Úrskurður
Ár 2002, fimmtudaginn 25. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-13/2002.
Kæruefni
Með bréfi dags. 23. júlí 2002 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN í máli hans frá 4. júlí 2002 þar sem stjórnin samþykkti að hann ætti rétt á
undanþágu frá endurgreiðslu ársins 1999 með því skilyrði að hann kæmi námsláni
sínu í skil og sendi sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur á árunum 2000 og
2001 fyrir 1. september sl. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna og koma
athugasemdir stjórnarinnar fram í bréfi dags. 8. ágúst sl. Með bréfi dags. 26.
ágúst sl. óskaði málskotsnefnd eftir því að stjórn LÍN gerði frekari grein fyrir
niðurstöðu sinni og var kæranda sent afrit bréfsins með bréfi dags. sama dag.
Svarbréf stjórnarinnar er dags. 6. september sl.
Mál þetta hefur þrisvar
áður komið til kasta málskotsnefndar. Upphaflega staðfesti málskotsnefnd
niðurstöðu LÍN frá 25. nóvember 1999 með úrskurði 19. janúar 2000. Kærandi
leitaði álits Umboðsmanns Alþingis og óskaði kærandi í framhaldi af því eftir
endurupptöku málsins hjá málskotsnefnd. Var það gert og í úrskurði dagsettum 14.
febrúar sl. felldi málskotsnefnd úrskurð stjórnar LÍN úr gildi á þeim forsendum
að málskotsnefnd hefði aflað gagna sem lágu ekki fyrir þegar stjórn LÍN komst að
niðurstöðu en það hefði verið nauðsynlegt við framkvæmd skyldubundins mats
stjórnarinnar.
Stjórn LÍN úrskurðaði í málinu 1. mars 2002 og staðfesti
fyrri niðurstöðu frá 25. nóvember 1999. Kærandi kærði úrskurðinn til
málskotsnefndar og gekk úrskurður málskotsnefndar 11. júní sl. þar sem úrskurður
stjórnar LÍN var felldur úr gildi og lagt fyrir stjórnina að meta beiðni kæranda
að nýju með hliðsjón af aðstæðum hans á því tímamarki þegar beiðni hans var til
meðferðar. Í úrskurði frá 4. júlí 2002 samþykkti stjórn LÍN að kærandi ætti rétt
á undanþágu frá endurgreiðslu ársins 1999 með því skilyrði að hann kæmi námsláni
sínu í skil og sendi sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur á árunum 2000 og
2001 fyrir 1. september sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi býr í Danmörku og er gullsmiður að mennt. Hann sótti um
undanþágu frá afborgun námslána vegna breytinga sem urðu á högum hans vegna
mænusiggssjúkdóms sem veldur því að hann getur ekki sinnt starfi sínu. Kærandi
kveður sjúkdóminn vera lömunarsjúkdóm sem endi með því að sjúklingurinn verði
bundinn hjólastól. Kærandi kveðst vera á hæstu sjúkrabótum vegna sjúkdómsins en
skattar séu háir í Danmörku og því hafi hann úr litlu að spila. Á árinu 1999
hafi hann fengið endanlega sjúkdómsgreiningu og hann skilið við konu sína. Þá
hafi hann ekki unnið neitt frá því í júlí 1998.
Eftir endurupptöku máls
kæranda 12. september 2001 í kjölfar niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis sendi
kærandi málskotsnefndinni upplýsingar um tekjur hans skv. årsopgörelse 1999 og
2000 auk gagna um kostnað vegna lyfja eins mánaðar og frádrátt á bótagreiðslum
hans.
Til stuðnings kröfu sinni hefur kærandi í málarekstri sínum fyrir
nefndinni vísað til ákvæða 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 þar sem kveðið er á
um að heimilt sé að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða öllu
leyti ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef
hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé
hans og möguleika til að afla tekna. Hann vísar jafnframt til þess að meta beri
félagslegar aðstæður hans þar sem hann hafi gengið í gegnum erfiðan hjónaskilnað
1997 til 1999. Kærandi krefst þess að öll læknisvottorð verði að fullu virt.
Stjórn LÍN hefur eins og kærandi vísað til 8. gr. laganna um LÍN, sbr.
lög nr. 67/1997. Þá bendir stjórnin á ákvæði 9. gr. reglugerðar um LÍN nr.
602/1997 en þar segi:
"Nú gefur útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári
ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluári, vegna skyndilegra og
verulegra breytinga sem hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist
alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og
möguleika til að afla tekna. Ef lánþegi gerir skriflega grein fyrir þessum
breyttu högum sínum og styður hana tilkildum gögnum, er sjóðsstjórn heimilt að
veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar
á greiðslum eftir atvikum."
