Úrskurður
Ár 2002, föstudaginn 31. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-6/2002.
Kæruefni
Með bréfi dagsettu 14. mars 2002 en mótteknu 20. mars sl. kærði
kærandi úrskurð stjórnar LÍN í máli nr. I-77/99 frá 1. mars 2002 þar sem
stjórnin staðfesti fyrri úrskurð sinn í málinu frá 25. nóvember 1999 þar sem
stjórnin hafði hafnað beiðni kæranda um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu
námslána hans.
Mál þetta hefur tvisvar áður komið til kasta
málskotsnefndar. Upphaflega staðfesti málskotsnefnd niðurstöðu LÍN frá 25.
nóvember 1999 með úrskurði 19. janúar 2000. Kærandi leitaði álits Umboðsmanns
Alþingis og var niðurstaða hans sú í áliti dagsettu 29. maí 2001 að stjórn LÍN
og málskotsnefnd hefðu ekki afgreitt beiðni kæranda með þeim hætti sem 6. mgr.
8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 gerði ráð fyrir. Mæltist Umboðsmaður til þess að
málskotsnefnd tæki málið til skoðunar á ný kæmi fram ósk þess efnis.
Þann 26. júlí 2001 sendi LÍN málskotsnefnd erindi kæranda þar sem hann
óskaði eftir endurupptöku málsins með vísan til álits Umboðsmanns. Málið var
endurupptekið á fundi málskotsnefdar 12. september 2001 með vísan til 24. gr.
stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með bréfi dagsettu 18. september 2001 var
kæranda tilkynnt um endurupptökuna og óskað eftir frekari upplýsingum m.a. um
fjárhagslegar aðstæður hans á þeim tíma þegar undanþágubeiðni hans var til
meðferðar hjá LÍN. Bréfið til kæranda var ítrekað 17. október 2001. Afrit
bréfsins til kæranda var sent LÍN. Þá var LÍN tilkynnt um endurupptöku málsins
með bréfi dagsettu 18. september 2001.
Kærandi óskaði í bréfi dagsettu
18. október 2001 eftir útskýringum á spurningum sem málskotsnefnd hafði lagt
fyrir hann. Málskotsnefnd skýrði fyrri fyrirspurn sína í bréfi dagsettu 25.
október 2001. Kærandi sendi svör sín í bréfi dagsettu 31. október 2001. Með
bréfi dagsettu 8. nóvember 2001 var enn óskað upplýsinga og gagna frá kæranda og
var það síðan ítrekað með bréfi dagsettu 29. nóvember 2001. Athugasemdir kæranda
og gögn voru síðan sendar nefndinni með bréfi dagsettu 13. desember 2001, sem
send var stjórn LÍN með bréfi dags. 17. janúar 2002, þar sem stjórninni var
gefinn kostur á að tjá sig um þau. Stjórn LÍN gerði frekari athugasemdir í bréfi
dags. 28. janúar 2002. Í úrskurði dagsettum 14. febrúar sl. felldi málskotsnefnd
úrskurð stjórnar LÍN úr gildi á þeim forsendum að málskotsnefnd hefði aflað
gagna sem lágu ekki fyrir þegar stjórn LÍN komst að niðurstöðu en það hefði
verið nauðsynlegt við framkvæmd skyldubundins mats stjórnarinnar.
Stjórn
LÍN felldi úrskurð í málinu 1. mars sl. og staðfesti fyrr niðurstöðu sína frá
25. nóvember 1999. Kærandi kærði úrskurðinn til málskotsnefndar með bréfi dags.
14. mars sl. og var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 21. mars
sl. Jafnframt var stjórninni gefinn kostur á að tjá sig um hana innan fjórtán
daga og óskað eftir að lögð yrðu fram öll skjöl sem lágu fyrir þegar stjórnin
kvað upp úrskurð sinn. Kæranda var sent afrit bréfsins með bréfi dagsettu 21.
mars sl. Athugasemdir stjórnar LÍN eru dagsettar 1. apríl sl. Kæranda var sent
afrit bréfs stjórnar LÍN með bréfi dagsettu 5. apríl sl. og gefinn 14 daga
frestur til að tjá sig frekar. Athugasemdir kæranda voru settar fram í bréfi
dags. 11. apríl sl. sem barst málskotsnefnd 17. sama mánaðar. Stjórn LÍN var
sent afrit af bréfi kæranda með bréfi nefndarinnar dags. 23. apríl sl. og
stjórninni gefinn 14 daga frestur til að gera frekari athugasemdir. Athugasemdir
eru gerðar í bréfi dags. 7. maí sl. og voru þær sendar kæranda með bréfi dags.
