Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-18/2002 - Umsóknarfrestur og útborgun - námsárangur barst of seint

Úrskurður

 

Ár, 2002, fimmtudaginn 14. nóvember var í málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í málinu nr. L-18/2002.

 

Kæruefni

 

Með kæru er barst málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna dags. 20. september 2002, kærði kærandi, úrskurð stjórnar LÍN í málinu nr. L-162/02, frá 15. ágúst 2002, þar sem kröfu kæranda um námslán vegna námsársins 2000-2001 var hafnað þar sem gögn vegna námslánaumsóknar kæranda bárust eftir að fresti í úthlutunarreglum LÍN lauk. 

Stjórn LÍN var með bréfi málskotsnefndar dags. 23. september 2002 tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN dags. 27. september 2002 barst málskotsnefndinni sama dag. Kæranda var með bréfi dags. 3. október 2002 gefinn kostur á að tjá sig um framangreint bréf stjórnar LÍN, en engin frekari sjónarmið eða svör hafa borist frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði nám í Háskóla Íslands frá hausti 1999. Hún fékk afgreitt lán vegna skólaársins 1999-2000 og vegna haustannar 2000. Í janúar 2001 hóf hún nám sem skiptinemi í Bandaríkjunum. Kærandi var eftir sem áður skráð nemandi við HÍ. LÍN bárust engar upplýsingar um námsárangur kæranda vegna vorannar 2001 og var henni tilkynnt í lok maí 2001 að ekki væri hægt að veita henni lán vegna vorannarinnar. Kærandi sótti um lán vegna skólaársins 2001-2002 í júní 2001, en skilaði engum frekari upplýsingum til LÍN það sem eftir lifði ársins 2001. Í janúar 2002 var kæranda tilkynnt að ekki væri hægt að veita henni lán vegna haustsins 2001 þar sem hún hefði ekki skilað inn neinum upplýsingum um námsárangur. Í lok apríl 2002 lét kærandi LÍN í té upplýsingar um tekjur á árinu 2001 og fékk í framhaldinu lán vegna vorannar 2002. Henni var jafnframt, þrátt fyrir tilkynninguna í janúar 2002 gefinn kostur á að leggja fram gögn til að fá lán vegna haustannar 2001 afgreitt. Kæranda var á hinn bóginn synjað um afgreiðslu láns vegna námsársins 2000-2001 með vísan til gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN. 

Kærandi byggir á því að mistök í Umhverfis- og byggingafræðiskor HÍ hafi valdið því að upplýsingar um námsárangur hennar hafi ekki borist LÍN nægilega snemma. Þetta hafi valdið því að LÍN hafi hafnað umsókn hennar um námslán vegna námsársins 2000-2001. Kærandi telur að stjórn LÍN eigi að líta til þessa við afgreiðslu málsins og túlka reglur sjóðsins rúmt þar sem dráttur á innsendingu gagna hafi ekki verið hennar sök. Kærandi kveðst hafa afhent LÍN öll gögn um leið og hún fékk þau í hendur, en starfsmenn LÍN hafi ráðlagt henni að láta skorina í HÍ samþykkja öll gögn og senda þau beint til LÍN. Kærandi hefur lagt fram bréf Birgis Jónssonar, dósents, skorarformanns í Umhverfis- og byggingarverkfræðiskor HÍ dags. 14.05.02 þar sem fram kemur að mál kæranda hafi tafist óeðlilega hjá skorinni, jafnframt því sem bréfritari vonar að það komi ekki að sök við afgreiðslu málsins hjá LÍN. 

Stjórn LÍN bendir á að engin heimild sé til undanþágu frá ákvæði gr. 5.2.1. vegna mistaka þriðja aðila. Bent er á að kærandi hafi ekki brugðist við tilkynningum sjóðsins um ófullnægjandi námsárangur í maí 2001 og janúar 2002 og hafi ekki samband við sjóðinn á árinu 2002 fyrr en í lok april þegar allir frestir vegna afgreiðslu skólaársins 2000-2001 hafi verið löngu liðnir. Telur stjórn LÍN hinn kærða úrskurð vera í fullu samræmi við lög og reglur sjóðsins og gerir kröfu um að úrskurðurinn verði staðfestur.

 

Niðurstaða

 

Málskotsnefnd LÍN telur mikilvægt að allar reglur um fresti í úthlutunarreglum sjóðsins séu hlutlægar og skýrar. Í gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN 2000-2001 kemur fram að lánveitingum vegna námsársins 2000-2001 ljúki þann 1. febrúar 2002 og eftir það verði ekki afgreidd lán vegna námsársins. Fallist er á það með stjórn LÍN að framangreind grein úthlutunarreglnanna veiti enga undanþágu vegna mistaka þriðja aðila. Fyrir liggur að LÍN bárust ekki nauðsynlegar upplýsingar frá kæranda vegna umsóknar um námslán fyrir námsárið 2000-2001 fyrr en of seint miðað við framangreinda grein í úthlutunarreglunum. Af þessum sökum er hinn kærði úrskurður LÍN staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. ágúst 2002 í málinu nr. L-162/02 er staðfestur.

Til baka