Úrskurður
Ár 2002, fimmtudaginn 14. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-5/2001.
Kæruefni
Með ódagsettri kæru, sem barst málskotsnefnd 3. júlí 2001,
kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN í málinu nr. I-8/01 frá 2. apríl 2001 þar sem
kæranda var synjað um undanþágu frá greiðslu ársgreiðslu með gjalddaga 1. mars
2001 með vísan til 8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 og 10. gr. reglugerðar um
sjóðinn nr. 602/1997.
Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi
dagsettu 3. júlí 2001 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um kröfur kæranda.
Með bréfi dagsettu 12. júlí 2001 óskaði LÍN eftir fresti til að svara fram að
næsta stjórnarfundi um miðjan ágúst. Svarbréf LÍN er hins vegar dagsett 20. júlí
2001 og var kæranda með bréfi dagsettu 25. júlí 2001 gefinn kostur á að koma á
framfæri frekari sjónarmiðum sínum. Með bréfi dagsettu 18. september 2001 fór
málskotsnefnd fram á ítarlegar upplýsingar um fjárhagslegar aðstæður kæranda á
þeim tíma þegar beiðni um undanþágu var til meðferðar hjá LÍN og þess óskað að
kærandi gerði grein fyrir því sérstaklega með hvaða hætti umönnun barns hennar
hefði haft áhrif á fjárhagslegar aðstæður hennar á sama tímamarki. Með bréfi
dagsettu 3. október 2001 svaraði kærandi spurningum málskotsnefndar og sendi
jafnframt frekari gögn um laun og útgjöld. LÍN var með bréfi málskotsnefndar
dagsettu 10. október 2001 gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir kæranda og
sama dag var kæranda sent bréf þar sem meðferð máls hennar var skýrð.
Með bréfi dagsettu 1. nóvember 2001 svaraði LÍN athugasemdum kæranda og
var henni í bréfi dagsettu 27. nóvember 2001 sent afrit bréfs LÍN og gefinn
kostur á að tjá sig um efni þess. Jafnframt var óskað eftir því að hún upplýsti
hvort tekjur maka hennar hefðu breyst á því tímabili þegar undanþágubeiðnin var
til afgreiðslu hjá LÍN og hvort þær hefðu breyst síðan. Einnig var óskað
upplýsinga um útgjöld kæranda á þessu tímabili vegna húsaleigu, hita- og
rafmagnskostnaðar o.fl. Bréf þetta var ítrekað 8. janúar 2002. Svarbréf kæranda
er dagsett 18. janúar 2002 og var stjórn LÍN sent afrit þess og henni gefinn
kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Stjórn LÍN setti fram
athugasemdir sínar í bréfi dagsettu 1. febrúar 2002.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er búsett í Danmörku og lauk framhaldsnámi í sálfræði
við Kaupmannahafnarháskóla í október 2000. Hún fékk námslán vegna BA-náms við
Háskóla Íslands árin 1992-1996 og fékk undanþágu frá fyrstu afborgun þess 1.
mars 1999 og 1. mars 2000 vegna framhaldsnámsins í Kaupmannahöfn 1998-2000.
Kærandi fæddi barn í sama mánuði og hún lauk framhaldsnáminu en var atvinnulaus
er foreldraorlofi lauk.
Kærandi byggir kröfu sína á því að aðstæður
hennar falli undir heimildarákvæði 8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 og 10. gr.
reglugerðar nr. 602/1997 þar sem komi fram að LÍN sé heimilt að veita undanþágu
frá ársgreiðslu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða
sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða
fjölskyldu hans. Miðað sé við að fjárhagur lánþega sé slíkur að honum reiknist
ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hafi ekki batnað á endurgreiðsluárinu.
Túlkun LÍN á þann veg að undanþága verði aðeins veitt vegna umönnunar barna ef
um umönnun veiks barns er að ræða fái ekki staðist og sé ekki í samræmi við
framangreind ákvæði.
Aðstæðum sínum lýsir kærandi þannig að í
barneignarleyfinu hafi hún verið að jafna sig andlega og fjárhagslega eftir
erfiða meðgöngu en hún hafi á meðgöngunni klárað lokaverkefni sitt í skólanum.
