Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-04/2001 - Útreikningur námslána - beiðni um endurgreiðslu vegna tekjuskerðingar

Úrskurður

 

Ár 2001, þriðjudaginn 25. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-4/2001.

 

Kæruefni

 

Með kæru dags. 30. apríl 2001 kærði Réttindaskrifstofa Stúdentaráðs f.h. kæranda, úrskurð stjórnar LÍN frá 2. febrúar 2001, þar sem LÍN hafnaði beiðni kæranda um endurgreiðslu á þeirri skerðingu námslána sem kærandi þurfti að þola vegna tekna maka námsárin 1998-1999 og 1999-2000. 

Með bréfi málskotsnefndarinnar dags. 25. maí 2001 var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að koma með athugasemdir við hana. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni með bréfi dags. 30. maí 2001. Kæranda var með bréfi dags. 1. júní 2001 gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir LÍN, en engin frekari gögn bárust frá kæranda. Með bréfum dags. 9. júlí 2001 og 22. ágúst 2001 óskaði málskotsnefndin eftir frekari gögnum frá stjórn LÍN og hafa þau borist nefndinni. Var þar um að ræða upprunalegt erindi kæranda til LÍN og hinn kærða úrskurð frá 2. febrúar 2001, auk niðurstöðu starfshóps ríkisstjórnarinnar um hvernig bregðast eigi við dómi Hæstaréttar frá 19. desember 2000.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sótti um og fékk námslán námsárin 1998-1999 og 1999-2000. Hún var í hjúkskap og hafði maki hennar laun umfram frítekjumark maka bæði námsárin sem um ræðir. Af þessum sökum voru námslán kæranda skert á grundvelli gr. 4.4. í úthlutunarreglum LÍN, samtals um kr. 865.524-. Á tímabilinu fékk kærandi einnig aukalán vegna veikinda barns á námsárinu 1999-2000. Maki kæranda hafði umtalsvert hærri tekjur en ráð var fyrir gert og var því kærandi krafin um endurgreiðslu ofgreiddra lána, samtals kr. 107.370-. Þann 19. janúar 2001 ritaði Réttindaskrifstofa Stúdentaráðs stjórn LÍN bréf og krafist endurgreiðslu skerðingar námslána fyrir hönd kæranda, en stjórn LÍN synjaði erindinu þann 2. febrúar 2001. 

Kærandi vísar til þess að með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 125/2000 hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að skerðing tekjutryggingar örorkulífeyrisþega í hjúskap væri óheimil, enda tryggi hún örorkulífeyrisþegum ekki þau lágmarksréttindi sem felist í 76. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt dómnum verði 76. gr. stjórnarskrárinnar skýrð þannig "að skylt sé að tryggja að lögum rétt hvers einstaklings til að minnsta kosti einhverar lágmarks framfærslu eftir fyrirfram gefnu skipulagi sem ákveðið sé á málefnalegan hátt."Slíkt skipulag verði að "fullnægja þeim lágmarksréttindum, sem felast í 76. gr. stjórnarskrárinnar."Kærandi telur að einnig megi lesa úr dómi Hæstaréttar að 76. gr. stjórnarskrárinnar feli einnig í sér rétt til að framfleyta fjölskyldu sinni. Þannig segi Hæstiréttur orðrétt: "Framfærsluskylda hjóna er hins vegar gagnkvæm samkvæmt hjúskaparlögum. Er ekki aðeins um skyldu að ræða heldur einnig rétt, sbr. 5. og 7. samningsviðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Verður tæpast annað sagt en að réttur öryrkja til framfærslu fjölskyldu sinnar verði smár hafi hann aðeins tekjur, sem nema grunnörorkulífeyri." 

Kærandi telur að sé réttarstaða námsmanna skoðuð m.t.t. 76. gr. stjórnarskrárinnar, komi í ljós að ákvæðið tryggi ekki aðeins réttinn til þeirrar aðstoðar, sem felist í almannatryggingum, heldur sé í 2. mgr. greinarinnar tryggður rétturinn til almennrar menntunar. Skoða verði þessi tvö ákvæði í samhengi. Í réttinum til menntunar felist aðallega tvennt, aðgangur að menntastofnunum og réttur til framfærslu meðan á menntun standi. 

Kærandi bendir á að dómur Hæstaréttar vísi sérstaklega til 12. og 13. gr. félagsmálasáttmála Evrópu og 67. gr. alþjóðavinnumálasamþykktar um lágmark félagslegs öryggis, þar sem komi m.a. fram að ekki megi felast skerðingar í þeim reglum sem aðildarríkin hafi sett til að uppfylla skyldur um lágmarks félagslegt öryggi, nema til komi verulegar viðbótargreiðslur. Einnig vísi dómurinn til 11. og 12. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, þar sem aðildarríkin viðurkenni rétt sérhvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans. Í 10. gr. samningsins komi fram sérstök skylda til að veita fjölskyldunni mesta mögulega vernd, sérstaklega við stofnun hennar og á meðan hún er ábyrg fyrir umönnun og menntun framfærsluskyldra barna. Í 13. gr. komi fram að aðildarríkin viðurkenni rétt hvers manns til menntunar og skuli æðri menntun gerð öllum tiltæk og aðgengileg. 

