Úrskurður
Ár 2002, fimmtudaginn 19. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmann upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-12/2002.
Kæruefni
Með kæru dags. 4. júní 2002, sem barst málskotsnefnd 10. júlí
sl., kærði kærandi, úrskurð stjórnar LÍN frá 12. apríl sl. Í málinu nr. I-43/02
þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá endurgreiðslum námslána árin
2000-2002 sem og frá endurgreiðslum ofgreidds námsláns.
Með bréfi dags.
10. júlí sl. Var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um
hana. Gögn bárust frá stjórn LÍN með brefi dags. 17. júlí sl. En þar var
jafnframt óskað eftir fresti til að skila umsögn um málið. Umsögnin er dagsett
8. ágúst sl. en barst nefndinni 14. sama mánaðar og var kæranda þá send umsögnin
auk gagna. Kærandi ritaði málskotsnefnd bréf dags. 28. ágúst sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hefur stundað doktorsnám í Bandaríkjunum frá 1996 og
fékk fullt námslán fram að hausti 1997. Hún sótti um lán vegna námsins skólaárið
1997-1998 og fékk fyrirframgreitt skólagjaldalán 9. september 1997. Af hálfu LÍN
var talið að kærandi hefði ekki látið sjóðnum í té upplýsingar vegna námsins á
þessu skólaári þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Því var þann 7. desember 1998
gefið út svo kallað ofgreiðsluskuldabréf að fjárhæð kr. 213.964 vegna
skólagjaldalánsins frá 9. september 1997 og kæranda gefinn kostur á að samþykkja
bréfið eða koma skuldinni í skil með öðrum hætti. Beiðni um greiðslu
skuldarinnar var ítrekuð 6. apríl 1999. Kærandi óskaði eftir niðurfellingu
ofgreiðsluskuldarinnar en því erindi var synjað með bréfum dagsettum 19. og 27.
júlí 1999. Ofgreiðsluskuldin var send til innheimtu hjá lögmönnum en í bréfi
dags. 15. febrúar sl. óskaði kærandi eftir því við lánasjóðinn að hann veitti
henni frestun á afborgun og afturkallaði lögfræðiinnheimtuna. Því erindi var
synjað með bréfi LÍN dags. 20. febrúar sl. Þann 10. mars sl. óskaði kærandi
eftir undanþágu frá greiðslu námslána vegna fjárhagsörðugleika en því hafnaði
LÍN með úrskurði dags. 12. apríl sl.
Kærandi byggir kröfu sína á því að
hún hafi átt við fjárhagsörðugleika að stríða. Þá mótmælir kærandi því að hún
hafi fengið ofgreitt lán. Hún hafi fengið lán á síðustu önn í doktorsnámi árið
1997 enda hafi hún stundað fullt nám á önninni og því ekkert fengið ofgreitt frá
lánasjóðnum. Hún hafi að lokum sent sjóðnum viðurkenningu skólans, Faculty Kam
Evaluation Form, á því að hún hefði lokið verkefni ársins sem gaf 15 einingar.
Lánasjóðurinn hafi hingað til tekið slík vottorð gild og sú ákvörðun sjóðsins að
telja slíkt vottorð ekki nægjanlegt sé því breyting á fyrri framkvæmd.
Stjórn LÍN bendir á að námslok kæranda hafi verið ákvörðuð 31. ágúst
1997 og henni síðan tilkynnt um frágang skuldabréfs vegna láns í doktorsnáminu.
Hún hefi ekki gert athugasemdir við þá niðurstöðu og hafi hún átt að hefja
endurgreiðslu lánsins 1. mars 2000. Með bréfi dags. 31. mars 2000 hafi hún óskað
eftir undanþágu frá afborguninni en verið synjað með bréfi dags. 18. apríl 2000
og úrskurði dags. 1. júní 2000. Kærandi hafi óskað aftur eftir undanþágu 27.
september 2000 og hafi verið ákveðið að veita henni undanþágu frá tekjutengdri
afborgun ársins 2000 með úrskurði stjórnar 20. október 2000 en með vísan til
fyrri úrskurðar var henni synjað um undanþágu föstu afborgunarinnar 1. mars
2000. Kærandi hafi ekki haft samband við sjóðinn aftur og hafi skuldin samkvæmt
síðastnefndu afborguninni farið í innheimtu til lögmanna 25. janúar 2001.
Kærandi hafi næst haft samband við sjóðinn 15. febrúar 2002 og óskaði þá
eftir undanþágu vegna vanskila sinna. Hafi henni í bréfi dags. 20. febrúar sl.
verið bent á að kærufrestur vegna afborgunarinnar 1. mars 2000 væri liðinn og að
afborgun 1. mars 2001 hefði einnig verið send til innheimtu hjá lögmönnum og
erindi hennar því verið synjað.
Kærandi hafi ítrekað undanþágubeiðni
sína 10. mars 2002 og þá jafnframt sótt um undanþágu vegna afborgunar ársins
2002. Í hinum kærða úrskurði hafi verð ítrekað að ekki væri unnt að verða við
undanþágubeiðninni vegna afborgunar 1. mars 2002 en jafnframt hafi komið fram að
stjórn LÍN væri tilbúin í ljósi aðstæðna kæranda að taka til athugunar að veita
henni undaþágu frá afborgun áranna 2001 og 2002 yrði leyst úr öðrum vanskilum
hennar.
Niðurstaða stjórnar LÍN var því sú að engin heimild væri til að
veita undanþágu frá endurgreiðslu ofgreidds námsláns og að kærandi uppfyllti
ekki þau skilurði fyrir undaþágu frá afborgun skv. 8. gr. laga nr. 21/1992 og í
9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997.
Niðurstaða
Eins og lýst er hér að framan taldi LÍN vottorð kæranda um
námsárangur vegna námsláns fyrir nármsárið 1997-1998 ekki fullnægjandi og óskaði
eftir því að hún legði fram frekari gögn. Í bréfi dags. 29. júlí 1999 er nánar
tilgreint hvernig gagna kærandi átti að afla. Engin frekari gögn bárust frá
kæranda. Afgreiðsla LÍN á máli kæranda vegna ofgreiðsluskuldabréfsins verður því
talin hafa verið í samræmi við ákvæði laga og reglna um sjóðinn.
Stjórn
LÍN byggir auk þessa á því að kærandi hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett
eru í 8. gr. laga nr. 21/1992 og í 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um
undanþágu frá endurgreiðslu námsláns. Ekki verður séð að gögn hafi verið lögð
fram í málinu um hagi kæranda og enginn frekari rökstuðningur er færður fyrir
niðurstöðunni. Ekki verður því séð að málið hafi verið að fullu rannsakað að því
er þetta varðar og verður því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 12. apríl 2002 í máli nr. I-43/02 er felldur úr gildi.