Úrskurður
Ár 2002, fimmtudaginn 14. nóvember, var í málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í málinu nr. L-16/2002.
Kæruefni
Með bréfi dags. 3. september 2002, sem barst málskotsnefndinni
þann 18. september 2002, kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN í málinu nr.
L-262/02, frá 15. ágúst 2002, þar sem hafnað var kröfu kæranda um að breyta
námslokum kæranda, sem skráðu eru við lok vormisseris 2000, þ.e. 30. júní 2000.
Stjórn LÍN var með bréfi dags. 18. september 2002 tilkynnt um kæruna og
gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum vegna hennar. Bréf stjórnar LÍN dags. 27.
september 2002 barst málskotsnefnd sama dag þar sem stjórnin gerði grein fyrir
sjónarmiðum sínum í málinu. Kæranda var með bréfi dags. 3. október 2002 gefinn
kostur á að tjá sig um nefnt bréf stjórnar LÍN, en engin svör hafa borist frá
kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi kveðst hafa hafið 1. árs grunnnám hausið 1999 og skilað
inn ástundunarvottorði og fengið úthlutað námsláni fyrir þá önn. Þá kveðst
kærandi hafa haldið áfram náminu fram að vori 2000, en þar sem hún hafi ekki náð
öllum prófunum hafi hún ekki fengið úthlutað láni fyrir þá önn. Vegna þessa
kveðst kærandi hafa verið orðin skuldug viðskiptabanka sínum vegna fyrirgreiðslu
sem hún fékk á vorönn 2000, auk þess sem henni var gert að endurgreiða hluta af
því láni sem hún fékk á hausthönn 1999. Vegna þessara skuldbindinga og sökum
þess að maður hennar var einnig í námi á þessum tíma kveðst kærandi hafa ákveðið
að taka sér árs frí frá námi, þ.e. frá lokum vorannar 2000. Þegar kemur fram á
árið 2001 er kærandi orðin ófrísk og eignast barn í september 2001. Af þessum
sökum ákvað hún að vera heima hjá barni sínu í tæpt ár, til viðbótar við áður
greint námshlé frá vori 2000. Kærandi kveðst síðan hafa hafið nám að nýju í
ágúst 2002, eftir að hafa verið heima í um 10 mánuði með barni sínu. Kærandi er
nú ófrísk aftur og er áætlað að hún eignist barnið í janúar 2003, en hún kveðst
allt að einu ætla að klára haustönn 2002 og væntir þess að skila fullnægjandi
námsárangri á önninni. Hún kveðst síðan ætla í barnseignarfrí frá janúar 2003
til ágúst 2003. Hún kveður mann sinn enn vera við nám.
Kærandi gerir
kröfu til þess að námslokum hennar verði frestað þrátt fyrir að hún hafi tekið
sér frí frá námi í meira en eitt ár frá vori 2000. Vísar kærandi í þessu
sambandi til greinar 2.3.2. í úthlutunarreglum LÍN, en þar segi m.a. að heimilt
sé að taka tillit til þess við mat á námsframvindu ef námsmaður eignist barn.
Stjórn LÍN lítur svo á að námslok kæranda hafi verið 30. júní 2000.
Stjórnin bendir á að skólaárið 2001-2002 hafi kærandi verið lengur en eitt ár
frá lánshæfu námi og hafi þá hvorki verið skráð í nám né sótt um námslán hjá
LÍN. Ákvæði gr. 2.3.2. í úthlutunarreglum sjóðsins eigi því ekki við. Aukið
svigrúm skv. þeirri grein komi aðeins til álita þegar námsmaður sé í námi og
eigi inni lánsumsókn hjá sjóðnum. Stjórn LÍN bendir á að skv. gr. 2.5.1. í
úthlutunarreglunum sé litið á nám að loknu námshléi sem er lengra en eitt
skólaár sem nýtt nám. Kærandi hafi verið lengur frá námi en það, auk þess sem
nám það sem kærandi sækir um lán til hausið 2002 sé annað en það sem hún
stundaði skólaárið 1999-2000.
Niðurstaða
Í gr. 2.5.1. í úthlutunareglum LÍN kemur skýrt fram að hefji
námsmaður nám að nýju eftir meira en eins árs hlé sé litið svo á að um nýtt nám
sé að ræða. Skiptir í því engu af hvaða orsökum hlé er tekið frá námi. Fyrir
liggur að kærandi var í leyfi frá námi frá 30. júní 2000 til hausts 2002 og því
ber að líta svo á að um nýtt nám hafi verið að ræða þegar hún hóf nám að nýju á
hausthönn 2002. Fallist er á það með stjórn LÍN að gr. 2.3.2. í úthlutunarreglum
LÍN eigi einungis við um námsmenn sem séu í námi og á einhvern hátt tengdir
námslánakerfinu, sem kærandi var ekki á þeim tíma sem hún var frá námi. Af
þessum sökum getur kærandi í máli þessu ekki byggt rétt sinn á ákvæðum
greinarinnar.
Með vísan til þess sem að framan greinir er niðurstaða
stjórnar LÍN í hinum kærða úrskurði staðfest.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. ágúst 2002 í málinu nr. L-262/02 er staðfestur.