Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-20/2001 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2002, fimmtudaginn 21. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-20/2001

Kæruefni

Með bréfi dagsettu 20. desember 2001 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN í máli nr. I-104/01 frá 2. nóvember 2001 þar sem stjórnin hafnaði beiðni kæranda um endurgreiðslu á þegar greiddum afborgunum X frá 1987 til 2000. Gerir kærandi þá kröfu aðallega að honum verði endurgreiddar þær afborganir, sem hann innti af hendi til sjóðsins vegna X frá árinu 1987. Til vara gerir hann þá kröfu að endurgreiðsla til hans nái frá og með gildistöku stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kæra barst málskotsnefnd 21. desember 2001 og með bréfi dagsettu 8. janúar 2002 var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Þann 22. janúar 2002 barst málskotsnefnd bréf stjórnar LÍN dagsett 17. sama mánaðar þar sem athugasemdir stjórnarinnar eru tíundaðar. Kæranda var með bréfi dagsettu 22. janúar 2002 sent bréf stjórnarinnar og honum jafnframt gefinn kostur á að koma frekari sjónarmiðum á framfæri innan fjórtán daga. Kærandi fékk tvívegis framlengingu á upphaflegum fresti til að tjá sig og eru athugasemdir hans settar fram í bréfi dagsettu 11. febrúar sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er ábyrgðarmaður á námsláni X og hefur hann greitt afborganir af láninu síðan 1987. Kærandi sótti um frest á greiðslu fastrar afborgunar með umsókn dagsettri 12. september 2001 og 1. október 2001 féllst LÍN á að veita kæranda undanþágu frá afborgun ársins 2001. Með bréfi dagsettu 24. október sl. fór kærandi fram á að sjóðurinn endurgreiddi honum allar árlegar afborganir af láninu frá 1987. Því erindi var hafnað með úrskurði stjórnar LÍN frá 2. nóvember 2001.

Kærandi kveðst allt frá árinu 1987 hafa greitt tafarlaust af láni X á grundvelli ábyrgðar sinnar og talið að ekki væri unnt að leita neinna afbrigða eða undantekninga frá því. Starfsmaður LÍN hefði í fyrsta skipti á árinu 2001 upplýst hann um möguleika á að sækja um frest á afborgun vegna heilsubrests og atvinnuleysis greiðanda. Þær ástæður, sem stjórn sjóðsins telji nú fullnægjandi fyrir frestun afborgunar, hafi hins vegar verið fyrir hendi allt frá 1987 þegar hann greiddi í fyrsta sinn af láninu. Kærandi sé 78 ára gamall maður og hættur að vinna og oft hafi hann þurft að taka lán til að geta borgað þessar afborganir á réttum tíma miðað við kröfur sjóðsins.

Eina ástæðan til þess að kærandi hefði ekki getað notið réttar síns um frestun á endurgreiðslu hafi verið skortur á leiðbeiningum af hálfu LÍN. Stjórnvöldum beri samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að láta aðilum í té nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar en gegn þessu ákvæði hafi LÍN brotið í tilviki kæranda. Honum hafi ekki verið veittar þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru til að hann gæti gætt hagsmuna sinna á sem bestan hátt. Borgararnir eigi að geta treyst því að gætt sé hlutlægni og að ekki sé verið að leggja á þá skyldur eða kvaðir umfram það sem lög kveða á um. Þeir megi reikna með því að þeir séu af hálfu stjórnvalds upplýstir um þau atriðið sem þeir hafi augljósa hagsmuni af að verða upplýstir um. Stjórnvöldum beri samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga að láta aðilum í té nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar.

