Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-01/2002 - Skólagjöld - beiðni um undanþágu frá hámarki skólagjaldalána

Úrskurður

 

Ár 2002, fimmtudaginn 1. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-1/2002:

 

Kæruefni

 

Með ódagsettri kæru, sem barst málskotsnefnd 17. janúar 2002, kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 3. desember 2001 þar sem kæranda var synjað um áframhaldandi lán til greiðslu skólagjalda. 

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 17. janúar sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tveggja vikna. Með bréfi dags. 28. janúar sl. gerði stjórnin athugasemdir við framkomna kæru og var kæranda sent afrit bréfsins með bréfi dags. 7. febrúar sl. og gefinn 14 daga frestur til að koma frekari sjónarmiðum á framfæri. Með bréfi dags. 19. febrúar sl. gerði kærandi athugasemdir við efni bréfs stjórnar LÍN. 

Samband íslenskra námsmanna erlendis sendi málskotsnefnd athugasemdir sínar vegna málsins í bréfi dags. 22. febrúar sl. Stjórn LÍN var sent afrit bréfsins með bréfi dags. 11. mars sl. og gerði athugasemdir við efni þess í bréfi dags. 22. mars sl. Kæranda var með bréfi dags. 3. apríl sl. sent afrit bréfsins og gefinn kostur á því að svara athugasemdum stjórnarinnar og gerði hann það í bréfi dags. 24. apríl sl. Með bréfi dags. 8. maí sl. var stjórn LÍN sent afrit af athugasemdum kæranda og gefinn frekari kostur á að tjá sig um málið sem hún gerði í bréfi dags. 21. maí sl. 

Málskotsnefnd ritaði stjórn LÍN bréf 27. maí sl. og óskaði þá eftir upplýsingum um það, hvað legið hafi að baki þeim breytingum þegar ákveðið var að tiltaka hámark almennra lána til skólagjalda í íslenskum krónum. Kæranda var sent afrit bréfsins. Svar stjórnar LÍN kemur fram í bréfi til málskotsnefndar dags. 31. maí 2002. 

Margeir Pétursson hdl. tók sæti Helga Jóhannessonar hrl. í þessu máli sem varamaður í fjarveru aðalmanns.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sótti 18. nóvember 1998 um námslán til MA náms í listasögu við De Montfort University á Englandi. Hann hóf námið í janúar 1999 og lauk því í september 2000 með Master of Arts gráðu. Námið var skipulagt sem tólf mánaða nám og var kæranda, auk skólagjaldaláns, upphaflega ætlað 100% lán til framfærslu fyrir sig, konu hans og tvö börn í tólf mánuði eða fjóra fjórðunga til að ljúka náminu. Hins vegar var kæranda veitt svigrúm í tvo fjórðunga til viðbótar til að ljúka námi vegna viðamikils lokaverkefnis með úrskurði stjórnar LÍN 14. júlí 2000. Kærandi fékk samtals GBP 12.700 í skólagjaldalán vegna þessa náms. 

Kærandi hóf nám í safnfræði við University of Leicester á Englandi í október 2000 og lauk því með prófgráðunni Master in Museum Studies í september 2001. Fékk kærandi 100% framfærslulán fyrir sig og fjölskyldu sína auk skólagjaldalána að fjárhæð GBP 6.825. Hinn 16. ágúst 2001 sótti kærandi um lán til Ph.D náms í safnfræði við University of Leicester og var samþykkt að veita honum lán til framfærslu fyrir sig og fjölskylduna en honum synjað um lán vegna skólagjalda. Sú synjun var staðfest með úrskurði stjórnar LÍN 3. desember 2001 með vísan til 4. mgr. greinar 4.8. í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2001-2002. Þann úrskurð kærði kærandi til málskotsnefndar eins og áður er vikið að. Kærandi byggir kröfu sína á því að ótækt sé að hámarkslán til greiðslu skólagjalda sé einungis 2,8 milljónir króna í efnahagskerfi sem er á stöðugri hreyfingu enda vitað að skólagjöld við háskóla erlendis hækki árlega. Einnig sé óeðlilegt að gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu skuli hafa áhrif á skólagjaldalán til námsmanna þar sem hámarkið er talið í íslenskum krónum og námsmenn fá greitt í íslenskum krónum. Þetta þýði tvöfalt gengistap, í fyrsta lagi þegar eldra lán er umreiknað hjá sjóðnum og í öðru lagi þegar þarf að kaupa erlendan gjaldeyri í banka. Gengisfelling á síðasta ári hafi valdið því að kærandi hafi ekki átt fyrir skólagjöldum og engin von sé á leiðréttingu, hvorki frá LÍN né stjórnvöldum. Óréttlátt sé að gengisáhrif krónunnar skuli bitna á fátækum námsmönnum sem byggja nám sitt og framtíð á lánsloforðum LÍN og þeim forsendum sem gilda þegar sótt er um lán. 

