Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-06/2001 - Umsóknarfrestur og útborgun - námsárangur barst of seint

Úrskurður

 

Ár 2001, þriðjudaginn 16. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. 6/2001:

 

Kæruefni

 

Með kæru dags. 19. júlí 2001, sem barst nefndinni þann 23. sama mánaðar, kærði lánþegi, úrskurð stjórnar LÍN í málinu nr. L-290/01 frá 20. apríl 2001, þar sem hafnað var kröfu kæranda um að fá 25% viðbótarlán vegna haustannar 2000, en kærandi hafði áður fengið 75% lán vegna haustannarinnar. Ástæða þess að kröfu kæranda var hafnað var sú að hann stóðst ekki skilyrði um námsframvindu fyrr en þann 21. febrúar 2001, en skv. gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN átti lánveitingum vegna námsársins 1999-2000 að ljúka fyrir 1. febrúar 2001. 

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 24. júlí 2001 þar sem LÍN var gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svar barst frá LÍN dags. 14. ágúst 2001 og var kæranda með bréfi dags. 20. ágúst 2001 gefinn kostur á að tjá sig um svarbréf LÍN. Viðbótarsvör bárust frá kæranda með bréfi dags. 31. ágúst 2001. Með bréfum dags. 12. og 26. september 2001 óskaði málskotsnefndin eftir frekari upplýsingum um málið frá LÍN og hafa þær borist nefndinni.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi hóf nám í verkfræði við Aalborg Universitet haustið 1999. Með bréfi dags. 16. mars 2001 óskaði kærandi eftir að fá afgreitt 25% af námsláni haustmisseris 1999, en 21. febrúar 2001 hafði hann staðist upptökupróf í "datalogi", sem samkvæmt skipulagi skóla tilheyrir námi á 1. misseri. Í úrskurði stjórnar LÍN frá 20. apríl 2001 var erindi kæranda hafnað með tilvísun til gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN sem segir að lánveitingum vegna námsársins 1999-2000 skuli lokið fyrir 1. febrúar 2001. Ástæður þess að kærandi fékk einungis 75% lán á haustönn 1999 var ekki eingöngu sú að hann hafði ekki staðist próf í "datalogi", heldur hafði hann heldur ekki náð tilsettum árangri í "matematik 1A/1B". 

Kærandi bendir á að hann hafi ekki átt þess kost að taka prófið í "datalogi" upp fyrr en þann 21. febrúar 2001 og því sitji hann ekki við sama borð og þeir sem gátu tekið upptökupróf í desember eða janúar. Þá kveður kærandi sig hafa staðist próf í "matematik 1A/1B" þann 7. ágúst 2000 og að hann hafi sent viðeigandi pappíra þar að lútandi til LÍN. Þeir pappírar hafi hins vegar einhverra hluta vegna týnst hjá lánasjóðnum.

 

Niðurstaða

 

Óumdeilt er að kærandi lauk ekki fullnægjandi árangri í "datalogi" fyrr en með prófi sem hann tók þann 21. febrúar 2001. Skv. grein 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN fyrir 1999-2000, segir m.a.: "Lánveitingum vegna námsársins 1999-2000 skal þó lokið fyrir 1. febrúar 2001, eftir það eru ekki afgreidd lán vegna námsársins." 

Með hliðsjón af skýru orðalagi framangreindrar greinar og atvikum málsins þykir rétt að staðfesta hinn kærða úrskurð stjórnar LÍN. 

Af hálfu málskotsnefndarinnar var þeirri spurningu sérstaklega beint til LÍN hvort sú staðreynd að kærandi hafi staðist próf í "matematik 1A/1B" þann 7. ágúst 2000 breyti afstöðu LÍN í málinu. Í svarbréfi LÍN við framangreindri fyrirspurn segir m.a.: "Ekki verður séð að þessar upplýsingar séu tilefni til endurskoðunar á ákvörðun stjórnar sjóðsins frá 20. apríl sl. Hinn kærði úrskurður snýst um það hvort námsárangur sem kærandi skilaði 21. febrúar 2001 á að tilheyra skólaárinu 1999-2000 eða skólaárinu 2000-2001. Þær upplýsingar sem til er vitnað hafa ekki áhrif á þá niðurstöðu stjórnar LÍN að árangur kæranda í febrúar 2001 tilheyri síðarnefnda skólaárinu." 

Fallist er á framangreind sjónarmið LÍN af hálfu málskotsnefndarinnar.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 20. apríl 2001 í málinu nr. L-290/01 er staðfestur.

Til baka