Úrskurður
Ár 2002, miðvikudaginn 8. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-8/2002.
Kæruefni
Með bréfi dags. 20. mars 2002 sem barst málskotsnefndinni þann
22. mars 2002 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 8. febrúar 2002 í málinu
nr. L-971/01, þar sem hafnað var beiðni kæranda um að fresta námslokum hans, en
stjórn LÍN lítur svo á að námslok kæranda hafi verið við lok þess misseris sem
hann skilaði síðast lánshæfum árangri, 21. desember 1999.
Stjórn LÍN var
tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 22. mars 2002 og óskað eftir athugasemdum
vegna hennar. Svar barst frá stjórn LÍN með bréfi dags. 27. mars 2002. Kæranda
var gefinn kostur á að tjá sig um svar stjórnar LÍN með bréfi dags. 3. apríl
2002 en engar athugasemdir eða upplýsingar hafa komið frá kæranda vegna
málsins.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi fékk námslán vegna viðskiptafræðináms við Háskóla
Íslands á árunum 1978-1983 og við Aalborg Universitet 1987-2000. Haustið 1998
hóf hann 45 eininga M.S. nám við Háskóla Íslands og fékk námslán skólaárið
1998-1999 og aftur á haustmisseri 1999. Á árunum 2000 og 2001 skilaði kærandi
engum námsárangri og var með formlegt leyfi frá námi frá 15. mars 2001 til 15.
mars 2002.
Af hálfu kæranda hefur verið óskað eftir að námslokum hans
verði frestað. Bendir hann í því sambandi á að hann sé nemandi í MS.Sc. námi í
stjórnun og stefnumótun og hafi lokið 33,5 einingum og eigi eftir að ljúka 15
eininga lokaritgerð. Þar sem hann hafi verið með erfitt lokaverkefni, er fjalli
um stefnumótum í fyrirtæki, hafi ritgerðarsmíð hans dregist á langinn og þess
vegna hafi hann fengið leyfi frá námi frá 15. mars 2001 til 15. mars 2002. Það
hafi verið í samræmi við samþykki deildarstjóra nemendaskrár. Kveðst kærandi
hafa orðið að lesa mikið efni til þess að geta afmarkað ritgerð sína og það hafi
tafið hann. Af þessum sökum hafi hann ekki sýnt neinn árangur varðandi
lokaverkefnið. Kærandi bendir á að verði námslok hans talin hafa orðið þann 21.
desember 1999 og endurgreiðsla á láni hans komi til framkvæmda 13. nóvember
2001, geti það hæglega orðið til þess að hann geti ekki lokið við MS
lokaritgerðina.
Af hálfu stjórnar LÍN hefur kröfu kæranda verið hafnað
með hinum kærða úrskurði með vísan til gr. 2.5.1. í úthlutunarreglum LÍN, en þar
segir: "Námslok teljast við lok þess misseris þegar námsmaður hættir að fá
lán, nema námsmaður sýni fram á áframhaldandi lánshæft nám á næsta skólaári þar
á eftir. Ef námsmaður gerir hlé á námi sínu lengur en eitt skólaár miðast
námslok þannig við síðasta aðstoðartímabil fyrir námshlé. Hefji námsmaður nám
aftur að loknu námshléi, sem er lengra en eitt skólaár, skal líta á það sem nýtt
nám."
Stjórn LÍN lítur svo á að um nýtt nám sé að ræða, sbr. síðasta
málslið gr. 2.5.1. í úthlutunarreglunum, hyggist kærandi halda námi sínu áfram á
vormisseri 2002.
Niðurstaða
Óumdeilt er að kærandi hefur ekki sýnt neinn námsárangur frá árslokum 1999. Grein 2.5.1. í úthlutunarreglum LÍN kveður með skýrum hætti á um hvernig námslok eru skilgreind skv. reglum sjóðsins. Atvik máls þessa, sem lýst hefur verið, eru með þeim hætti að líta beri svo á að námslok kæranda hafi orðið þann 21. desember 1999. Ekki er að finna neinar heimildir til að hagga því, þrátt fyrir aðstæður kæranda sem gerð hefur verið grein fyrir. Hinn kærði úrskurður er því staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 8. febrúar 2002 í málinu nr. L-971/01 er staðfestur