Þá hafi meðgöngu og fæðingu fylgt útgjöld en greiðslur til hennar á sama tíma
hafi rétt dugað til að skrimta og komast á réttan kjöl aftur. Hún hafi valið
að fara í fæðingarorlof þótt þar með gæti hún ekki borgað af námsláninu. Hafi
hún tekið bankalán og því verið þröngt í búi hjá henni enda hafi tekjur hennar í
fæðingar- og foreldraorlofi verið þær sömu og væri hún atvinnulaus. Þá hafi hún
talið nauðsynlegt barnsins vegna að vera hjá því þar eð barnið hafi um sex
mánaða aldur rétt verið farið að smakka mat og enn verið á brjósti.
Undir rekstri málsins fyrir málskotsnefnd lagði kærandi fram ljósrit af
skuldabréfi vegna láns frá Danske Bank, ljósrit af bankayfirliti frá Landsbanka
Íslands og launaseðla vegna greiðslna í fæðingarorlofi o.fl. Jafnframt bendir
kærandi á að hún hafi verið í námi þar til viku áður en hún eignaðist barn sitt.
Lokaverkefnið hafi tekið tíu mánuði og á þeim tíma hefði hún þurft að baka
bankalán með auknum vöxtum. Á árinu 2000 hafi hún borgað yfir 70.000 krónur í
vexti og hafi hún einnig þurft að taka lán að fjárhæð DKR 30.000 hjá Danske Bank
til að greiða Landsbankalán sitt vegna endurgreiðslu námslánsins. Heildarlaun
hennar á árinu 2000 hafi numið DKK 45.512 þannig að henni reiknaðist ekki
tekjutengd afborgun. Heildarlaun á árinu 2001 verði DKR 118.754 en það sé undir
þeim mörkum sem LÍN setji. Hún hafi fengið útborgað mánaðarlega á árinu 2001 um
það bil DKR 6.700 en DKR 7.288 síðustu þrjá mánuði ársins. Árleg útgjöld hennar
hafi numið DKR 57.289 og er að finna í gögnum málsins útlistun á útgjaldaliðum.
Kærandi upplýsti jafnframt að hún nyti ekki húsaleigubóta og eigi engar eignir
en taldi málskotsnefnd ganga of langt með því að óska upplýsinga um tekjur maka
hennar og upplýsti því ekki um þær.
Kærandi mótmælir þeirri túlkun
stjórnar LÍN á skilyrðum laga og reglurgerðar að fjárhagserfiðleikar lánþega
þurfi að vera óviðráðanlegar eða þannig að hann geti ekki haft stjórn á þeim
sjálfur. Í reglunum sé einungis talað um að aðstæður verði að vera skyndilegar
og verulegar ef lánþegi hefur haft það háar tekjur á fyrra ári að honum reiknist
viðbótargreiðsla. Kæranda reiknist ekki viðbótargreiðsla og því uppfylli hún
skilyrðin fyrir undanþágu. Hins vegar bendir hún á að hún hafi ekki getað farið
út á vinnumarkaðinn og aflað þannig hærri tekna í 8 mánuði ársins 2001. Hún hafi
verið í fæðingarorlofi frá 9. október 2000 til 26. mars 2001 en ekki fengið
dagvistun fyrir barnið fyrr en 16. október 2001 og hafi hún verið í atvinnuleit
síðan. Því megi segja að á árinu 2001 hafi orsakir fjárhagslegra aðstæðna hennar
verið óviðráðanlegar frá 1. janúar til 26. mars vegna barneignarleyfis, til 10.
júní vegna þess að ómögulegt væri að fá dagvistun fyrir börn hjá sveitarfélaginu
fyrr en við 8 mánaða aldur barns, til u.þ.b. 24. júní þar sem barnið hefði verið
í aðlögun í dagvistuninni og frá 17. október til 31. desember vegna
atvinnuleysis. Einungis hefði því verið um það að ræða að kærandi hefði í fjóra
mánuði átt um það val að vera heima hjá barni sínu.
Af hálfu stjórnar
LÍN er á því byggt að þegar metið er hvort veita eigi undanþágu frá afborgun
námslána eigi samkvæmt reglum sjóðsins að taka mið af því almenna skilyrði að
lánþegi eigi árlega að endurgreiða að lágmarki fasta greiðslu sem sé óháð tekjum
hans. Reglurnar heimili undanþágu frá meginreglunni en skyldi ekki stjórnina til
að veita slíka undanþágu. Við það sé miðað að jafnræði milli umsækjenda sé
tryggt.