Kærandi kveður kæru sína vera í tveimur liðum. Í fyrsta lagi kæri hann þak á skólagjaldalánum en það sé bæði úrelt og ómannúðlegt og í engu samræmi við síhækkandi skólagjöld við erlenda háskóla sem margir krefjist mun hærri skólagjalda en þeirra GBP 7.155 sem hann þurfi að greiða. Þetta þak sé í engu samræmi við gengis- og verðlagsþróun í heiminum nú. Í öðru lagi snúist kæran um þá vinnureglu LÍN að gera námsmönnum að bera tvöfalt gengistap þegar um skólagjöld sé að ræða. Það sé óréttlátt að ætlast til þess að námsmenn beri gengisáhættu. 

Samband íslenskra námsmanna erlendis sendi málskotsnefnd bréf dagsett 22. febrúar sl. vegna kærunnar og lagði áherslu á nokkur atriði. Þar kom fram að úthlutunarreglur LÍN fyrir skólaárið 1999-2000 hafi falið í sér þá breytingu að hámarksupphæð skólagjaldalán í grein 4.8. hafi verið tiltekin í íslenskum krónum í stað bandaríkjadala í eldri úthlutunarreglum. Fyrir breytinguna hafi skólagjaldalánin líkt og nú verið greidd út í íslenskum krónum og lán vegna náms erlendis hafi safnast upp í bandaríkjadölum, óháð námslandi, uns þakinu var náð. Þessi framkvæmd hafi einnig verið viðhöfð eftir að hámarksupphæð skólagjaldalána var breytt í íslenskar krónur í reglu 4.8. Tölvukerfi og framkvæmd sjóðsins hafi ekki verið breytt þrátt fyrir breyttar úthlutunarreglur og hafi LÍN ákveðið að túlka reglu 4.8. í úthlutnarreglunum á þann hátt að enn skuli halda skuld vegna skólagjaldalána til haga í erlendri mynt hjá námsmönnum erlendis. Þar til í október sl. hafi skuldum námsmanna vegna skólagjalda verið safnað upp í bandaríkjadölum óháð námslandi en þeirri vinnureglu hafi verið breytt rúmum tveimur árum eftir að fyrrnefndar breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins tóku gildi þann 1. júní 1999. 

SÍNE telur túlkun og framkvæmd LÍN við uppsöfnun veittra skólagjaldalána leiða til afar ósanngjarnrar og ófyrirsjáanlegrar niðurstöðu fyrir námsmenn erlendis nú þegar hámarksfjárhæð skólagjaldalána sé tiltekin í íslenskum krónum og ekki verði séð að sú framkvæmd eigi sér skýra stoð í úthlutunarreglum. Ekki komi fram með skýrum hætti í grein 4.8. í úthlutunarreglum LÍN að skólagjaldalánum námsmanna á Íslandi skuli haldið til haga í íslenskum krónum en sömu lánum til námsmanna erlendis skuli safnað upp í erlendri mynt. Eðlilegt væri að LÍN beitti sömu vinnureglu við uppsöfnun skólagjaldalána nú, þegar hámarksupphæðin er tilgreind í íslenskum krónum í reglu 4.8. og áður, þegar upphæðin var tilgreind í bandaríkjadollurum. Túlkun LÍN á gildandi reglu sé hins vegar sú frá 1. október 2001 að uppsöfnun afgreiddra skólagjaldalána skuli eiga sér stað í mynt námslands, þ.e. ekki í þeirri mynt sem tiltekin er í reglu 4.8. Þannig gæti ekki samræmis í túlkun sjóðsins á reglunni námsárið 1998-1999 og túlkun sömu reglu á yfirstandandi námsári. Eru í bréfi samtakanna sett upp dæmi sem sýna annars vegar útreikning LÍN og hins vegar útreikning SÍNE. 