8. maí sl. þar sem honum var gefinn 14 daga frestur til að koma frekari
sjónarmiðum sínum á framfæri við málskotsnefnd. Í ódagsettu bréfi gerir kærandi
athugasemdir við síðasta bréf stjórnar LÍN og kveðst ekki munu svara frekari
málflutningi hennar.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi býr í Danmörku og er gullsmiður að mennt. Hann sótti um
undanþágu frá afborgun námslána vegna breytinga sem urðu á högum hans vegna
mænusiggssjúkdóms sem veldur því að hann getur ekki sinnt starfi sínu. Kærandi
kveður sjúkdóminn vera lömunarsjúkdóm sem endi með því að sjúklingurinn verði
bundinn hjólastól. Kærandi kveðst vera á hæstu sjúkrabótum vegna sjúkdómsins en
skattar séu háir í Danmörku og því hafi hann úr litlu að spila. Á árinu 1999
hafi hann fengið endanlega sjúkdómsgreiningu og hann skilið við konu sína. Þá
hafi hann ekki unnið neitt frá því í júlí 1998.
Eftir endurupptöku
málsins sendi kærandi málskotsnefndinni upplýsingar um tekjur hans skv.
årsopgörelse 1999 og 2000 auk gagna um kostnað vegna lyfja eins mánaðar og
frádrátt á bótagreiðslum hans.
Til stuðnings kröfu sinni hefur kærandi
vísað til ákvæða 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 þar sem kveðið er á um að
heimilt sé að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti
ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann
veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans
og möguleika til að afla tekna. Hann vísar jafnframt til þess að meta beri
félagslegar aðstæður hans þar sem hann hafi gengið í gegnum erfiðan hjónaskilnað
1997 til 1999. Kærandi krefst þess að öll læknisvottorð verði að fullu virt.
Stjórn LÍN vísar eins og kærandi til 8. gr. laganna um LÍN, sbr. lög nr.
67/1997. Þá bendir stjórnin á ákvæði 9. gr. reglugerðar um LÍN nr. 602/1997 en
þar segi:
"Nú gefur útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári ekki rétta mynd
af fjárhag lánþega á endurgreiðsluári, vegna skyndilegra og verulegra breytinga
sem hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður
fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla
tekna. Ef lánþegi gerir skriflega grein fyrir þessum breyttu högum sínum og
styður hana tilskildum gögnum, er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá
árlegri endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum eftir
atvikum."
Stjórn LÍN vísar til þess að í ákvæðum laganna og
reglugerðarinnar sé það ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir veitingu undanþágu að
tilteknar ástæður valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu
hans. Bent er á að kærandi hafi verið í vanskilum með afborganir námslána sinna
frá hausti 1997. Samkvæmt innsendum gögnum hafi hann misst atvinnu sína um
miðjan ágúst 1998 og hafi verið án atvinnu síðan. Tekjur kæranda hafi verið kr.
2.653.342 fyrir árið 1996, kr. 2.349.015 fyrir árið 1997 og kr. 1.700.844 fyrir
árið 1998 miðað við meðalgengi dönsku krónunnar umrædd ár. Stjórn sjóðsins telur
að kærandi geti ekki átt rétt á undanþágu vegna gjalddaganna 1. september 1997,
1. mars 1998 og 1. september 1998 þar sem hann hafi ekki misst atvinnu sína fyrr
en um miðjan ágúst 1998 og hafi auk þess reiknast tekjutengd afborgun umrædd ár.
Þá er það mat stjórnar LÍN að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu, sem
réttlætt geti undanþágu frá afborgunum. Þrátt fyrir hjónaskilnað á árinu 1997
gefi útsvarsstofn áranna 1996 og 1997 rétta mynd af fjárhag kæranda í september
1997 og mars 1998. Hann hafi verið í fullri vinnu á þessum tíma og engar
skyndilegar og verulegar breytingar hafi orðið á högum hans sem jafna megi við
alvarleg veikindi eða slys er skert hafi möguleika hans til að afla tekna.
Stjórn LÍN hefur túlkað 9. gr. reglugerðar nr. 602/1997 þannig að litið
sé til þess hvort líklegt sé að greiðanda muni reiknast tekjutengd afborgun á
næsta ári eftir að skyndilegar breytingar eigi sér stað. Af gögnum málsins megi
ráða að hann hafi sem svarar til u.þ.b. 1.400.000 íslenskra króna í tekjur á ári
og því muni honum reiknast tekjutengd afborgun árið 2000. Stjórnin telji því
ekki efni til að verða við kröfu kæranda eins og málum sé háttað.
