Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2002 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá endurgreiðslum

Úrskurður

Ár 2002, fimmtudaginn 21. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-2/2002

Kæruefni

Með bréfi dags. 23. janúar 2002 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN í máli nr. I-99/01 frá 2. nóvember 2001 þar sem stjórnin hafnaði beiðni kæranda um undanþágu frá endurgreiðslu námslána 2001. Kærandi krefst þess að ofangreindur úrskurður stjórnar LÍN verði felldur úr gildi.

Kæra barst málskotsnefnd 29. janúar sl. og með bréfi dags. 30. janúar sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Þann 7. febrúar sl. barst málskotsnefnd bréf stjórnar LÍN dags. 4. sama mánaðar þar sem athugasemdir stjórnarinnar eru tíundaðar. Kæranda var með bréfi dags. 7. febrúar sl. sent bréf stjórnarinnar og henni jafnframt gefinn kostur á að koma frekari sjónarmiðum á framfæri innan fjórtán daga. Engar athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði tónlistarnám til cand. mag. prófs í Kaupmannahöfn 1976-1982 og til magister diploma prófs í Berlín 1982-1985. Hún hóf endurgreiðslu námsláns síns árið 1988. Kærandi lagði stund á laganám við Háskóla Íslands frá 1996 og lauk embættisprófi í október 2001. Veturinn 1999-2000 lá maki kæranda um nokkurra mánaða skeið á Reykjalundi vegna veikinda og dró þá úr námsafköstum kæranda en hún og maki hennar eiga tvö börn. Vann kærandi talsvert á vorönn 2000 og sumarið þar á eftir. Árin 1997-2000 fékk kærandi undanþágu frá árlegri endurgreiðslu vegna lánshæfs náms við Háskóla Íslands og verulegra örðugleika til tekjuöflunar.

Kærandi kveðst hafa skilað fullum námsafköstum veturinn 2000-2001 og skrifað kandidatsritgerð sumarið 2001. Tekjur hennar á árinu hafi því einungis numið kr. 100.000. Af því leiði að útsvarsstofn vegna tekna hennar á árinu 2000 gefi ekki rétta mynd af fjárhag hennar og greiðslugetu í ár. Þá hafi maki hennar aðeins getað unnið hálfa vinnu síðastliðna níu mánuði vegna bágborins heilsufars.

Með bréfi dags. 15. júní 2001 sótti kærandi um undanþágu frá endurgreiðslu fastrar afborgunar með gjalddaga í júlí 2001. Með bréfi sjóðsins dags. 4. september 2001 var henni synjað um undanþágu þar sem tekjur hennar á árinu 2000 voru yfir viðmiðunarmörkum sjóðsins. Með bréfi dags. 24. september 2001 óskaði kærandi eftir úrskurði stjórnar og staðfesti stjórnin synjunina 2. nóvember 2001.

Kröfu sinni til stuðnings vísar kærandi til 8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992, einkum 6. mgr., og jafnframt til athugasemda með samhljóða ákvæðum eldri laga um sjóðinn nr. 72/1982. Þar komi fram að mjög ríkar ástæður verði að vera fyrir hendi svo að LÍN sé heimilt að veita undanþágu frá endurgreiðslu hlutfallsgreiðslunnar en heimild til undanþágu frá föstu greiðslunni sé rýmri. LÍN hafi þegar fallist á að aðstæður kæranda réttlæti undanþágu frá afborgun tekjutengdrar afborgunar á árinu 2001 en hafni svo að veita undanþágu frá endurgreiðslu föstu afborgunar sama árs í ljósi sömu aðstæðna.

Þá vísar kærandi til 9. gr. reglugerðar um LÍN nr. 602/1997 og greinar 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2000-2001 þar sem fram komi ítarlegri ákvæði um undanþágur frá endurgreiðslureglum sjóðsins. Einnig vísar kærandi til álita Umboðsmanns Alþingis í nokkrum málum um undanþágu frá endurgreiðslu námslána. Þar hafi komið fram að orðalag 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN og lögskýringargagna geri ráð fyrir því að stjórn sjóðsins meti hvert tilvik fyrir sig og að heimild sjóðsins til að veita undanþágu frá endurgreiðslu föstu ársgreiðslunnar sé rýmri en þegar um er að ræða viðbótarendurgreiðsluna.

