Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-10/2001 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá endurgreiðslum

Úrskurður

Ár 2002, fimmtudaginn 14. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-10/2001.

Kæruefni

Með bréfi dags. 20. október 2001, sem barst málskotsnefndinni þann 25. október 2001 kærði kærandi, úrskurð stjórnar LÍN frá 1. október 2001 í málinu nr. I-107/01, þar sem hafnað var kröfu kæranda um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána vegna fjárhagsörðugleika kæranda.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 25. október 2001 tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna hennar. Bréf stjórnar LÍN dags. 1. nóvember 2001 barst þann 6. nóvember 2002. Kæranda var með bréfi dags. 8. nóvember 2001 gefinn kostur á að tjá sig um svar LÍN. Með bréfi dags. 29. nóvember 2001 var þess farið á leit að stjórn LÍN léti málskotsnefndinni í té þau gögn sem stjórn LÍN byggði hinn kærða úrskurð sinn á. Af hálfu LÍN bárust umbeðin viðbótargögn þann 7. desember 2001. Með bréfi dags. 20. desember 2001 var óskað frekari upplýsinga um fjárhagsaðstæður kæranda, þ.e. raunverulegar tekjur hans á árinu 2001, hvort hann væri kominn í vinnu og ef svo væri hver laun hann fengi. Þá var ennfremur óskað eftir upplýsingum um raunverulegan kostnað við heimilishald kæranda og hvernig tekjur og gjöld hafi breyst frá því kærandi missti vinnuna. Kærandi óskaði með bréfi dags. 18. janúar 2002 eftir fresti til að svara bréfi málskotsnefndarinnar frá 20. desember 2001. Kæranda var með bréfi dags. 24. janúar 2002 veittur frestur til 10. febrúar 2002 til að svara málskotsnefndinni. Þann 14. febrúar 2002 móttók málskotsnefndin svör kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi óskaði eftir niðurfellingu eða fresti á afborgun námslána fyrir árið 2001 vegna atvinnuleysis. Stjórn LÍN synjaði um undanþágu frá greiðslu eða lækkun þar sem stjórnin taldi kæranda ekki uppfylla skilyrði fyrir undanþágu sem talin eru upp í 5. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 sbr. ákvæði í gr. 7.4.1. og 7.4.2. í úthlutunarreglum LÍN. Bendir stjórn LÍN í þessu sambandi einkum á að laun kæranda voru þau að honum reiknaðist tekjutengd afborgun 2001 og allt benti til þess að honum myndi einnig reiknast tekjutengd afborgun fyrir árið 2002. Stjórn LÍN bendir á að tekjur kæranda á árinu 2000 hafi verið 2.183.889 (DKR 223.554) og er miðað við meðalgengi ársins 2000 (9,769). Þá komi fram í innsendum gögnum að kærandi fái kr. 7.443 (DKR 588) í atvinnuleysisbætur á dag. Ef reiknað væri með 21,66 dögum í mánuði verði þannig atvinnuleysisbætur kæranda árið 2001 kr. 1.934.712 (DKR 152.833) miðað við gengi 29. október 2001 (12, 659) og mun kæranda því væntanlega reiknast tekjutengd afborgun árið 2002 að mati stjórnar LÍN.

Stjórn LÍN bendir á að vegna tekna kæranda komi ákvæði 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 sbr. gr. 7.4.1. ekki til álita í máli þessu, þ.e. skilyrði fyrir undanþágu frá fastri afborgun námslána séu ekki fyrir hendi. Til skoðunar komi því undanþáguheimildin í 9. gr. reglugerðarinnar sem sé skýrð enn frekar í gr. 7.4.2. í úthlutunarreglum LÍN. Í úthlutunarreglunum sé m.a. kveðið á um það skilyrði til viðbótar þeim skilyrðum, sem fjallað er um í 9. gr. reglugerðarinnar, að líklegt megi telja að lánþega reiknist ekki tekjutengd afborgun á næsta ári og fjárhagsörðugleikar hafi varað a.m.k. í fjóra mánuði fyrir gjalddaga og líkur séu á að þeir séu viðvarandi. Stjórn LÍN hefur túlkað framangreind ákvæði þröngt og ekki veitt undanþágu frá endurgreiðslu námslána reiknist greiðanda tekjutengd afborgun, nema sýnt sé að tekjur hans á endurgreiðsluárinu hafi breyst verulega og verði fyrirsjáanlega það lágar að honum reiknist ekki tekjutengd afborgun á næsta ári, en tekjur kæranda mega ekki fara yfir kr. 1.250.000 til þess að honum reiknist ekki tekjutengd afborgun. Þar sem atvinnuleysisbætur kæranda séu yfir ofangreindum tekjumörkum eigi kærandi þegar af þeirri ástæðu ekki rétt á undanþágu frá tekjutengdu afborguninni.

Kærandi gerir kröfu til þess að fallist verði á kröfu hans vegna slæmrar fjárhagsstöðu hans. Kærandi hefur með bréfi til málskotsnefndarinnar upplýst að tekjur hans hafi skerst um 50% síðan hann varð atvinnulaus í desember 2000. Þá hafi kostnaður hans aukist þar sem hann borgi nú hlutfallslega meiri hluta af tekjum sínum í skatt, þar sem hann hafi nú engan persónufrádrátt. Kærandi kveðst, þrátt fyrir fjölskyldubætur, ekki lengur hafa ráð á að kaupa föt og leikföng handa börnum sínum. Kærandi kveður nánast engar líkur á því að hann fái vinnu í Danmörku eins og málum sé nú háttað.

Niðurstaða

Svo sem fram hefur komið óskaði málskotsnefndin eftir öllum gögnum frá LÍN sem fyrir lágu þegar stjórnin kvað upp hinn kærða úrskurð. Af þeim gögnum verður ekki ráðið að stjórn LÍN hafi gert reka að því að kanna annað varðandi fjárhagsaðstæður kæranda en tekjur hans. Þannig liggja engar upplýsingar fyrir um kostnað við framfærslu fjölskyldu kæranda, hvort og þá hvernig sá kostnaður hafði breyst frá því kærandi missti vinnuna o.fl.

Af hálfu málskotsnefndarinnar er ekki fallist á það með stjórn LÍN að tækt sé að synja um undanþágu frá greiðslu námslána á grundvelli laga og reglugerðar um LÍN vegna þess eins að lánþega reiknist tekjutengd afborgun og að líkur séu fyrir því að svo verði einnig næsta ár. Gera verður þá kröfu til stjórnar LÍN að hún kanni raunverulegar fjárhagsaðstæður viðkomandi og afli gagna t.d. um kostnað við heimilishald o.þ.h.

Með vísan til framangreinds er hinn kærði úrskurður úr gildi felldur og lagt fyrir stjórn LÍN að taka að nýju ákvörðun í máli kæranda eftir að ítarleg rannsókn hefur farið fram á fjárhagslegum aðstæðum kæranda.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 1. október 2001 í málinu nr. I-107/01 er felldur úr gildi.

Til baka