Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-17/2001 - Skólagjöld - beiðni um undanþágu frá hámarki skólagjaldalána

Úrskurður

 

Ár 2002, föstudaginn 1. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-17/2001:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 16. nóvember 2001 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 28. september 2001 í málinu nr. L-706/01, en með úrskurðinum var ekki fallist á þá kröfu kæranda að lán til hans vegna skólagjalda vegna námsársins 2001-2002 gæti numið hærri fjárhæð en fram kemur í gr. 4.8. í úthlutunarreglum sjóðsins, eða kr. 2.800.000- miðað við gengi gjaldmiðla 1. júní 2001, þrátt fyrir að kærandi hafi fengið yfirlýsingu þann 11. júní 1999, um að lán vegna skólagjalda gætu numið allt að USD 33.000-. 

Kæra barst málskotsnefndinni þann 26. nóvember 2001. Stjórn LÍN var með bréfi dags. 26. nóvember 2001 tilkynnt um kæruna og gefin kostur á að tjá sig um hana. Þann 5. desember 2001 barst bréf frá stjórn LÍN, dags. 30. nóvember 2001, þar sem sjónarmið stjórnarinnar eru reifuð. Kæranda var með bréfi dags. 5. desember gefinn kostur á að tjá sig um efni nefnds bréfs LÍN. Tvö bréf bárust frá kæranda, dags. 13. desember 2001 og 3. janúar 2002, þar sem hann gerir frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu. Stjórn LÍN var með bréfi dags. 10. janúar 2002 gefinn kostur á að tjá sig um þessi viðbótragögn og barst nefndinni þann 22. janúar 2002 bréf LÍN dags. 17. janúar 2002 þar sem sjónarmið stjórnar LÍN eru enn ítrekuð og reifuð nánar.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Þann 11. júní 1999 fékk kærandi staðfestingu LÍN á námslánamöguleikum hans hér á landi vegna náms við University of California Berkeley í Bandaríkjunum. Yfirlýsingin var á ensku. Í henni kemur m.a. fram að lán vegna skólagjalda geti numið allt að USD 33.000-. Neðanmáls á yfirlýsingunni segir: "The information given in this letter, is based upon the rules and regulations of The Icelandic Government Student Loan Fund for the academic year 1998/1999." 

Af hálfu kæranda er þess krafist að framangreind yfirlýsing verði talin standast þannig að hann eigi rétt á láni allt að USD 33.000- til skólagjalda vegna námsársins 2001-2002. Kærandi telur að með því einu að taka fram í yfirlýsingunni að upplýsingarnar séu gefnar miðað við reglur viðkomandi árs, gefi það LÍN ekki rétt til að "ganga á bak við það sem hefur verið skriflega staðfest,"eins og það er orðað í kærunni. Kærandi kveður mikilvægt að námsmenn geti gengið út frá því að staðfestingar LÍN af þessu tagi standist. Það sé þeim nauðsynlegt til að geta tekið ákvörðun um hvort haldið sé út í dýrt háskólanám. Kærandi kveður þær úthlutunarreglur sem í gildi voru þegar hann hóf sitt nám í Bandaríkjunum ekki hafa kveðið á um að hámarks lánsfjárhæð til skólagjalda (USD 33.000-) væri bundin gjaldmiðlagengi. 

Af hálfu stjórnar LÍN er því haldið fram að réttur kæranda til lána vegna skólagjalda námsárið 2001-2002 takmarkist af grein 4.8. í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir það skólaár, en í 4. mgr. þeirrar greinar segi að samanlögð lán til námsmanna vegna skólagjalda skuli aldrei verða hærri en 2.800 þúsund krónur eða jafngildi í annarri mynt miðað við gengi 1. júní 2001. Stjórn LÍN bendir jafnframt á að yfirlýsingin til kæranda dags. 11. júní 1999 hafi borið með sér að hún væri miðuð við úthlutunarreglur ákveðins árs og því ljóst að nýjar reglur gætu kallað á nýja yfirlýsingu. Þá kemur fram í hinum kærða úrskurði að á eyðublaði því sem nemendur óska eftir yfirlýsingum eins og þeirri sem um er rætt í máli þessu komi eftirfrandi fram: "Athugið að væntanleg yfirlýsing er ekki loforð um námsaðstoð, heldur umsögn byggð á upplýsingum námsmannsins sjálfs og lauslegri athugun á lánshæfni náms í viðkomandi skóla."

 

Niðurstaða

 

Á hverju ári eru gefnar út nýjar úthlutunarreglur hjá LÍN sem gilda fyrir viðkomandi námsár. Reglurnar eru aðgengilegar hverjum sem er og hafa að geyma upplýsingar um allt það sem helst skiptir máli varðandi lánakjör, útreikninga námslána, endurgreiðslufyrirkomulag o.fl. o.fl. 

Í grein 4.8., í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2001-2002, sem ber yfirskriftina "Almenn lán vegna skólagjalda" kemur m.a. fram að samanlögð lán til námsmanna vegna skólagjalda skulu aldrei verða hærri en 2.800 þúsund krónur eða jafngildi í annarri mynt miðað við gengi 1. júní 2001. 

Yfirlýsing sú sem kærandi vill að sé látin standa var gefin út miðað við úthlutunarreglurnar eins og þær voru skólaárið 1998-1999. Þetta kom skýrlega fram í yfirlýsingunni sjálfri svo sem rakið hefur verið. Ekkert hefur komið fram um að framangreint ákvæði í gr. 4.8. í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2001-2002 eigi ekki að gilda um lánsumsókn kæranda. Getur hann í þessu samandi ekki byggt á fjárhæðum sem fram koma í yfirlýsingunni frá 11. júní 1999, sem augljóslega er byggð á öðrum reglum en nú gilda. Af þessum sökum ber að staðfesta hinn kærða úrskurð stjórnar LÍN.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 28. september 2001 í málinu nr. L-706/01 er staðfestur.

Til baka