Af hálfu stjórnar LÍN er á því byggt að samkvæmt úthlutunarreglum LÍN skuli samanlögð lán til skólagjalda aldrei verða hærri en 2,8 milljónir króna eða jafngildi í annarri mynt miðað við gengi 1. júní 2001. Í samræmi við gengi gjaldmiðla þann dag sé samanlagt hámark skólagjaldalána 19.062 bresk pund skólaárið 2001-2002. Kærandi hafi vegna fyrra náms í Englandi samtals fengið lánað vegna skólagjalda 19.525 bresk pund. Þegar í júní 2001, tveimur mánuðum áður en hann hafi sótt um lán vegna núverandi náms, hafi honum verið kunnugt um að hann ætti ekki frekari rétt til skólagjaldalána samkvæmt reglum sjóðsins. Hins vegar eigi han rétt á framfærsluláni fyrir sig og fjölskyldu sína vegna doktorsnámsins. Stjórn LÍN kveður enga breytingu hafa orðið á túlkun sjóðsins á grein 4.8. í úthlutunarreglunum. Bæði fyrir og eftir að farið var að tilgreina hámark skólagjaldalána í íslenskum krónum í stað bandaríkjadollara, er niðurstaðan óháð því í hvaða gjaldmiðli hámarkið er tilgreint. Það, sem ráði niðurstöðunni, auk hámarksins, sé sú dagsetning sem gengi gjaldmiðla sé miðað við. 

Í grein 5.2.2. komi skýrt fram að allir útreikningar vegna náms erlendis eigi sér stað í erlendri mynt. Hafi námsmaður t.d. aflað tekna í íslenskum krónum séu þær yfirfærðar í mynt námslands miðað við gengi gjaldmiðla 1. júní 2001. Grunnframfærsla sé jafnframt ákveðin í erlendri mynt, sbr. grein 3.1.2., og að jafnaði sé stuðst við mynt viðkomandi námslands en í einstaka tilvikum sé önnur mynt notuð, t.d. bandaríkjadollarar vegna náms í Rússlandi. Ekki skipti máli hvort skólagjaldaláni kæranda sé haldið til haga í mynt námslands eða íslenskum krónum. Hann hafi í báðum tilvikum fullnýtt svigrúm sitt til skólagjaldalána skólaárið 2001-2002 sem samkvæmt grein 4.8. sé 19.062 bresk pund eða 2,8 milljónir króna. Það sem skipti máli sé hvenær og á hvaða gengi einstakar lánsupphæðir séu yfirfærðar milli gjaldmiðla. Samkvæmt 4. mgr. greinar 4.8. eigi yfirfærslan að eiga sér stað miðað við gengi gjaldmiðla 1. júní 2001. Sama dagsetning sé tilgreind í grein 5.2.2. en einnig í greinum 3.3.1., 4.12.2. og 5.7.1. þar sem fjallað sé um útreikning vegna tekna, ferðalána og ofreiknaðra lána. Að því gefnu að lán til námsmanna erlendis séu reiknuð út í erlendri mynt og umreikningur milli gjaldmiðla nauðsynlegur sé ljóst að dagsetningar til ákvörðunar gengi skipti máli, sérstaklega þegar óvissa ríki. Fara mætti margar leiðir en engin önnur sé í samræmi við reglur LÍN. 

