Úrskurður
Ár 2002, fimmtudaginn 14. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðnandi úrskurð í málinu nr. L-19/2001.
Kæruefni
Með kæru dags. 5. desember 2001, sem barst málskotsnefndinni
þann 19. desember 2001, kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 1. október 2001 í
málinu nr. I-81/01, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá ársgreiðslu
námslána.
Stjórn LÍN var með bréfi dags. 8. janúar 2002 tilkynnt um
kæruna og gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum vegna hennar. Svar
dags. 17. janúar 2002 barst málskotsnefndinni þann 22. janúar 2002. Með bréfi
málskotsnefndarinnar dags. 22. janúar 2002 var kæranda gefinn kostur á að tjá
sig um bréf stjórnar LÍN frá 17. janúar. Viðbótarsjónarmið bárust frá kæranda
þann 7. febrúar 2002 með bréfi dags. 3. febrúar 2002. Stjórn LÍN var með bréfi
dags. 14. febrúar 2002 gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum í málinu
vegna bréfs kæranda frá 3. febrúar. Þann 25. febrúar 2002 barst bréf frá stjórn
LÍN dags. 21. febrúar 2002 þar sem stjórnin telur ekkert nýtt fram komið í
málinu er gefi tilefni til frekari athugasemda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Með bréfi kæranda til LÍN dags. 9. ágúst 2001 fór kærandi fram
á undanþágu á greiðslu tekjutengdrar afborgunar á námsláni sínu á árinu 2001 og
væntanlegum afborgunum af námslánunum á árinu 2002. Stjórn LÍN hafnaði beiðni
kæranda með hinum kærða úrskurði á þeim forsendum að kærandi uppfyllti ekki
skilyrði fyrir undanþágu sem fram komi í 8. gr. laga nr. 21/1992, sbr. lög nr.
67/1997 og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997.
Kærandi kveður rökstuðning
sinn fyrir því að honum beri að fá undanþágu frá greiðslu námslána á árinu 2001
og 2002 einkum vera þann, að ábyrgðarskuldbindingar sem hann hafi tekist á
hendur að fjárhæð 5-6 millj. kr. séu að falla á hann auk þess sem hann muni tapa
kr. 700.000- sem hann lánaði. Kærandi telur framangreindar aðstæður sínar
flokkast undir þau tilvik sem fjallað er um í 8. gr. laga nr. 21/1992, 9. og 10.
gr. reglugerðar nr. 602/1997 og gr. 7.4.1. og 7.4.2. í úthlutunarreglum LÍN.
Af hálfu stjórnar LÍN er tekið fram að undanþága frá afborgun af
námsláni komi aðeins til álita ef möguleikar lánþega til að afla tekna séu
skertir. Þannig þurfi tekjur að vera undir viðmiðunarmörkum sjóðsins á
greiðsluári eða undangengnu almanaksári. Árið 2001 hafi viðmiðunartekjur
sjóðsins verið 1.250.000-. Í máli kæranda sé það mat stjórnar LÍN að ekki sé
ástæða til að víkja frá þessari viðmiðun, en tekjur kæranda á árinu 2000 voru
kr. 3.725.319- og hafi verið sambærilegar síðan þá. Engin fordæmi séu fyrir
undanþágu frá greiðslu afborgana af námsláni vegna þungrar greiðslubyrði
lánþega, s.s. vegna skulda eða ábyrgða.
hinum kærða úrskurði er vísað
til 8. gr. laga nr. 21/1992 sbr. lög nr. 67/1997 er heimila stjórn sjóðsins að
veita undanþágu frá árgreiðslu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun
barna eða aðrar sambærilegar ástæður valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hjá
lánþega eða fjölskyldu hans. Þá er einnig vísað til 10. gr. reglugerðar nr.
602/1997 er segi: "Námsmaður sem hefur haft svo lágar tekjur á fyrra ári að
honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki batnað á
endurgreiðsluárinu, getur sótt um undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef lánshæft
nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar
ástæður valda þessum örðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Skal hann þá
leggja fyrir sjóðsstjórn upplýsingar um eignir sínar, lífeyri og annað það sem
stjórnin telur máli skipta. Stjórninni er þá heimilt að veita undanþágu að hluta
eða öllu leyti eftir atvikum. Sjóðsstjórn setur nánari almennar reglur um
framkvæmd þessa heimildarákvæðis."
Kærandi gerir athugasemdir við að
stjórn LÍN skuli ekki minnast á 9. gr. reglugerðar nr. 602/1997 í úrskurði
sínum, en kærandi telur atvik hans falla undir þá grein reglugerðarinnar. Þá
telur kærandi tilvik hans falla undir eftirfarandi orð í 8. gr. laga nr.
21/1992, en ekki hafi verið vikið að þeim orðum í niðurstöðu stjórnar LÍN:
"Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv.
1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á
högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir
til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna."
Kærandi
hafnar þeirri túlkun stjórnar LÍN að framangreint ákvæði eigi einungis við þegar
möguleikar skuldara til öflunar tekna séu skertir af einhverjum ástæðum. Telur
hann upptalninguna í framangreindu lagaákvæði ekki vera tæmandi.
Niðurstaða
Óumdeilt er að beiðni kæranda um niðurfellingu á greiðslu
afborgana af námslánum á árinu 2001 og 2002 er til komin vegna versnandi
fjárhagsstöðu hans sökum þess að ábyrgðir sem hann tókst á hendur féllu á hann,
auk þess sem hann hefur tapað nokkru fé sem hann hefur lánað þar sem innheimta
er vonlaus vegna skertrar greiðslugetu skuldara. Þá liggur ennfremur fyrir að
möguleikar kæranda til öflunar tekna hafa ekki skerst.
Af ákvæðum í 8.
gr. laga nr. 21/1992 sbr. lög nr. 67/1997, 9. og 10. gr. reglugerðar nr.
602/1997 og gr. 7.4.1. og 7.4.2. í úthlutunarreglum LÍN er ljóst að forsenda
þess að unnt sé að veita undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum eru, að
möguleikar lántaka til öflunar tekna séu skertir á einhvern hátt, t.d. vegna
veikinda, náms, umönnunar barna o.fl. Af ákvæðunum verður ekki ráðið að heimild
sé til undanþágu í þeim tilvikum er lántaki hefur lent í fjárhagskröggum af
öðrum ástæðum t.d. með því að reisa sér hurðarás um öxl í lántökum eða tekist á
hendur ábyrgðarskuldbindingar sem hann getur ekki, eða á erfitt með, að standa
undir, falli þær á hann. Túlka ber framangreind laga- og reglugerðarákvæði
þröngt að þessu leyti.
Með vísan til atvika málsins og því sem að framan
segir er því hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 1. október 2001 í máli nr. I-81/01 er staðfestur.