Úrskurður
Ár 2002, fimmtudaginn 31. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-12/2001.
Kæruefni
Með kæru dags. 24. október 2001 kærði kærandi, úrskurð stjórnar
Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 30. maí 2001 í málinu nr. L-441/01, þar sem
henni var gert að endurgreiða ofreiknað lán vegna skólaársins 2000-2001. Að
beiðni kæranda var málið endurupptekið hjá stjórn LÍN þann 27. september 2001 og
fyrri úrskurður staðfestur.
Með bréfi málskotsnefndar dags. 13. nóvember
sl. var stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna tilkynnt um kæruna og gefinn kostur
á að tjá sig um hana. Umsögn stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna er dags. 30.
nóvember sl. Kæranda var með bréfi dags. 5. desember sl. gefinn kostur á að tjá
sig um umsögnina. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Vegna mistaka fékk kærandi ofreiknað lán vegna skólaársins
2000-2001. Hin ofgreidda fjárhæð nam DKK 12.375,00 og var sú fjárhæð lögð inn á
bankareikning kæranda eftir haustmisserið 2000. Eftir að mistökin komu í ljós
voru þau leiðrétt með þeim hætti að skuldin var dregin frá vorláni kæranda 2001
áður en það var borgað út 27. júlí sl.
Kærandi kveður mistökin hafa
komið í ljós fyrir tilstuðlan hennar um miðjan apríl 2001 og að mistökin megi
rekja til þess að LÍN hafi reiknað henni lán miðað við að hún væri með tvö börn
á framfæri, en á þeim tíma átti kærandi eitt barn. Er kærandi hafði samband við
LÍN fékk hún þær upplýsingar að mistökin hefðu orðið vegna þess að á Hagstofu
Íslands væri bróðir hennar ( undir 18 ára aldri ) skráður til heimilis hjá
henni.
Kærandi bendir á að þessar upplýsingar séu ekki allskostar réttar
þar sem bróðir hennar hafi ekki verið skráður hjá henni eftir 27.07.2000. Síðan
segir í kæru: Þar sem ég tel að í þessu máli sé alfarið um mistök sjóðsins að
ræða æski ég þess að sjóðurinn taki ábyrgð á því máli og sjái um að ég þurfi
ekki að súpa seyðið af því. Vísa ég í grein 5.9 (Mistök sjóðsins) þar sem
stendur að "ef um mistök sjóðsins sé að ræða við veitingu námslána, sem eru
námsmanni í óhag, beri að leiðrétta þau en það skuli ákveðið í hverju einstaka
tilviki hvernig endurgreiðslu skuli hagað."
Stjórn LÍN kvað upp
úrskurð í máli kæranda þann 30. maí sl. þar sem kæranda var gert að endurgreiða
nefnda skuld. Í úrskurðinum kom fram að um mistök sjóðsins hafi verið að ræða og
var beðist velvirðingar á mistökunum. Jafnframt var hún hvött til að hafa
samband við framkvæmdastjóra sjóðsins og semja um skuldina ef hún vildi ekki una
því að skuldin kæmi til frádráttar þegar námslán yrði næst afgreitt til kæranda.
Kærandi óskaði ekki eftir að semja um skuldina og var hún því dregin frá vorláni
hennar 2001 áður en það var borgað út 27. júlí sl.
Stjórn LÍN rökstuddi
úrskurð sinn með vísan til úthlutunarreglan sjóðsins, nánar tiltekið til greinar
5.5.2. "Leiðrétting útreikninga" og til greinar 5.9."Mistök sjóðsins."
Með bréfi dags. 17. ágúst 2001 óskaði kærandi eftir að málið væri
endurupptekið hjá stjórn LÍN. Á fundi stjórnar LÍN þann 27. september 2001 var
málið endurupptekið og fyrri úrskurður stjórnarinnar frá 30. maí 2001
staðfestur.
Niðurstaða
Í gr. 5.5.2. í úthlutunarreglum LÍN segir: "Ef í ljós kemur að
sjóðurinn hefur veitt námsaðstoð eða reiknað út upphæð láns á röngum forsendum
er það leiðrétt við fyrstu hentugleika, skv. nánari ákvæðum í þessum kafla. Er
þá tekið tillit til þess hvort námsmaður hefur vísvitandi gefið villandi eða
rangar upplýsingar, hvort um vanrækslu hefur verið að ræða af hans hálfu ellegar
um mistök frá hendi sjóðsins. Að jafnaði er mögulegt að semja um fyrirkomulag
endurgreiðslna." Síðan segir í gr. 5.9.: "Verði mistök við veitingu námsláns,
námsmanni í óhag, ber að leiðrétta þau strax og upp kemst. Námsmönnum er
eindregið bent á að kynna sér vandlega þau ákvæði í þessum úthlutunarreglum sem
eiga við hverju sinni og stuðla að því að slík mistök leiðréttist sem fyrst.
Námsmanni skal tilkynnt um slík mistök og síðan ákveðið í hverju einstöku
tilviki hvernig endurgreiðslu skuli hagað."
Gögn málsins bera með sér að
stjórn LÍN hafi úrskurðað á þann hátt að kærandi skyldi endurgreiða hið
ofreiknaða lán en gefið kæranda jafnframt kost á að semja um fyrirkomulag
endurgreiðslunnar við LÍN ella kæmi skuldin til frádráttar þegar námslán kæmi
næst til útborgunar til kæranda. Þar sem kærandi sinnti ekki ábendingum LÍN um
að semja um fyrirkomulag á endurgreiðslu skuldarinnar var skuldin dregin frá
vorláni kæranda 2001 áður en það var útborgað þann 27. júlí 2001.
Með
vísan til framanritaðs, einkum hinnar tilvitnuðu greinar í úthlutunarreglum LÍN,
er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 30. maí 2001 í máli, nr. L-441/01 er staðfestur.