Úrskurður
Ár 2002, fimmtudaginn 1. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-9/2002.
Kæruefni
Með ódagsettri kæru sem barst málsskotsnefndinni þann
23.04.2002, kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 18. janúar 2002 í málinu nr.
I-07/02 þar sem stjórnin hafnaði beiðni kæranda um frestun á afborgun af
námsláni 1. mars 2002.
Með bréfi málskotsnefndar dags. 24. apríl sl. var
stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Umsögn
stjórnar LÍN er dags. 7. maí sl. Kæranda var með bréfi dags. 8. maí sl. gefinn
14 daga frestur til að tjá sig um umsögn stjórnar LÍN.
Engar frekari
athugasemdir hafa borist frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Með bréfi dags. 5. desember 2001 var óskað eftir frestun á
afborgun kæranda af námsláni þann 1. mars 2002. Var beiðnin sett fram af
svokölluðum tilsjónarmanni kæranda og eiginkonu hans, en þau höfðu notið
fjárhagslegar aðstoðar ýmissra velunnara við að koma fjármálum sínum í lag eftir
fjárhagsleg áföll, sem ekki eru frekar rakin í beiðninni.
Með samningum
og greiðsludreyfingu fyrir milligöngu greiðsluþjónustu Búnaðarbankans hafði
tekist að koma greiðslubirgði þeirra í viðunandi horf.
Beiðnin um
frestun afborgunar af námsláni þann 1. mars sl. var sett fram sem liður í
þessari fjárhagslegu endurskipulagningu kæranda og eiginkonu hans.
Stjórn LÍN vísar til þess að samkv. 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um
LÍN sé ekki veitt undanþága frá árlegri endurgreiðslu ef lánþega reiknist
tekjutengd afborgun. Þó sé heimilt samkv. 9. gr. reglugerðarinnar að taka tillit
til þess ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára
t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna
ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins miði
jafnframt við að fjárhagsörðugleikar lánþega hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði
fyrir gjalddaga.
Stjórnin bendir á að tekjur kæranda á árinu 2000 hafi
verið kr. 1.967.488 og hafi kæranda því reiknast tekjutengd afborgun árið 2001
og að tekjur kæranda á árinu 2001 séu svipaðar samkv. fyrirliggjandi upplýsingum
og væntanlega verði tekjur 2002 hærri og þar af leiðandi komi 10. gr.
reglugerðarinnar ekki til álita.
Þá bendir stjórnin á að kærandi sé í
fullri vinnu og engar skyndilegar og verulegar breytingar hafi orðið á högum
hans sem jafna megi við alvarleg veikindi eða slys er skert hafi möguleika hans
til að afla tekna. Þar af leiðandi uppfylli hann heldur ekki skilyrði 9. greinar
reglugerðarinnar.
Niðurstaða
Heimild stjórnar LÍN til að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána er að finna í 8. gr. laga nr. 21/1992 og 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997. Þá eru reglur um sama að finna í kafla 7.4. í úthlutunarreglum LÍN. Fallist er á það með stjórn LÍN að forsenda þess að unnt sé að veita lánþega undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum sé sú að möguleikar lántakanda til öflunar tekna séu skertir vegna lánshæfs náms, atvinnuleysis, veikinda, þungunar, ummönnunar barna eða sambærilegra ástæðna. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að skert greiðslugeta hans sé til komin vegna slíkra eða sambærilegra aðstæðna. Af þessum sökum er niðurstaða stjórnar LÍN staðfest.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 18. janúar 2002 í máli nr. I-07/02er staðfestur.