Kærandi leggur á það áherslu að um var að ræða margendurtekið ferli frá árinu 1987 þar sem innheimta afborgana af hálfu LÍN skilaði ekki árangri gagnvart skuldara og henni var því beint að kæranda sem sá sig knúinn til að greiða. Það megi vera stjórnvöldum ljóst að í slíkum tilvikum sé eitthvað mikið að og því enn meiri þörf en ella fyrir leiðbeiningar um mögulegar leiðir í málinu. Þá hafi kærandi alltaf greitt "yfir afgreiðsluborð LÍN" og því hafi starfsmenn sjóðsins vitað að hann var að greiða sem ábyrgðarmaður þar sem skuldarinn stóð ekki í skilum og hefði þeim borið skylda til að fullnægja upplýsinga- og leiðbeiningaskyldu stofnunarinnar.

Af hálfu stjórnar LÍN er á því byggt að sækja þurfi fyrirfram um undanþágu frá endurgreiðslu námsláns og umsókninni þurfi hverju sinni að fylgja viðeigandi gögn, sbr. 1. mgr. greinar 7.4.3. í úthlutunarreglum sjóðsins. Samþykkt stjórnarinnar um undanþágu frá greiðslu afborgunar ársins 2001 frá 1. október 2001 nái þannig hvorki til eldri afborgana né þeirra sem á eftir koma. Reglur sjóðsins, þar á meðal um undanþágur frá afborgunum, hafi verið kynntar lögum samkvæmt. Hvorki lántakandi né kærandi fyrir hans hönd hafi áður sótt um undanþágu frá afborgun og hvorki í þessu máli né öðrum hafi sjóðurinn upplýsingar um raunverulega greiðendur útsendra gíróseðla.

Niðurstaða

Kærandi hefur greitt af námsláni sem ábyrgðarmaður allt frá 1987. Í framlögðu læknisvottorði kemur fram að upphaflegur lánþegi er með öllu óvinnufær vegna sjúkdóms um óvissan tíma. Þá liggur einnig frammi svonefnd staðfesting frá bróður lánþega þar sem fram kemur að hann hafi síðast komið hér um jól 1992 og hafi ekkert til hans spurst fyrr en í mars 2001 en þá var hann atvinnu- og húsnæðislaus í Svíþjóð og farinn að neyta fíkniefna. Fékk kærandi niðurfellingu á greiðslu afborgana ársins 2001 að framlögðum þessum gögnum.

Samkvæmt grein 7.4.3. í úthlutunarreglum LÍN skal ósk um frestun á endurgreiðslu námsláns berast sjóðnum fyrir eindaga afborgunar. LÍN hefur sem stjórnvald leiðbeiningarskyldu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leitar nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnsýslulaga sagði m.a. um þetta ákvæði að hægt væri að veita upplýsingar bæði skriflega og munnlega og gætu upplýsingarnar verið almennar, t.d. í formi auglýsinga eða sérstakra bæklinga. Ávallt þurfi þó að gefa aðilum einstaklingsbundnar leiðbeiningar sé eftir þeim leitað.

Úthlutunarreglur LÍN eru gefnar út í bæklingi sem liggur frammi í afgreiðslu sjóðsins en auk þess eru þær birtar ásamt öðrum reglum og lögum um sjóðinn á heimasíðu sjóðsins. Ekkert er komið fram um það að kæranda hafi verið neitað um leiðbeiningar né að hann hafi fengið rangar upplýsingar um réttindi sín hjá starfsmönnum LÍN. Verður ekki talið að LÍN hafi í máli þessu brugðist leiðbeiningarskyldu sinni þótt starfsmenn sjóðsins hafi ekki upplýst kæranda sérstaklega um ákvæði laga og reglna um undanþágur þegar kærandi greiddi afborganir þær, sem á hann féllu sem ábyrgðarmanns á námsláni. Að auki er ekki að finna sérstaka heimild til handa LÍN í reglum um sjóðinn til endurgreiðslu í tilvikum sem þeim sem hér um ræðir.

Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða málskotsnefndar að staðfesta beri niðurstöðu stjórnar LÍN í máli kæranda nr. I-104/01.

Úrskurðarorð

Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða málskotsnefndar að staðfesta beri niðurstöðu stjórnar LÍN í máli kæranda nr. I-104/01.

Til baka