán fyrir skólagjöldum í ofangreindu mastersnámi, en þau nema GBP
1.300 á ári. Þá óskaði kærandi eftir því að henni yrði veittur frestur á
greiðslu eldri námslána meðan á framangreindu mastersnámi stendur.
Með
hinum kærða úrskurði stjórnar LÍN var erindum kæranda hafnað. Lánsbeiðni kæranda
var hafnað á þeim grundvelli að skv. gr. 2.2.2. í úthlutunarreglum LÍN þarf
námsmaður að ljúka a.m.k. 75% af fullu námi til þess að eiga rétt á láni. Þar
sem nám kæranda er skipulagt með þeim hætti að námsmenn sem það stunda ná ekki
að skila 75% af fullu námi á hverju misseri telur stjórn LÍN í úrskurði sínum
námið ekki lánshæft. Þá var því sérstaklega hafnað í úrskurðinum að veita
undanþágu frá þessari reglu. Stjórn LÍN vísar einnig til 5. mgr. gr. 1.1. í
úthlutunarreglum sjóðsins þar sem kveðið er á um að nám við fjarskóla sé ekki
lánshæft nema boðið sé upp á a.m.k. 75% af því sem telst fullt nám í reglulegu
skólanámi.
Erindi kæranda um frest á greiðslu eldra námsláns var hafnað
á þeim grundvelli að skv. 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra
námsmanna sé ekki veitt undanþága frá árlegri endurgreiðslu ef lánþega reiknast
tekjutengd afborgun. Einnig er það skilyrði fyrir undanþágu frá endurgreiðslum
námslána vegna náms að námsmaður nái lánshæfum árangri. Þar sem kærandi
uppfyllti ekki þessi skilyrði var ekki fallist á kröfu kæranda.
Kærandi
heldur því fram að framangreindar reglur LÍN brjóti í bága við 1. mgr. 1.gr.
laga um LÍN sem segi að hlutverk LÍN sé að tryggja þeim sem falla undir lögin
tækifæri til náms án tillits til efnahags. Telur kærandi að halda megi því fram
að reglurnar mismuni námsmönnum eftir námsformi, en möguleikinn á fjarnámi, t.d.
samhliða vinnu, hljóti að teljast hagkvæmur kostur í nútíma samfélagi sem býður
upp á góða samskiptamöguleika milli nemenda og skóla. Þá bendir kærandi
sérstaklega á að skólagjöld námsins í fjarnámi séu þau sömu og ef námið væri
stundað með hefðbundnum hætti.
Hvað varðar kröfu kæranda um frestun
greiðslu eldri námslána telur kærandi að 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 veiti
stjórn LÍN sveigjanleika og að aðstaða kæranda fullnægi einmitt þeim skilyrðum
að henni sé veitt undanþága frá greiðslu námslána meðan á námi hennar stendur,
þar sem hún sé einstæð móðir sem nú stundi þriggja ára mastersnám sem
stórkostlega skerðir tekjumöguleika hennar á námstímanum samhliða miklum
skólaútgjöldum og ferðakostnaði.
Hvað varðar beiðni kæranda um námslán
bendir stjórn LÍN á að á þetta álitaefni hafi áður reynt hjá málskotsnefndinni í
málum nr. L-7/2000 og L-11/2000 og er vísað til þeirra úrskurða. Hvað varðar
kröfu um frestun á greiðslu afborgana af eldra námsláni vísar stjórn LÍN, svo
sem áður greinir, til 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 og 3. mgr. gr. 7.4.2. í
úthlutunarreglum LÍN, en þar segir að heimilt sé að veita undanþágu frá greiðslu
tekjutengdrar afborgunar hafi lánþegi skilað lánshæfum námsárangri undangengið
skólaár og telja megi líklegt að honum reiknist ekki tekjutengd afborgun á næsta
ári. Stjórn LÍN telur ljóst af gögnum málsins að kærandi uppfyllir ekki
framangreind skilyrði og þá hafi kærandi ekki lagt fram nein gögn sem réttlætt
geti undanþágu frá fastri afborgun námsláns sbr. gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum
LÍN.
Niðurstaða
Svo sem fram kemur í gr. 2.2.2. í úthlutunarreglum LÍN þarf
námsmaður að ljúka í það minnsta 75% af fullu námi skv. skipulagi skóla til þess
að fá námslán. Þá er í 5. mgr. gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN ákvæði þess efnis
að nám við fjarskóla sé ekki lánshæft nema boðið sé upp á a.m.k. 75% af því sem
telst fullt nám í reglulegu skólanámi. Framangreindar reglur eru hlutlægar
reglur sem ganga jafnt yfir alla sem sækja um lán til LÍN. Ekki er fallist á þá
skoðun kæranda að reglur þessar feli í sér brot á 1. gr. laga nr. 21/1992 um
Lánasjóð íslenskra námsmanna. Fyrir liggur að nám kæranda uppfyllir ekki
framangreind skilyrði úthlutunarreglna LÍN og telst því kærandi ekki eiga rétt á
námsláni.
Í 10. gr. reglurgerðar nr. 602/1997 og kafla 7.4. í
úthlutunarreglum LÍN er að finna reglur um heimild til að veita undanþágu frá
endurgreiðslu námslána. Atvik málsins og aðstæður kæranda eru ekki með þeim
hætti að fallið geti undir framangreindar reglur.
Með hliðsjón af
framangreindu er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur með vísan til
forsendna hans.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 20. október 2000 í málinu nr. L-248/00 er staðfestur.