Úrskurður
Ár 2001, þriðjudaginn 21. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-3/2001.
Kæruefni
Með kæru dags. 4. maí 2001 kærði umboðsmaður, fyrir hönd
kæranda, úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 2. febrúar 2001 í
málinu nr. I-50/00, þar sem hafnað var beiðni kæranda um að fella niður ábyrgð
kæranda á námslánum.
Með bréfi málskotsnefndar dags. 14. maí sl., var
stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að
tjá sig um hana. Umsögn stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna er dags. 30. maí
sl.. Umboðsmanni kæranda var með bréfi dags. 1. júní sl., gefinn kostur á að tjá
sig um umsögnina. Ekki bárust frekari athugasemdir frá umboðsmanni kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á námsláni. Lánið er
í vanskilum frá 01.09.1998. Í bréfi umboðsmanns kæranda dags., 12. apríl 2000,
til Lánasjóðs íslenskra námsmanna eru ítarlega raktar aðstæður kæranda.
Þar kemur m.a. fram að haustið 1993 hafi kærandi verið úti að ganga með
son sinn á fyrsta ári í barnavagni er mótorhjól kom aðvífandi."Ökumaður þess
blindaðist af sól og ók á barnavagninn sem tættist í sundur. Kastaðist sonurinn
úr vagninum og á steinvegg. Hófst þá sorgarsaga sem virðist ekki ætla að taka
endi. Frá þessum degi hefur líf kæranda nánast verið bundið syninum sem í
kjölfar slyssins er fjölfatlaður en kærandi hefur séð um umönnun hans og haft
hann á heimili sínu."
Síðan er lýst frekari erfiðleikum kæranda,
einstæðri móður með fimm börn, sem hefur flust á milli landa og sveitarfélaga og
staðið í erfiðri baráttu s.s. við félagsmálayfirvöld, við að sjá sér og börnum
sínum farborða einkum vegna aðstæðna sonarins. Kærandi býr nú í leiguhúsnæði. Þá
kemur einnig fram að fjárhaldsmaður sonarins hafi á sínum tíma samþykkt að
greiða af bótafé hans skuldir kæranda sem lið í því að tryggja fjölskyldunni
sómasamlegar fjárhagsaðstæður.
Frekari stuðningur hefur fengist m.a. til
greiðslu á hluta húsaleigu en nú er svo komið að fjárhaldsmaður sonarins telur
sér ekki heimilt að skerða frekar bótafé hans.
Fram kemur að beðið hafi
verið um fjárnám hjá kæranda vegna kröfu LÍN og telur umboðsmaðurinn fyrirséð að
kærandi geti á engan hátt greitt skuldina og að krafan ógni mjög hag
fjölskyldunnar. Þá er einnig bent á að Íslandsbanki hf., hafi fallist á
hliðstætt erindi.
Með vísan til framangreindra aðstæðna sótti kærandi um
að felld yrði niður ábyrgð á námsláni og ítrekaði umboðsmaður kæranda hversu
sérstakt erindi kæranda væri.
Í athugasemdum sínum bendir stjórn LÍN á
að samkvæmt 4. mgr. 6. gr. l. nr. 21/1992 skulu námsmenn sem fá lán úr sjóðnum,
undirrita skuldabréf við lántöku og leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um
að hann taki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og
verðtryggingu þess allt að tiltekinni hámarksfjárhæð. Í 5. mgr. 6. gr. segir að
stjórn sjóðsins sé heimilt að veita námslán allt að þeirri fjárhæð sem ábyrgð
hefur verið veitt fyrir skv. 4. mgr. Enn fremur komi fram í 2. málsl. 6. mgr. 6.
gr. að ábyrgð ábyrgðarmanns eins eða fleiri, geti fallið niður enda setji
námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi.
Stjórn
LÍN telur að tilvitnuð ákvæði verði ekki skilin á annan hátt en að ávallt skuli
vera tryggingar fyrir veittum námslánum og að stjórn sjóðsins sé óheimilt að
fella niður ábyrgð á námslánum, nema námsmaður setji aðra tryggingu í staðinn,
nýjan ábyrgðarmann eða aðra fullnægjandi tryggingu svo sem fasteignaveð.
Þá bendir stjórn LÍN á að í lögum um sjóðinn sé að finna niðurfellingar-
og undanþáguákvæði sem eingöngu taki til lánþega eða námsmanns en ekki til
þeirra sem takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins.
Stjórnin telur að þar sem um undantekningar sé að ræða í nefndum
tilvikum beri að túlka þau þröngt og að í raun þyrfti sérstaka lagaheimild til
að stjórninni væri heimilt að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanns á svipuðum
forsendum og gilda um námsmenn eða lánþega.
Niðurstaða
Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. l. nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra
námsmanna skulu námsmenn sem fá lán úr sjóðnum, undirrita skuldabréf við lántöku
og leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann taki að sér
sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu þess
allt að tiltekinni hámarksfjárhæð.
Í 2. málsl. 6. mgr. 6. gr. laganna
segir að ábyrgð ábyrgðarmanns eins eða fleiri, geti fallið niður enda setji
námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi.
Fallast
verður á það með stjórn LÍN að tilvitnuð lagaákvæði verði ekki skilin á annan
hátt en að ávallt skuli vera tryggingar fyrir veittum námslánum og að stjórn
sjóðsins sé óheimilt að fella niður ábyrgð á námslánum, nema námsmaður setji
aðra tryggingu í staðinn, nýjan ábyrgðarmann eða aðra fullnægjandi tryggingu svo
sem fasteignaveð.
Þar sem kærandi og/eða lántakandi útvegaði ekki aðrar
ábyrgðir, viðunandi að mati sjóðsins verður að staðfesta hinn kærða úrskurð
stjórnar LÍN um synjun á að fella niður sjálfskuldarábyrgð kæranda á láni
lántakanda.
Með vísan til framanritaðs er hinn kærði úrskurður stjórnar
LÍN staðfestur með vísan til forsendna hans.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 2. febrúar 2001 í máli nr. I-50/00 er staðfestur.