Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-10/2002 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2002, fimmtudaginn 1. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-10/2002.

Kæruefni

Með bréfi dags. 20. maí 2002, sem barst málskotsnefnd þann 25. maí 2002, kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 8. maí 2002 í málinu nr. I-56/02, þar sem hafnað var kröfu kæranda um undanþágu frá greiðslu afborgunar af námslánum vegna fjárhagsörðugleika. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 29. maí 2002 þar sem stjórninni var gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Athugasemdir stjórnarinnar bárust nefndinni með bréfi dags. 5. júní 2002. Kæranda voru sendar athugasemdir stjórnar LÍN með bréfi dags. 12. júní 2002, þar sem kæranda var gefinn kostur á að tjá sig frekar um málið. Engin frekari gögn eða sjónarmið hafa borist frá kæranda í máli þessu.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hefur frá haustinu 2000 búið á Fjóni í Danmörku ásamt hollenskum eiginmanni sínum sem stundar laganám þar. Kærandi fékk ekki vinnu fyrr en í lok febrúar 2001 og þá einungis hlutastarf. Kærandi, sem hefur háskólapróf í bókasafns- og upplýsingafræðum frá Háskóla Íslands, kveður aðstæður á Fjóni þær að erfitt sé að fá þar vinnu við hennar hæfi. Hún kveður sig og eiginmann sinn lifa á þeim tekjum sem hún hafi fyrir hlutastarf sitt og bankaláni frá Den Danske Bank. Að auki kveðst hún í ágúst 2002 eiga von á sínu fyrsta barni. Af þessum ástæðum óskaði kærandi eftir undanþágu frá fastri afborgun námslána með gjalddaga 1. mars 2002 vegna fjárhagsörðugleika sem stafa af lágum tekjum.

Af hálfu stjórnar LÍN var beiðni kæranda hafnað með vísan til 8. gr. laga nr. 21/1992, 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 og gr. 7.4.1. og 7.4.2. í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2001-2002. Stjórn LÍN bendir á að forsenda þess að heimilt sé að veita undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum sé að möguleikar lántakanda til öflunar tekna séu skertir vegna lánshæfs náms, atvinnuleysis, veikinda, þungunar, umönnunar barna eða sambærilegra ástæðna. Stjórnin telur að kærandi hafi ekki sýnt fram á fjárhagsörðugleika og skerta möguleika til tekjuöflunar af framangreindum ástæðum.

Niðurstaða

Heimild stjórnar LÍN til að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána er að finna í 8. gr. laga nr. 21/1992 og 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997. Þá eru reglur um sama að finna í kafla 7.4. í úthlutunarreglum LÍN. Fallist er á það með stjórn LÍN að forsenda þess að unnt sé að veita lánþega undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum sé sú að möguleikar lántakanda til öflunar tekna séu skertir vegna lánshæfs náms, atvinnuleysis, veikinda, þungunar, ummönnunar barna eða sambærilegra ástæðna. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að skert greiðslugeta hennar sé til komin vegna slíkra eða sambærilegra aðstæðna. Af þessum sökum er niðurstaða stjórnar LÍN staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 8. maí 2002 í málinu nr. I-56/02 er staðfestur.

Til baka