Stjórn LÍN vísar til þess að í ákvæðum
laganna og reglugerðarinnar sé það ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir veitingu
undanþágu að tilteknar ástæður valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega
eða fjölskyldu hans. Bent er á að kærandi hafi verið í vanskilum með afborganir
námslána sinna frá hausti 1997. Samkvæmt innsendum gögnum hafi hann misst
atvinnu sína um miðjan ágúst 1998 og hafi verið án atvinnu síðan. Tekjur kæranda
hafi verið það háar að honum hafi reiknast tekjutengd afborgun árin 1997 og
1998.
Stjórn LÍN kveður niðurstöðu hennar hafa orðið þá eftir úrskurð
málskotsnefndar 11. júní sl. að endurmeta fyrri afgreiðslu og fallast á þá
forsendu fyrir undanþágu , sbr. 8. gr. laga um LÍN, að á árinu 2000 hefðu orðið
skyndilegar og verulegar breytingar á högum kæranda og möguleikum hans til að
afla tekna. Hefði þetta orðið niðurstaðan þrátt fyrir að hann hefði verið
kominní veruleg vanskil við sjóðinn fyrir árið 1999 og að tekjur hans hafi allan
tímann verið yfir þeim viðmiðunarmörkum sem almennt hafi verið miðað við í
undanþágutilvikum sem þessum.
Þá komst stjórnin jafnframt að þeirri
niðurstöðu að samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN bæri að taka afstöðu
til undanþágu frá árlegri endurgreiðslu á grundvelli aðstæðna skuldara, sem
tilgreindar eru í ákvæðinu og þá eðli máls samkvæmt með tilliti til afborgana
eins árs í senn eða hvers árs fyrir sig. Stjórnin veitti kæranda undanþágu frá
endurgreiðslu ársins 1999 vegna breytinga á högum hans á því ári en ekki frá
endurgreiðslu áranna 1997 og 1998 þar sem hvorugt árið hefði hann uppfyllt
skilyrði framangreindrar 6. mgr. 8. gr. laganna og vanskil hans hefðu ekki haft
með aðstæður hans á árinu 1999 að gera.
Niðurstaða
Ákvæði 8. gr. laga nr. 21/1992 sbr. lög nr. 67/1997 og 9. gr.
reglugerðar nr. 602/1997 veita stjórn LÍN heimild til að veita undanþágu frá
árlegri endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum eftir
atvikum, ef nánar tilgreindar ástæður eru fyrir hendi.
Í fyrri úrskurðum
málskotsnefndar er rakið að fram hafa komið hjá nefndinni gögn um fjárhagslegar
aðstæður kæranda þar sem fram kemur að hagur hans hafi frekar farið versnandi og
hann haft útgjöld af lyfjakaupum. Við mat á því hvort veita skuli kæranda
umbeðna undanþágu verður að líta til þess hvernig aðstæður hans voru á þeim tíma
þegar beiðnin var sett fram og hvort sjúkdómurinn hafði áhrif á
ráðstöfunartekjur hans og aðrar aðstæður.
Stjórn LÍN komst í úrskurði
sínum frá 4. júlí sl. að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti rétt á undanþágu frá
endurgreiðslu ársins 1999 vegna skyndilegra og verulegra breytinga á högum hans
milli áranna 1998 og 1999. Hins vegar var undanþágubeiðni vegna endurgreiðslu
áranna 1997 og 1998 hafnað með þeim rökstuðningi að hvorugt árið hefði hann
uppfyllt skilyrði laganna og að vanskil hans þessi ár hefðu ekkert haft með
aðstæður hans á árinu 1999 að gera. Ekki verður séð hvernig sömu aðstæður vegna
veikinda kæranda geta haft önnur áhrif á greiðslugetu hans vegna endurgreiðslu
annars vegar vegna áranna 1997 og 1998 og hins vegar vegna ársins 1999. Hafa
ekki verið leidd önnur nægileg rök að niðurstöðu stjórnarinnar. Niðurstaða
málskotsnefndar er því sú að breyta verði hinum kærða úrskurði og leggja fyrir
stjórn LÍN að veita kæranda undanþágu frá endurgreiðslu námslána áranna 1997,
1998 og 1999 með þeim rökum sem stjórnin hefur þegar fallist á.
Úrskurðarorð
Úrskurði stjórnar LÍN frá 4. júlí 2002 er breytt á þann veg að kæranda er veitt undanþága frá endurgreiðslu námslána áranna 1997, 1998 og 1999.