Úrskurður
Ár 2002, fimmtudaginn 21. mars kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-16/2001.
Kæruefni
Með kæru dags. 20. nóvember 2001 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN frá 2. nóvember 2001 í málinu nr. L-825/01, en kæranda var synjað um frekara
námslán þar sem hann var talinn hafa lokið lánshæfu leiklistarnámi miðað við
skipulag Webber Douglas Academy of Dramatic Arts skólann í Englandi.
Með
bréfi málskotsnefndar dags. 26. nóvember sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna
og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Umsögn stjórnar LÍN er dags. 30. nóvember
sl. Kæranda var með bréfi dags. 5. desember sl. gefinn 14 daga frestur til að
tjá sig um umsögn stjórnar LÍN. það bréf var ítrekað með bréfi málskotsnefndar
dags. 8. janúar sl. Athugasemdir kæranda eru dags. 17. janúar sl. Með bréfi
málskotsnefndar dags. 24. janúar var stjórn LÍN gefinn kostur á að tjá sig um
framkomnar athugasemdir kæranda. Athugasemdir stjórnar LÍN eru dags. 1. febrúar
sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundaði þriggja ára leiklistarnám við Webber Douglas
Academy of Dramatic Arts í Englandi 1998-2001. Kærandi uppfyllti öll skilyrði
til að útskrifast vorið 2001. Kærandi hefur fengið fullt námslán í þessi þrjú
ár.
Kærandi segir í athugasemdum sínum að nám við skólann sé skipulagt
sem þriggja ára nám sem þó geti tekið lengri tíma að ljúka. Námið sé að mestu
byggt upp á stöðugri verkefnavinnu, þar sem sífellt sé unnið að æfingum og
uppfærslum á nýjum leikverkum. Kæranda hafi sóst námið vel ef undan er skilin
ein önn á námsárinu 1999-2000, en það var þó mat skólans að námsframvinda hans á
námsárinu væri fullnægjandi. Ástæðu þess að námsframvinda kæranda var ekki með
þeim hætti er hann hafði óskað megi rekja til áfalls er hann varð fyrir sumarið
1999.
Kærandi hafði stefnt að því að útskrifast frá skólanum vorið 2001,
en snemma á námsárinu 2000-2001 ráðlögðu kennarar skólans kæranda að fresta
útskrift um eina önn og vinna þar með upp það sem betur hefði mátt fara námsárið
1999-2000. Ljóst er að kæranda stóð til boða að útskrifast vorið 2001 en ákvað
að fara að ráðum skólans og fresta útskriftinni. Kærandi sótti um lán til LÍN
fyrir haustönn 2001 til þess að ljúka námi en var synjað með hinum kærða
úrskurði.
Kærandi rökstyður kröfu sína með vísan til 3. gr. laga um LÍN
nr. 21/1992 þar sem segir að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi
hverjum manni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi
stendur og að samkv. 6. gr. laganna skuli námsmaður að jafnaði hafa heimild til
að taka lán á hverju misseri meðan hann er við nám, þó ekki lengur en hæfilegur
námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað.
Í lögum um LÍN sé enga heimild að finna til að takmarka lánveitingu ef
lán er veitt lengur en stysti skipulegi námstími segi fyrir um þ.e. að binda lán
fyrir náms- og framfærslukostnaði við að námsmaður ljúki námi á stystum
skipulögðum námstíma. Þvert á móti segi lögin að námsmanni skuli standa til boða
lán sem duga fyrir náms- og framfærslukostnaði á meðan námstími hans telst
hæfilegur. Því sé afstaða stjórnar LÍN þvert gegn anda laganna.
Þá
bendir kærandi á að skólinn hafi ráðlagt kæranda að dvelja eina önn til viðbótar
við skólann, að nám hans á þeirri önn nýtist kæranda til lokaprófs m.ö.o.
kærandi hafi verið að takast á við ný verkefni í náminu en ekki hafi verið um
endurtekingu að ræða og að skólinn telji námsframvindu kæranda eðlilega þó hann
ljúki námi á einni önn umfram það sem styst er mögulegt samkvæmt skipulagi
skólans.
Stjórn LÍN vísar til þess í sínum rökstuðningi að samkv.
upplýsingum Webber Douglas Academy of Dramatic Arts sé eðlileg námslengd
leiklistarnáms þrjú ár og að kærandi hafi uppfyllt allar kröfur skólans til að
útskrifast vorið 2001 enda hafi kærandi fengið afgreidd full framfærslulán í
þrjú ár á grundvelli þeirra upplýsinga. Samkv. gr. 2.2.1. í úthlutunarreglum LÍN
skuli miða fullt nám við stysta skipulegan námstíma samkvæmt námskrá sem
yfirstjórn skóla hefur staðfest. Jafnframt komi fram í greininni að einungis sé
tekið tillit til námskeiða sem nýtist til lokaprófs og því sé enga heimild að
finna í úthlutunarreglum LÍN til að veita kæranda viðbótarlán vegna náms sem
hann hafi þegar fengið lán fyrir.
Niðurstaða
Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir að námsmaður
skuli að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju misseri meðan hann er við
nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim
skóla þar sem nám er stundað. Þá segir í 4. mgr. sömu greinar að námslán skuli
ekki veitt nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti.
Í gr. 2.2.1. í
úthlutunarreglum LÍN segir að miða skuli fullt nám við stysta skipulegan
námstíma samkvæmt námskrá sem yfirstjórn skóla hefur staðfest.
Fyrir
liggur að kærandi átti þess kost að útskrifast frá Webber Douglas Academy of
Dramatic Arts vorið 2001.
Að höfðu samráði við yfirmenn skólans ákvað
kærandi hins vegar að bæta við einni önn haustið 2001. Ekki kemur fram í gögnum
málsins að kærandi hafi fyrirfram aflað upplýsinga hjá LÍN hvort nám hans á
haustönn 2001 teldist lánshæft. Ákvörðun kæranda um að bæta einni önn við
skuldbindur ekki LÍN í þessu tilviki.
Í ljósi þess að kærandi átti þess
kost að ljúka námi og útskrifast vorið 2001 verður að telja að námsframvinda
kæranda hafi verið í samræmi við skipulag skóla og teljist því hæfilegur
námstími í skilningi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN.
Með vísan
til framanritaðs er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 2. nóvember 2001 í máli nr. L-825/01 er staðfestur.