Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-11/2001 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2002, fimmtudaginn 24. janúar 2002, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-11/2001:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 9. nóvember 2001 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 2. nóvember 2001 í málinu nr. I-129/01, en með úrskurðinum var ekki fallist á þá kröfu kæranda að við útreikning tekjutengdar afborgunar hans á árinu 2001 yrði litið svo á að tekjur hans hefðu ekki verið neinar á árinu 2000.

Kæra barst málskotsnefndinni þann 12. nóvember 2001. Stjórn LÍN var með bréfi dags. 13. nóvember 2001 tilkynnt um kæruna og gefin kostur á að tjá sig um hana. Þann 30. nóvember 2001 barst bréf frá stjórn LÍN þar sem sjónarmið stjórnarinnar eru reifuð. Kæranda var sent nefnt bréf LÍN og honum gefinn kostur á að tjá sig um efni þess. Engin frekari bréf hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi starfaði á árinu 2000 í Namibíu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og naut hann sömu kjara þar og þeir sem vinna hjá alþjóðlegum stofnunum. Því naut hann skattfrelsis hér á landi á umræddu tímabili. Skv. upplýsingum kæranda sjálfs voru tekjur hans kr. 3.816.764- á árinu 2000 og reiknaði LÍN tekjutengda afborgun hans af námslánum út frá þeirri tölu, jafnvel þó úrsvarsstofn kæranda hafi verið núll af framangreindum ástæðum. Kærandi telur, með vísan til gr. 7.3. í úthlutunarreglum LÍN, að miða eigi útreikning á tekjutengdri afborgun hans við að útsvarsstofnin hafi verið núll. Af hálfu stjórnar LÍN er þessum skilningi kæranda hafnað og vísað til þess að skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN skuli ákveða árlega endurgreiðslu í samræmi við staðfestar upplýsingar um tekjur, sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum.

Niðurstaða

Óumdeilt er að kærandi hafði kr. 3.816.764- í laun á árinu 2000 og að hann naut skattfrelsis það ár. Með vísan til skýrs orðalags í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 ber stjórn LÍN að líta til þessarar fjárhæðar þegar tekjutengd afborgun kæranda er reiknuð út. Með vísan til þessa er hinn kærði úrskurður staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 2. nóvember 2001 í málinu nr. I-129/01 er staðfestur.

Til baka