Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-11/2002 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um niðurfellingu á heildarskuld

Úrskurður

 

Ár 2002, fimmtudaginn 1. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-11/2002.

Kæruefni

 

Með bréfi dags. 9. maí 2002, kærði lögmaður, f.h. kæranda, úrskurð stjórnar LÍN frá 12. apríl 2002 í málinu nr. I-50/02, þar sem kröfu kæranda um niðurfellingu á heildarskuldum hans við LÍN var hafnað.

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 31. maí sl. tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust málskotsnefndinni með bréfi dags. 12. júní 2002, sem lögmanni kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um með bréfi dags. 18. júní 2002. Bréf lögmanns kæranda með frekari skýringum og sjónarmiðum dags. 21. júní 2002 barst nefndinni þann 28. júní 2002.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi krefst þess að skuldir hans við LÍN verði að öllu leyti felldar niður vegna þess að hann býr við fulla örorku og enga starfsgetu eftir slys sem hann varð fyrir. Afleiðingar slyssins eru þær að hægri hendi hans hefur verið fjarlægð fyrir neðan olnboga og vinstri hendi er lömuð. Samkvæmt staðfestingu læknis mun kærandi aldrei komast til starfa að nýju. Kærandi er í óvígðri sambúð og hefur á framfæri fjögur börn á aldrinum 3-7 ára. Í kæru sinni til málskotsnefndarinnar gerir kærandi þá varakröfu að kæranda verði veitt til næstu 10 ára eða skemur undanþága frá árlegri endurgreiðslu vegna þeirrar örorku og erfiðu fjárhagsaðstæðna sem hann nú býr við. Kærandi heldur því fram að stjórn LÍN hefði borið að upplýsa kæranda og ábyrgðarmenn betur um möguleika þeirra á greiðslufresti skv. lögum.

Af hálfu stjórnar LÍN er á því byggt að ekki sé heimilt skv. 8. og 9. gr. laga nr. 21/1992 að fella niður skuldir með þeim hætti sem krafist er af hálfu kæranda. Þá er þess krafist af hálfu stjórnar LÍN að varakröfu kæranda verði vísað frá. Stjórn LÍN kveður kæranda hafa fengið námslán á árunum 1983-1992 vegna náms í Bandaríkjunum og Englandi. Fyrsta afborgun af námsláni hans hafi verið með gjalddaga 1. mars 1995. Sú afborgun sé í vanskilum sem og allar afborganir eftir það. Skuld kæranda hafi verið send í lögmannsinnheimtu í febrúar 1996. Hvorki sjóðnum né lögmönnum, sem annast innheimtuna, hafi borist staðfestar upplýsingar um tekjur kæranda eftir að hann átti að hefja afborgun af námsláni sínu.

Niðurstaða

 

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 og 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 eru ákvæði er heimila stjórn LÍN að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána. Reglur um sama er að finna í kafla 7.4. í úthlutunarreglum LÍN. Í nefndum ákvæðum laga, reglugerða og úthlutunarreglna er ekki að finna heimild til stjórnar LÍN til að fella niður heildarskuldir lántaka með þeim hætti sem krafist er af kæranda í máli þessu. Úrræði kæranda eru bundin við þær heimildir sem fjallað er um í framangreindum ákvæðum. Af þessum sökum er úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.

Varakrafa kæranda hefur ekki verið úrskurðuð af stjórn LÍN og er henni því vísað frá málskotsnefndinni með vísan til 2. mgr. 5. gr. a. laga nr. 21/1992.

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 12. apríl 2002 í málinu nr. I-50/02 er staðfestur.

Til baka