Af hálfu stjórnar LÍN er á því byggt að við mat á stöðu lánþega, sem sækir um undanþágu frá fastri afborgun, sé tekið mið af því hvort honum reiknist tekjutengd afborgun síðar á árinu. Hafi hann tekjur yfir viðmiðunarmörkum sjóðsins teljist hann ekki búa við verulega fjárhagsörðugleika eða örðugleika til tekjuöflunar. Tekjur kæranda hafi á árinu 2000 verið 1.401.587 eða rúmlega 12% yfir viðmiðunarmörkum sjóðsins. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði 10. gr. reglugerðar um sjóðinn og 1. málsliðar 6. mgr. 9. gr. laga um sjóðinn.

Þá eigi kærandi ekki rétt á undanþágu samkvæmt 9. gr. reglugerðarinnar og 1. málslið 6. mgr. 8. gr. laganna þótt tekjur hennar hafi aðeins numið kr. 500.000 á síðasta ári. Jafnvel þótt útsvarsstofn hennar vegna tekna á fyrra ári gefi ekki rétta mynd af fjárhag hennar og möguleikum á að afla tekna hafi engar þær óviðráðanlegar breytingar orðið á högum hennar sem jafna megi við alvarleg veikindi eða slys.

Niðurstaða

Eins og fram er komið byggir stjórn LÍN synjun sína á undaþágu á því að kæranda hafi reiknast tekjutengd afborgun á árinu 2001 og að þótt tekjur fyrra árs gefi ekki rétta mynd af fjárhag hennar þá hafi engar þær óviðráðanlegar breytingar orðið á högum hennar sem jafna megi við alvarleg veikindi eða slys.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 skal árleg endurgreiðsla námslána ákvarðast í tvennu lagi. Annars vegar er föst greiðsla sem innheimt er á fyrri hluta ársins og hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimt er á síðari hluta ársins og er háð tekjum fyrra árs. Í 6. mgr. sömu lagagreinar er að finna heimild til að veita undaþágu frá endurgreiðslu námslána en þar segir:

"Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undaþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjáragsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans."

Ákvæði 8. gr. laganna eru samhljóða ákvæðum eldri laga um LÍN en í athugasemdum við sömu grein í þeim lögum segir að heimild til undanþágu frá fastri ársgreiðslu sé mun rýmri en heimild til að veita undanþágu frá hlutfallsgreiðslunni. Ófrávíkjanlegt sé þó að tilteknar ástæður valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Ákvæði 9. gr. reglugerðar um LÍN nr. 602/1997 heimila stjórn LÍN að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári gefur ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluári vegna skyndilegra og verulegra breytinga sem hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöðunarfé hans og möguleika til þess að afla tekna. Í grein 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að stjórninni sé heimilt að veita undanþágu frá endurgreiðslu fastrar afborgunar í slíkum tilvikum ef orðið hafa skyndilegar og verulegar breytingar á högum lánþega milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi sem skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna.

Óumdeilt er að tekjur kæranda lækkuðu verulega milli áranna 2000 og 2001. Einnig er komið fram að maki kæranda vann einungis hálfan vinnudag um níu mánaða skeið á síðasta ári vegna veikinda. Ekki verður séð af gögnum málsins að stjórn LÍN hafi við mat á undanþágubeiðni kæranda lagt mat á aðstæður hennar eins og gera verður kröfu til. Einungis er í athugasemdum stjórnar frá 4. febrúar sl. fullyrt að engar þær óviðráðanlegar breytingar hafi orðið á högum kæranda sem jafna megi við alvarleg veikindi eða slys. Frekari umfjöllun er ekki að finna um það atriði. Verður ekki talið að stjórn LÍN hafi lagt nægilegt mat á það hvort heimild til undanþágu yrði veitt í tilviki kæranda einkum þegar litið er til veikinda maka hennar og aðstæðna að öðru leyti.

Þykir því verða að fella hinn kærða úrskurð stjórnar LÍN úr gildi og leggja fyrir stjórnina að meta beiðni kæranda að nýju með hliðsjón af öllum aðstæðum hennar.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 2. nóvember 2001 í máli nr. I-99/01 er felldur úr gildi.

Til baka