Þá
hefur stjórn LÍN bent á að gögn, sem kærandi lagði fram eftir endurupptöku
málsins hjá málskotsnefnd, breyti engu um afgreiðslu stjórnarinnar 25. nóvember
1999 þar sem þau hafi ekkert með aðstæður hans að gera á árunum 1997 og 1998
þegar honum bar lögum samkvæmt að endurgreiða námslán sitt. Stjórnin vísar
jafnframt til þess að samkvæmt reglum LÍN þurfi atvinnuleysi að hafa varað
lengur en í 4 mánuði til að geta réttlætt undanþágu frá afborgun.
Niðurstaða
Ákvæði 8. gr. laga nr. 21/1992 sbr. lög nr. 67/1997 og 9. gr.
reglugerðar nr. 602/1997 veita stjórn LÍN heimild til að veita undanþágu frá
árlegri endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum eftir
atvikum, ef nánar tilgreindar ástæður eru fyrir hendi.
Eins og áður kom
fram, lagði kærandi fram frekari gögn um fjárhagslegar aðstæður sínar eftir að
mál hans var endurupptekið hjá málskotsnefnd. Kemur þar fram að hagur hans hefur
frekar farið versnandi og hann haft útgjöld af lyfjakaupum. Við mat á því hvort
veita skuli kæranda umbeðna undanþágu verður að líta til þess hvernig aðstæður
hans voru á þeim tíma þegar beiðnin var sett fram og hvort sjúkdómurinn hafði
áhrif á ráðstöfunartekjur hans og aðrar aðstæður. Eðlilegt er að settar séu
viðmiðunarreglur eins og þær sem koma fram í úthlutunarreglum LÍN. Hins vegar
koma þær ekki í veg fyrir það að stjórn LÍN kanni aðstæður hvers og eins
lánþega, sem óskar eftir undanþágu, og leggi í framhaldi af þeirri rannsókn mat
á það hvort rétt sé að veita undanþágu eða ekki.
Málskotsnefnd hefur í
tvígang aflað gagna sem ekki lágu fyrir þegar stjórn LÍN komst að niðurstöðu í
máli kæranda 25. nóvember 1999. Með vísan til álits Umboðsmanns Alþingis nr.
2929/2000 í máli kæranda er ljóst að til þess að framkvæma skyldubundið mat sitt
á aðstæðum kæranda var þörf á að afla þeirra við meðferð málsins þar sem ekki er
útilokað að þau gætu haft áhrif á niðurstöðu stjórnarinnar í málinu.
Stjórn LÍN hefur nú fengið öll framkomin gögn og lagt úrskurð á málið
öðru sinni. Fram kemur í bréfi stjórnar LÍN til málskotsnefndar dags. 28. janúar
sl. að gögn þau, sem kærandi hafi nú lagt fram, breyti engu um afgreiðslu
stjórnarinnar 25. nóvember 1999 þar sem þau hafi ekkert með aðstæður hans að
gera á árunum 1997 og 1998 þegar honum hafi borið lögum samkvæmt að endurgreiða
af námsláni sínu til sjóðsins. Er þessi afstaða stjórnar LÍN ítrekuð í bréfi til
kæranda dagsettu 1. mars sl. en þar segir að stjórnin hafi öðru sinni yfirfarið
og lagt mat á gögnin, sem málskotsnefnd aflaði, en að ekki verði séð að þau geti
breytt afgreiðslu stjórnarinnar þar sem þau hafi ekkert með aðstæður kæranda að
gera þegar vanskil hans við sjóðinn hófust. Sami skilningur stjórnar LÍN kemur
fram í bréfi frá 7. maí sl. á þann veg að við mat á beiðni um undanþágu beri að
taka mið af aðstæðum á þeim tíma þegar afborgun fellur í gjalddaga.
Rökstuðningur stjórnar LÍN fyrir höfnun á undanþágubeiðni kæranda miðast
við framangreindan skilning á því við hvaða tímamark eigi að miða
fjárhagserfiðleika kæranda við. Ekki verður séð að hjá stjórninni hafi farið
fram rannsókn á fjárhagslegum aðstæðum kæranda á þeim tíma þegar umsókn hans um
undanþágu var til meðferðar hjá sjóðnum eins og hefði átt að gera, sbr.
framangreint álit Umboðsmanns Alþingis í máli kæranda.
Með vísan til
framanritaðs verður því að telja að rannsókn á fjárhagslegum aðstæðum kæranda
hafi ekki verið næg. Niðurstaða málskotsnefndar er því sú að fella verði hinn
kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir stjórn LÍN að meta beiðni kæranda að nýju
með hliðsjón af aðstæðum hans á því tímamarki þegar beiðni hans var til
meðferðar.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 1. mars 2002 í máli nr. I-77/99 er felldur úr gildi.