Úrskurður
Ár 2002, föstudaginn 19. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-14/2001.
Kæruefni
Með kæru dags. 13. nóvember 2001 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN frá 2. nóvember 2001 í málinu nr. I-119/01 þar sem stjórnin hafnaði beiðni
kæranda um undanþágu frá endurgreiðslu námslána árin 1999 og 2000.
Með
bréfi málskotsnefndar dags. 16. nóvember sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna
og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Umsögn stjórnar LÍN er dags. 30. nóvember
sl. Kæranda var með bréfi dags. 5. desember sl. gefinn 14 daga frestur til að
tjá sig um umsögn stjórnar LÍN.
Athugasemdir kæranda eru dags. 17.
desember sl. Með bréfi dags. 20. desember sl. var þess farið á leit við stjórn
LÍN að stjórnin léti málskotsnefnd í té þau gögn sem stjórn LÍN byggði úrskurð
sinn á. Af hálfu LÍN bárust umbeðin viðbótargögn þann 15. janúar sl. Með bréfi
dags. 7. febrúar sl. var óskað frekari gagna frá kæranda um fjárhagslegar
aðstæður hennar á þeim tíma er beiðni hennar var til meðferðar hjá stjórn LÍN
ásamt nýju læknisvottorði. Viðbótargögn bárust frá kæranda með bréfum dags. 14.
febrúar sl. og 24. mars sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi lauk prófi í lyfjafræði í janúar 1997. Fyrsti gjalddagi
á námsláni hennar var 30. júní 1999. Greiddi kærandi fyrstu afborgun lánsins en
ekki tekjutengda afborgun 1. september 1999. Eftir ítrekaðar innheimtutilraunir
LÍN var skuldin send lögmönnum sjóðsins til innheimtu. Afborganir þann 1. mars
og 1. september 2000 voru ekki greiddar af kæranda og sendir LÍN þær til
innheimtu hjá lögmönnum sjóðsins.
Með bréfi dags. 16. október 2001
óskaði kærandi eftir að tekið væri tillit til aðstæðna hennar m.a. þess að hún
hafi verið óvinnufær frá árinu 1999. Með úrskurði stjórnar LÍN þann 2. nóvember
sl. var kæranda veitt undanþága frá endurgreiðslu námslána á árinu 2001 en
synjað um undanþágu frá endurgreiðslu námslána árin 1999 og 2000.
Í
rökstuðningi sínum bendir kærandi á að hún hafi verið óvinnufær frá árinu 1999.
Hún hafi í mörg ár átt við alvarleg geðræn veikindi að stríða, sem hafi valdið
verulegri skerðingu á námsgetu og fötlun. Einu tekjur hennar frá árinu 1999 séu
örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Vísar kærandi til læknisvottorðs
dags. 22. febrúar sl. Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið alvarlega
veik til lengri tíma. Í niðurlagi vottorðsins segir: "Á árunum 1997 til 1999
var hún við vinnu í apóteki og er það eina tímabilið á þessum áratug sem hún
hefur verið við vinnu. Kærandi er nú vegna langvinnra veikinda algjörlega
óvinnufær og á fullum örorkustyrk."
Stjórn LÍN vísar til þess að
skv. 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um LÍN sé ekki veitt undanþága frá árlegri
endurgreiðslu ef lánþega reiknist tekjutengd afborgun. Þó sé heimilt skv. 9. gr.
reglugerðarinnar að taka tillit til þess ef skyndilegar og verulegar breytingar
verða á högum lánþega milli ára t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir
slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna.
Stjórn sjóðsins miði jafnframt við að fjárhagsörðugleikar lánþega hafi varað í
a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga.
Stjórnin bendir á að tekjur kæranda
á árinu 1998 hafi verið kr. 2.285.575, á árinu 1999 kr. 2.085.345 og á árinu
2000 kr. 1.273.702 og hafi kæranda því reiknast tekjutengd afborgun árin 1999 og
2000 og lág afborgun 2001.
Þá vísar stjórnin til gr. 7.4.3 í
úthlutunarreglum LÍN en þar segi að ekki sé veittur frestur á endurgreiðslum sem
sendar hafi verið til lögfræðiinnheimtu nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða stjórnar LÍN að kærandi
uppfylli ekki þau skilyrði fyrir undanþágu frá afborgun, sem upp eru talin í 8.
gr. l. nr. 21/1992 og í 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997.
Niðurstaða
Ljóst er að ákvæði 8. gr. laga nr. 21/1992 og 9. og 10. gr.
reglugerðar nr. 602/1997 veita stjórn LÍN heimild til að veita undanþágu frá
árlegri endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum eftir
atvikum, ef nánar tilgreindar ástæður eru fyrir hendi.
Af hálfu
málskotsnefndarinnar er ekki fallist á það með stjórn LÍN að tækt sé að synja um
undanþágu frá greiðslu námslána á grundvelli laga og reglugerða um LÍN vegna
þess eins að lánþega hafi reiknast tekjutengd afborgun óháð aðstæðum kæranda á
þeim tíma er beiðni um undanþágu er sett fram.
Samkvæmt fyrirliggjandi
gögnum voru tekjur kæranda á þeim tíma sem beiðnin var sett fram eingöngu
örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins og á þeim grundvelli veitti stjórn LÍN
kæranda undanþágu frá endurgreiðslu námslána árið 2001. Þá kemur fram í
fyrirliggjandi læknisvottorði að kærandi sé nú, vegna langvarandi veikinda,
algjörlega óvinnufær og á fullum örorkustyrk.
ljósi þessa er það álit
málskotsnefndarinnar að það felist mótsögn í þeirri niðurstöðu stjórnar LÍN að
heimila undanþágu frá endurgreiðslu námslána á árinu 2001, en synja um undanþágu
frá endurgreiðslu vegna áranna 1999 og 2000.
Þá getur málskotsnefndin
ekki fallist á það með stjórn LÍN að ákvæði gr. 7.4.3. í úthlutunarreglum LÍN
komi í veg fyrir undanþágu til handa kæranda eins og á stendur í máli þessu.
Með vísan til framanritaðs er fallist á kröfur kæranda í máli þessu og
hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN felldur úr gildi. Lagt er fyrir stjórn LÍN að
veita kæranda umbeðna undanþágu frá greiðslu afborgana vegna áranna 1999 og
2000.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 2. nóvember 2001 í máli nr. I-119/01 er felldur úr gildi. Lagt er fyrir stjórn LÍN að veita kæranda umbeðna undanþágu frá greiðslu afborgana vegna áranna 1999 og 2000.