Úrskurður
Ár 2002, fimmtudaginn 14. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-18/2001.
Kæruefni
Með kæru dags. 27. nóvember 2001 kærði kærandi úrskurð stjórnar
Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 31. ágúst 2001 í málinu nr. L-466/01, þar sem
honum var gert að endurgreiða ofreiknað lán vegna skólaársins 2000-2001.
Með bréfi málskotsnefndar dags. 30. nóvember sl. var stjórn LÍN tilkynnt
um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Umsögn stjórnar LÍN er dags.
10. desember sl. Kæranda var með bréfi dags. 13. desember sl. gefinn 14 daga
frestur til að tjá sig um umsögnina. Það bréf var ítrekað með bréfi
málskotsnefndar dags. 9. janúar sl. Athugasemdir kæranda eru dags. 22. janúar
sl. Með bréfi málskotsnefndar dags. 24. janúar sl. var stjórn LÍN gefinn kostur
á að tjá sig um framkomnar athugasemdir kæranda. Athugasemdir stjórnar LÍN eru
dags. 1. febrúar sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Vegna mistaka fékk kærandi ofreiknað lán vegna skólaársins
2000-2001 að upphæð kr. 235.375,00. Af þeirri fjárhæð voru kr. 96.191,00 lagðar
inn á reikning kæranda þann 21. janúar 2001 eða áður en mistökin uppgötvuðust.
Eftir að mistökin komu í ljós voru þau leiðrétt með þeim hætti að skuldin var
dregin frá vorláni kæranda 2001 áður en það var borgað út þann 11. júní sl.
Ástæða þess að kæranda var ofreiknað lán skólaárið 2000-2001 er sú að hjá
Hagstofu Íslands var bróðir maka kæranda skráður á framfæri kæranda og maka hans
þegar bróðirinn flutti lögheimili sitt tímabundið á lögheimili kæranda. Lán
kæranda var fyrst reiknað út hjá LÍN þann 23. júlí 2000 og nam lánsfjárhæðin þá
kr. 910.968,00 miðað við eitt barn á framfæri. Við síðari útreikning á láni
kæranda þann 11. september sama ár var gert ráð fyrir framfærslu tveggja barna
og hækkaði lánið þá í kr. 1.135.401,00.
Kærandi bendir á að þegar hann
fékk tilkynningu um hækkun lánsins hafi hvergi komið fram sú skýring að hækkunin
væri vegna þess að við síðari útreikninginn væri miðað við framfærslu tveggja
barna. Kærandi hafði ekki gefið upplýsingar um að hann hefði tvö börn á framfæri
sínu. Hann kvaðst hafa ályktað sem svo að hækkun á námsláni sínu væri vegna
breyttra aðstæðna einkum vegna þess að hann hefði flutt úr foreldrahúsum í
leiguhúsnæði á tímabilinu. Hann kvað reynslu sína af útreikningum á námslánum
vera þá að upphæð útreikninga LÍN væri mjög óstöðug, rokkandi upp og niður án
útskýringa. Þá bendir kærandi á að þegar hann sótti um námslán fyrir skólaárið
2000-2001 var honum gert að taka fram hvert búsetuform hans væri en ekki
barnafjölda eða fjölskyldustærð. Starfsmaður LÍN hafði aðspurður sagt að þær
upplýsingar bærust sjóðnum reglulega frá Hagstofunni.
Kærandi vekur
athygli á að á sama tíma var reiknað út lán á vegum LÍN til annars námsmanns þar
sem gert var ráð fyrir að sami 17 ára drengur væri í framfærslu. Auk þess fékk
móðir drengsins námslán þar sem reiknað var með drengnum á hennar framfæri. Með
vísan til þessa gerir kærandi þá kröfu að LÍN taki á sig ábyrgð á mistökum sínum
í stað þess að krefjast endurgreiðslu hjá kæranda.
Stjórn LÍN kvað upp
úrskurð í máli kæranda þann 31. ágúst sl. þar sem kæranda var gert að
endurgreiða nefnda skuld. Í úrskurðinum kom fram að um mistök sjóðsins hafi
verið að ræða og var beðist velvirðingar á mistökunum. Jafnframt var kærandi
hvattur til að hafa samband við framkvæmdastjóra sjóðsins og semja um skuldina
ef hann vildi ekki una því að skuldin kæmi til frádráttar þegar námslán yrði
næst afgreitt til kæranda. Kærandi óskaði ekki eftir að semja um skuldina og var
hún því dregin frá vorláni hans 2001 áður en það var borgað út 11. júní sl.
Stjórn LÍN rökstuddi úrskurð sinn með vísan til úthlutunarreglna sjóðsins, nánar
tiltekið til greinar 5.5.2. "Leiðrétting útreikninga" og til greinar 5.9.
"Mistök sjóðsins."
Niðurstaða
Í gr. 5.5.2. í úthlutunarreglum LÍN segir: "Ef í ljós kemur
að sjóðurinn hefur veitt námsaðstoð eða reiknað út upphæð láns á röngum
forsendum er það leiðrétt við fyrstu hentugleika, skv. nánari ákvæðum í þessum
kafla. Er þá tekið tillit til þess hvort námsmaður hefur vísvitandi gefið
villandi eða rangar upplýsingar, hvort um vanrækslu hefur verið að ræða af hans
hálfu ellegar um mistök frá hendi sjóðsins. Að jafnaði er mögulegt að semja um
fyrirkomulag endurgreiðslna." Síðan segir í gr. 5.9.: "Verði mistök við
veitingu námsláns, námsmanni í óhag, ber að leiðrétta þau strax og upp kemst.
Námsmönnum er eindregið bent á að kynna sér vandlega þau ákvæði í þessum
úthlutunarreglum sem eiga við hverju sinni og stuðla að því að slík mistök
leiðréttist sem fyrst. Námsmanni skal tilkynnt um slík mistök og síðan ákveðið í
hverju einstöku tilviki hvernig endurgreiðslu skuli hagað."
Gögn
málsins bera með sér að stjórn LÍN hafi úrskurðað á þann hátt að kærandi skyldi
endurgreiða hið ofreiknaða lán en gefið kæranda jafnframt kost á að semja um
fyrirkomulag endurgreiðslunnar við LÍN ella kæmi skuldin til frádráttar þegar
námslán kæmi næst til útborgunar. Þar sem kærandi sinnti ekki ábendingum LÍN um
að semja um fyrirkomulag á endurgreiðslu skuldarinnar var skuldin dregin frá
vorláni kæranda 2001 áður en það var útborgað þann 11. júní 2001.
Með
vísan til framanritaðs og skýrs orðalags í tilvitnuðum greinum í
úthlutunarreglum LÍN, er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur með vísan
til forsendna hans.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 30. maí 2001 nr. L-466/01 er staðfestur.