Stjórn LÍN kveðst túlka þröngt þá heimild sem veitt sé í 8. gr.
laga um LÍN nr. 21/1992 til undanþágu frá endurgreiðslu námslána og einungis
heimilað undanþágu vegna umönnunar barna þegar um er að ræða veikindaumönnun eða
aðra sambærilega umönnun með ungu barni. Ekki sé um slíkt að ræða í þessu máli
og því hafi orsakasambandið á milli ætlaðra fjárhagsörðugleika og umönnunar
barns enga þýðingu.
Þær upplýsingar sem kærandi hafi veitt við rekstur
málsins sýni að ekki hafi orðið skyndilegar og verulegar breytingar á högum
hennar sem jafna megi við alvarleg veikindi eða slys, sbr. 1. málslið 6. mgr. 8.
gr. laga um LÍN. Þær staðfesti einnig að kærandi eigi ekki við verulega
fjárhagsörðugleika að etja, sbr. skilyrði 2. málsliðar sömu málsgreinar.
Upplýsingarnar leiði til þess að umönnun barns, atvinnuleysi eða aðrar þær
aðstæður, sem eru taldar upp í málsgreininni, breyta ekki niðurstöðu málsins og
séu því engar forsendur til annars en að staðfesta úrskurð stjórnarinnar.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 segir að árleg
endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé föst greiðsla, sem
innheimt sé á fyrri hluta ársins óháð tekjum, og hins vegar viðbótargreiðsla sem
innheimt sé á síðari hluta ársins og er háð tekjum fyrra árs. Samkvæmt 6. mgr.
8. gr. er stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1.
mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar
sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða
fjölskyldu hans. Í 10. gr. reglugerðar um lánasjóðinn nr. 602/1997 er að finna
nánari útlistun á þeim fjárhagsörðugleikum sem geta veitt heimild til undanþágu
frá fastri árgreiðslu en það er þegar námsmaður hefur haft svo lágar tekjur á
fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki
batnað á endurgreiðsluárinu. Sama regla kemur fram í grein 7.4. í
úthlutunarreglum LÍN.
Með vísan til orðalags framangreindra ákvæða
verður ekki fallist á það með stjórn LÍN að skilyrði þeirra um umönnun barna
verði skýrð svo þröngri túlkun að einungis komi til álita að meta
undanþágubeiðnir þeirra sem hafa annast um veik eða mjög ung börn. Hér verður
hins vegar að líta til þess hvort umönnun barns kæranda hafi leitt til verulegra
fjárhagsörðugleika hennar eða fjölskyldu hennar.
Samkvæmt upplýsingum
kæranda voru heildartekjur hennar á endurgreiðsluárinu DKR 118.754. Eru aðilar
málsins ósammála um það hvort sú fjárhæð sé yfir viðmiðunarmörkum lánasjóðsins
þannig að kæranda reiknist tekjutengd afborgun. Af hálfu stjórnar LÍN er því
haldið fram að tekjurnar nemi kr. 1.390.669 miðað við meðalgengi ársins 2001 og
því eigi kærandi að óbreyttu að greiða bæði fasta afborgun af námsláni sínu 1.
mars 2002 og tekjutengda afborgun 1. september 2002. Þetta leiði til þess að
fjárhagsörðugleikar hennar eða örðugleikar til tekjuöflunar á árinu 2001 teljist
ekki verulegir.
Af framansögðu verður ráðið að stjórn LÍN hafi við mat
sitt á undanþágubeiðni kæranda talið að vegna þess að henni reiknaðist
tekjutengd afborgun væru fjárhagserfiðleikar hennar ekki verulegir í skilningi
laga og reglna um sjóðinn. Telja verður eðlilegt að setja ákveðin viðmið þegar
fjárhagsaðstæður eru metnar en slík viðmið geta ekki komið í veg fyrir það að
stjórn LÍN skoði allar aðstæður kæranda óháð því hvort tekjur hennar á
endurgreiðsluárinu náðu viðmiðunarmarkinu eða ekki. Af gögnum frá stjórn LÍN
verður ekki séð að slíkt mat hafi farið fram á aðstæðum kæranda að nægilegt sé
til ákvörðunar á því hvort undanþága verði veitt. Þykir því verða að fella hinn
kærða úrskurð stjórnar LÍN úr gildi og leggja fyrir stjórnina að meta beiðni
kæranda að nýju með hliðsjón af öllum aðstæðum hennar í ljósi framkominna gagna.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 2. apríl 2001 í málinu nr. I-8/01 er felldur úr gildi.