Um ástæðu þess að farið var að tilgreina hámarksfjárhæð skólagjaldalána í grein 4.8. úthlutunarreglnanna í íslenskum krónum í stað bandaríkjadollara kveður stjórn LÍN að það hafi verið talið rétt að tilgreina allar fjárhæðir með sama hætti, þ.e. í íslenskum krónum, þar sem síðata áratuginn hafi sífellt fleiri lán verið reiknuð í íslenskum krónum. Áður hefði hins vegar meira en helmingur lánanna verið reiknaður út í bandaríkjadollurum og því ekki verið talið óeðlilegt að miða við þann gjaldmiðil.

 

Niðurstaða

 

Kærandi gerir kröfu í tveimur liðum, annars vegar kærir hann þak á skólagjaldalánum til námsmanna en hins vegar kærir hann þá vinnureglu LÍN að gera námsmönnum að bera tvöfalt gengistap þegar um skólagjöld er að ræða. 

Hámark skólagjaldalána er skýrt tilgreint í 4. mgr. greinar 4.8. í úthlutunarreglum LÍN. Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er sjóðnum falið að setja nánari ákvæði um úthlutun námslána og verður ekki séð að önnur ákvæði laga og reglna um sjóðinn komi í veg fyrir að slíkt hámark lánsfjárhæðar. Verður því ekki fallist á þennan kröfulið stefnanda. 

Reglu 4. mgr. greinar 4.8. í úthlutunarreglum LÍN um hámark skólagjaldalána var breytt fyrir tímabilið 1999-2000 og var hámarkið eftir það tilgreint í íslenskum krónum eða jafngildi í annarri mynt miðað við gengi ákveðinn dag. Áður hafði hámarkið verið tilgreint í bandaríkjadölum eða jafngildi í annarri mynt miðað við gengi ákveðinn dag. Ágreiningur milli aðila í máli þessu snýst fyrst og fremst um það hvort LÍN eigi að reikna gengismun á lán veitt á fyrri árum þegar tekin er ákvörðun um lán vegna skólagjalda næsta tímabils. Þegar námsmaður hefur nokkur ár að baki á skólagjaldalánum erlendis gæti slíkur afturvirkt reiknaður gengismunur ýmist eytt möguleika hans á frekari lánum þegar gengi myntar í námslandinu hækkar gagnvart íslenskri krónu eða þá aukið lánsmöguleika hans verulega, þegar gengi myntar í námslandinu lækkar gagnvart íslenskri krónu. 

Horfa verður til þess að lán til skólagjalda er veitt fyrir eitt námstímabil í senn sem iðulega spannar eitt ár. Grunnfjárhæð þess í íslenskum krónum er síðan fastsett fyrir það tímabil. Ekki er að finna skýrt ákvæði í úthlutunarreglum LÍN sem rennir stoðum undir það að námsmaður megi vænta þess að sú grunnfjárhæð breytist afturvirkt eftir því hvernig gengi íslensku krónunnar hefur þróast gagnvart gengi myntar þess lands þar sem hann stundaði nám. 

Samkvæmt grein 5.2.2. í úthlutunarreglum LÍN er miðað við ákveðinn dag hvert ár þar sem tekjur og styrkir eru umreiknaðir í mynt námslands. Í þeirri grein kemur jafnframt fram að þegar lán eða hlutar þess koma til útborgunar er því breytt í íslenskar krónur. Ef ekki ætti að vera um að ræða endanlegan útreikning í íslenskum krónum og endanlegt viðmiðunargengi við mynt námslandsins þegar sá útreikningur fer fram, þyrfti slík undantekningarregla að vera mjög skýrt orðuð. 

Með hliðsjón af framanrituðu verður að telja að aðferð LÍN við uppsöfnun skólagjaldalána til námsmanna erlendis eigi sér ekki skýra stoð í úthlutunarreglum sjóðsins. Í slíkum tilvikum getur stjórn LÍN ekki túlkað reglurnar með þeim hætti sem leiðir til ósanngjarnrar og íþyngjandi niðurstöðu fyrir lánþega. Að þessu virtu verður að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 3. desember 2001 er felldur úr gildi.

Til baka