Úrskurður
Mánudaginn 12. nóvember 2001 kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-9/2001.
Kæruefni
Með kæru dags. 14. september 2001, sem barst málskotsnefndinni
þann 19. september 2001, kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 31. ágúst 2001,
í málinu nr. L-703/01, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá gr. 2.4.2. í
úthlutunarreglum LÍN, sem kveður á um að námsmaður geti að hámarki fengið lán í
fimm ár hjá sjóðnum.
Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags.
19. september 2001 og gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sjóðsins
vegna hennar. Þá var kærandi með bréfi dags. 24. september 2001 krafinn um
viðbótargögn vegna kærunnar. Kærandi sendi viðbótargögn til nefndarinnar með
bréfi dags. 26. september 2001, en stjórn LÍN tjáði sig um kæruna í bréfi til
nefnarinnar dags. 8. október 2001. Með bréfi dags. 12. október 2001 var kæranda
gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum vegna bréfs LÍN frá 12. október
2001 en engin frekari bréf eða gögn bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundar nám á 2. ári í B.A. námi í sálfræði við Háskóla
Íslands. Hann hefur þegar lokið þriggja ára B.A. námi í ensku, einu ári í
mastersnámi í ensku og einu ári í B.A. námi í sálfræði. Kærandi óskaði eftir
undanþágu frá gr. 2.4.2. í úthlutunarreglum LÍN, sem kveður á um að námsmaður
geti að hámarki fengið lán í allt að fimm ár samanlagt hjá sjóðnum. Skv.
greininni er heimilt að veita námsmanni undanþágu frá ofangreindu hámarki og
veita honum lán í allt að eitt námsár til viðbótar ef samanlögð fyrri lán hans
hjá sjóðnum nema lægri upphæð en tvær milljónir króna. Í grein 2.4.3. segir ef
námsmaður leggi stund á framhaldsnám að loknu háskólaprófi sé heimilt að veita
honum lán umfram það hámark sem tilgreint er í gr. 2.4.2.
Stjórn LÍN
hafnaði undanþágubeiðni kæranda með hinum kærða úrskurði á þeim forsendum að
hann skuldar sjóðnum 2,4 milljónir krónaauk þess sem hann stundar ekki
framhaldsháskólanám að loknu háskólaprófi, en með framhaldsháskólanámi er átt
við meistara-, doktors- eða licentiatnám eða sambærilegt nám.
Kærandi
neitar því að hann hafi fengið lán í fimm ár í grunnháskólanámi, þar sem hann
stundaði mastersnám í ensku í eitt af þeim árum sem hann hefur fengið námslán.
Kærandi bendir á að í 3. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um LÍN segi: "Námsmenn
í grunnháskólanámi eða sérnámi eiga rétt á almennum námslánum í samtals fimm ár
að hámarki, sbr. nánari ákvæði í úthlutunarreglum sjóðsins. Leggi námsmaður
stund á framhaldsháskólanám að loknu grunnháskólaprófi er heimilt að veita honum
lán í allt að 10 ár samtals."
Kærandi telur með vísan til
framangreinds reglugerðarákvæðis að hann eigi rétt á a.m.k. láni í eitt námsár
enn, enda hafi hann ekki fengið lán til grunnnháskólanáms nema í fjögur ár.
Af hálfu LÍN er á því byggt að það skipti ekki máli hvort þessi fimm ár
sem kærandi hefur þegið lán voru vegna grunnháskólanáms eða framhaldsnáms að
loknu háskólaprófi. Það sem skipti máli sé að námsmaður á ekki rétt á láni í
lengri tíma en fimm ár, nema hann leggi stund á framhaldsnám á háskólastigi sbr.
gr. 2.4.3. og þar sem kærandi stundi nú nám í sálfræði sem ekki er framhaldsnám
á háskólastigi, fellur hann ekki undir 10 ára regluna í gr. 2.4.3., né uppfyllir
hann skilyrði gr. 2.4.2. sem nefnt var að framan.
Niðurstaða
Óumdeilt er að kærandi hefur þegið lán í 5 ár frá LÍN. Af þeim
árum var hann eitt árið við meistaranám í ensku, en hin árin stundaði hann
grunnháskólanám. Skuld kæranda við LÍN nemur nú hærri fjárhæð en tveimur
milljónum. Þá liggur fyrir að kærandi stundar ekki framhaldsnám um þessar
mundir, heldur grunnháskólanám í sálfræði.
Með vísan til skýrs orðalags
gr. 2.4.2. og 2.4.3. í úthlutunarreglum LÍN og þess sem að framan segir, þykir
málskotsnefndinni ljóst að kærandi eigi ekki rétt á frekara láni eins og á
stendur.
Hinn kærði úrskurður er því staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 31. ágúst 2002 í málinu nr. L-703/01, er staðfestur.