Kærandi telur að umrætt skipulag sem leiða megi af 76. gr. stjórnarskrárinnar verði jafnframt að uppfylla ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar um að hver einstaklingur njóti samkvæmt því jafnréttis á við aðra sem réttar njóta, svo og almennra mannréttinda. Kærandi telur þetta þýða að ekki megi mismuna einstaklingum m.t.t. þess hvort þeir eru skráðir í sambúð/hjúskap eða ekki. Grein 4.4. í úthlutunarreglum LÍN sem kveði á um frádrátt á lánum vegna tekna maka feli í sér augljósa mismunun á grundvelli hjúskaparstöðu. Kærandi telur framangreindan dóm Hæstaréttar hafa ótvírætt fordæmisgildi fyrir námsmenn og því sé umrædd gr. 4.4. í úthlutunarreglum LÍN í andstöðu við 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. 

Kærandi telur jafnframt að gr. 4.4. í úthlutunarreglum LÍN hafi ekki fullnægjandi lagastoð en greinin byggi á 2. mgr. 3. gr. laga um LÍN og 4. gr. reglugerðar um LÍN. Í 2. mgr. 3. gr. laga um LÍN segi: "Stjórn sjóðsins er heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns." Kærandi telur ljóst að greinin sé einungis almenn heimild til setningar reglna um úthlutun námslána. Samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar sé skilyrði skerðingar á lögbundnum framfærslueyri, líkt og tekjutenging við maka er, að til þess sé lagastoð. Almenn reglugerðarheimild teljist ekki að mati dómsins fullnægjandi lagastoð. Þegar af þessari ástæðu telur kærandi tekjutengingu við maka ólögmæta. 

Stjórn LÍN tekur fram að í gr. 4.4. í úthlutunarreglum 1998-2000 komi fram að til frádráttar láni námsmanns komi 50% af tekjum maka umfram tólf mánaða framfærslu, að teknu tilliti til barnafjölda og að kærandi hafi fengið lán afgreidd á árunum 1998-1999 og 1999-2000 í samræmi við þessa reglu. Stjórn LÍN bendir á að framangreint ákvæði byggi m.a. á 2. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1991 um Lánasjóð íslenkra námsmanna en þar segi að stjórn sjóðsins sé heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. Í þessu sambandi megi einnig vísa til niðurstöðu málskotsnefndar í sambærilegu máli frá 25. ágúst 1998 í málinu nr. L-13/1998. 

Vegna skírskotunar kæranda til framangreinds dóms Hæstaréttar vísar stjórn LÍN sérstaklega til niðurstöðu starfshóps á vegum ríkisstjórnarinnar um hvernig bregðast bæri við dómnum. Í IV. kafla skýrslu starfshópsins segi m.a.: "Því hefur verið hreyft að hæstaréttardómurinn frá 19. desember 2000 kunni að hafa fordæmisgildi fyrir námsmenn á þann hátt að óheimilt sé að láta tekjur maka hafa áhrif á námslán. Þessi sjónarmið eru væntanlega á því byggð, að 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar kveði á um, að öllum skuli í lögum tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Að mati starfshópsins fá þessi sjónarmið ekki staðist. Þetta leiðir þegar af þeirri ástæðu, að 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar geti ekki talist leggja þá skyldu á löggjafann að bjóða námsmönnum námslán af opinberu fé."

 

Niðurstaða

 

Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna kemur fram að við útreikning námsláns sé stjórn sjóðsins heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunni að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. 

Í úthlutunarreglum LÍN er að finna ýmis ákvæði er hafa að geyma reglur um það hvernig fjárhæð námslána geti breyst m.t.t. tekna, fjölskyldustærðar o.fl. Umrædd gr. 4.4. í úthlutunarreglunum hefur að geyma ákvæði um lækkun námsláns vegna hárra tekna maka eða sambýlisaðila. Framangreindar reglur í úthlutunarreglunum, sem eiga sér stoð í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1992, fela í sér leiðbeiningar um útreikning námsláns og gilda jafnt um alla sem eins er ástatt um. Reglurnar hnika, að áliti málskotsnefndarinnar, hvorki grundvallarreglunni í 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sem segir: "Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi", né reglunni í 1. mgr. 3. gr. laga um LÍN sem segir: "Miða skal við að námslán samkvæmt lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns." 

Málskotsnefndin telur ljóst að fjárþörf námsmanna er misjöfn eftir því hvernig heimilisaðstæður þeirra eru. Þannig þarf námsmaður, sem hefur börn á sínu framfæri, hærra lán heldur en sá sem engin börn er með. Námsmaður sem er giftur eða í sambúð með tekjuháum einstaklingi þarf augljóslega ekki eins hátt lán til framfærslu heimilisins og sá sem býr einn eða með tekjulausum eða tekjulitlum aðila. 

Að áliti málskotsnefndarinnar breytir niðurstaða Hæstaréttar í málinu nr. 125/2000 engu í þessu sambandi, einkum vegna þess að í þeim dómi var fjallað um fjárhæð örorkubóta en ekki útreikning á námslánum, en á þessu tvennu er grundvallarmunur. Engin efni eru til að beita reglunni sem fram kemur í dómnum á útreikning námslána, enda hefur ekki verið sýnt fram á að úthlutunarreglur LÍN raski í neinu lögvernduðum rétti námsmanna til náms án tillits til efnahags sem fram kemur í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992. 

Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 2. febrúar 2001 í máli kæranda staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 2. febrúar 2001 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka