Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-15/2002 - Námslengd - beiðni um undanþágu frá 5 ára reglu

Úrskurður

Ár 2002, föstudaginn 22. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-15/2002:

Kæruefni

Með bréfi dags. 11. september 2002, sem barst málskotsnefnd þann 17. september 2002, kærði kærandi, úrskurð stjórnar LÍN frá 9. september 2002 í málinu nr. L-215/02 þar sem stjórnin hafnaði beiðni kæranda um undanþágu frá reglum um hámarkssvigrúm.

Með bréfi málskotsnefndar dags. 18. september sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Umsögn stjórnar LÍN er dags. 27. september sl. Kæranda var með bréfi dags. 3. október sl. gefinn 14 daga frestur til að tjá sig um umsögn stjórnar LÍN. Athugasemdir kæranda bárust málskotsnefndinni með bréfi dags. 7. október sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði nám við Iðnskólann í Reykjavík og fékk námslán vegna skólaársins 1989-1990. Kærandi hóf aftur nám við sama skóla haustið 1998 og fékk námslán skólaárin 1998-1999 og 1999-2000. Á árinu 2000 hóf kærandi nám við Kennaraháskóla Íslands og fékk námslán skólaárin 2000-2001 og 2001-2002. Vorið 2002 hafði kærandi því fengið námslán í fimm ár og samanlögð lán hennar námu um 5,0 m.kr.

Kærandi fór þess á leit við stjórn LÍN að henni væri veitt undanþága frá gr. 2.4.2. í úthlutunarreglum LÍN. Máli sínu til stuðnings vísaði kærandi til þess að þegar hún fékk fyrst úthlutað námsláni frá LÍN á árinu 1989 hafi verið í gildi sjö ára regla í stað fimm ára reglunnar í gr. 2.4.2. í úthlutunarreglum LÍN en í greininni er kveðið á um að námsmaður geti að hámarki fengið lán í allt að fimm ár samanlagt.

Þá vísar kærandi til þess að fjárhagsstaða hennar sé mjög slæm, hún hafi gengið í gegnum skilnað og sé með tvö börn á framfæri og þar af leiðandi þurfi hún tilfinnanlega á námsláni að halda til að geta lokið námi sínu við Kennaraháskóla Íslands.

Stjórn LÍN vísar til þess að vorið 2002 hafi kærandi fengið námslán frá LÍN í fimm ár og samanlögð námlán hennar nemi 5,0 m.kr. Stjórnin bendir á að heimilt sé að veita undanþágu samkv. gr. 2.4.2. ef samanlögð fjárhæð fyrri lána námsmanns hjá sjóðnum nemi lægri fjárhæð en 2,1 m.kr. Þar sem kærandi hafi fengið lán samtals að fjárhæð kr. 5,0 m.kr. sé ekki hægt að veita henni umbeðna undanþágu.

Í rökstuðningi stjórnar LÍN kemur einnig fram að svokölluð fimm ára regla hafi síðan 1992-1993 náð til allra sem hefja nýtt nám eða hafa gert lengra en eins árs hlé á námi sínu. Reglan hafi því verið í gildi þegar kærandi hóf nám haustið 1998 eftir hlé frá námi frá 1990.

Niðurstaða

Í gr. 2.4.2. í úthlutunarreglum LÍN segir að að uppfylltum skilyrðum um námsframvindu geti námsmaður að hámarki fengið lán í allt að fimm ár samanlagt. Þó sé heimilt að veita námsmanni undanþágu frá þessu hámarki og veita honum lán í eitt ár til viðbótar ef samnlögð fyrri námslán hans hjá sjóðnum nema lægri fjárhæð en 2,1 m.kr.

Fallist er á það með stjórn LÍN að ekki séu forsendur til að veita kæranda undanþágu frá gr. 2.4.2. í úthlutunarreglum LÍN um hámarkssvigrúm þar sem kærandi uppfyllir ekki ofangreind skilyrði og er niðurstaða stjórnar LÍN því staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 9. september 2002 í máli nr. L-215/02 er staðfestur.

Til baka