Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-13/2001 - Útreikningur námslána - beiðni um viðbótarlán vegna framfærslu barns

Úrskurður

 

Ár 2002, fimmtudaginn 31. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-13/2001:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 28. október 2001 kærði X f.h. kæranda, úrskurð stjórnar LÍN frá 28. september 2001 í málinu nr. L-765/01, en með úrskurðinum var ekki fallist á ósk kæranda um viðbótarlán vegna framfærslu barns á vormisseri 2001 á þeirri forsendu að barnið átti ekki lögheimili hjá kæranda á þeim tíma. Niðurstaða stjórnar LÍN byggðist á gr. 4.3. í úthlutunarreglum LÍN. 

Kæra barst málskotsnefndinni þann 12. nóvember 2001. Stjórn LÍN var með bréfi dags. 13. nóvember 2001 tilkynnt um kæruna og gefin kostur á að tjá sig um hana. Þann 30. nóvember 2001 barst bréf frá stjórn LÍN þar sem sjónarmið stjórnarinnar eru reifuð. Kæranda var sent nefnt bréf LÍN og henni gefinn kostur á að tjá sig um efni þess. Bréf barst frá X dags.18. desember 2001 þar sem sjónarmið kæranda eru ítrekuð og reifuð frekar.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi er einstæð móðir og hefur á framfæri sínu dóttur sína, fd. 1995. Kærandi og barnsfaðir hennar hafa sameiginlega forsjá með barninu. Skólaárið 2000-2001 stundaði kærandi meistaranám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Þar af tók hún vorönn 2001 sem Erasmus skiptinemi við háskóla í Kaupmannahöfn. Þann tíma flutti kærandi lögheimili sitt til Kaupmannahafnar að kröfu Alþjóðaskrifstofu Háskólastigsins og háskólans ytra, enda hefði hún ekki getað stundað nám þar að öðrum kosti. Kærandi flutti á hinn bóginn ekki lögheimili dóttur sinnar til Kaupmannahafnar, enda hefði hún þá misst leikslólapláss sitt hér á landi. Af þessum sökum var lögheimili dóttur hennar flutt tímabundið til föður barnsins. 

Kærandi dvaldist í Kaupmannahöfn í samtals 20 vikur á nefndri vorönn. Helming þess tíma dvaldist dóttir hennar hjá föður, en helming tímans hjá kæranda ytra. Að auki flaug kærandi einu sinni heim til að heimsækja dóttur sína á tímabilinu. Allar þessar ferðir voru greiddar af kæranda. Kærandi fór fram á að fá viðbótarlán vegna framfærslu barns vegna vorannar 2001. Af hálfu LÍN var erindinu hafnað með vísan til 2. mgr. gr. 4.3. í úthlutunarreglum LÍN, en þar segir: "Námsmanni er ekki veitt lán sem einstæðu foreldri nema viðkomandi barn sé skráð til heimilis hjá námsmanni í þjóðskrá og fyrir liggi úrskurður um forræði barnsins, t.d. meðlagsúrskurður." 

Kærandi bendir á að skv. barnalögum hvíli skylda á forsjárforeldrum, sem felst m.a. í því að tryggja börnum efnalega velferð og sjá þeim fyrir viðunandi framfærslu. Þá bendir kærandi og á að í 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna komi fram að hlutverk LÍN sé að tryggja þeim sem falla undir lögin jöfn tækifæri til náms óháð efnahag. Þá segi í 3. gr. laganna að miða skuli við að námslán samkvæmt lögum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns. 

Kærandi telur greinilegt af framangreindum ákvæðum sé ljóst að skv. lögum um LÍN sé lögð sú skylda á sjóðinn að hann tryggi forsjárforeldrum í námi lán til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði á meðan á námi stendur, m.t.t. fjölskyldustærðar. Skyldan styðjist ennfremur við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Kærandi telur ákvæði í 2. mgr. gr. 4.3. í úthlutunarreglum LÍN fela í sér þrengingu á möguleikum forsjárforeldris í námi til að sinna lögbundnum forsjárskyldum sínum. 

Stjórn LÍN vísar til orðalags 2. mgr. gr. 4.3. í úthlutunarreglum LÍN. Fyrir liggi að dóttir kæranda var með lögheimili hjá föður á vorönn 2001 og því hafi kærandi ekki átt rétt á viðbótarláni vegna barnsins á tímabilinu.

 

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1992 kemur fram að miða skuli við það að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns. 

Fyrir liggur að kærandi dvaldist við nám í Kaupmannahöfn í 20 vikur á vorönn 2001. Af þeim tíma dvaldist dóttir kæranda hjá henni í helming tímans, eða í 10 vikur, svo sem fram kemur í kæru. Þessu hefur ekki verði mótmælt af hálfu stjórnar LÍN og er litið svo á að ekki sé ágreiningur um þetta atriði í málinu. 

Við úrlausn máls þessa er, að mati málskotsnefndarinnar, ekki tækt að miða eingöngu við orðalag í 2. mgr. gr. 4.3. í úthlutunarreglum LÍN. Líta beri til þess, með vísan til tilvitnaðs ákvæðis í lögum nr. 21/1992, hvar barn kæranda raunverulega bjó á viðkomandi tímabili. Af þessum sökum telur málskotsnefndin að taka hefði átt tillit til þess, í máli þessu, að barn kæranda dvaldist í raun hjá henni helming námstímans á vorönn 2001 og við það beri að miða við mat á því hvort kæranda skuli reiknast viðbótarlán vegna barnsins. Gildir þar einu þó lögheimili barnsins hafi tímabundið verið flutt til föður þess. Hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN er því felldur úr gildi.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 28. september 2001 í málinu nr. L-765/01 er felldur úr gildi.

Til baka