Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-17/2002 - Útreikningur námslána - frítekjumark

 Úrskurður

 

Ár 2002, fimmtudaginn 28. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-17/2002.

 

Kæruefni

 

Með bréfi dags. 6. september 2002 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN í máli nr. L-194/02 frá 5. júlí sl. þar sem stjórnin hafnaði erindi kæranda um að við lánsútreikning til hans yrði tekið tillit til forsendna sem giltu þegar hann hóf námshlé í janúar sl. og frítekjumark við lánsútreikning þrefaldað en ekki tvöfaldað, sbr. breytingar sem gerðar voru á grein 3.3.2. fyrr á þessu ári. 

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 18. september sl. og gerði hún athugasemdir við kröfuna í bréfi dags. 27. september sl. og fylgdu bréfinu gögn þau sem lágu fyrir hjá sjóðnum þegar ákvörðun stjórnar lá fyrir. Með bréfi dags. 3. október sl. var kæranda gefinn fjórtán daga frestur til að koma frekari sjónarmiðum á framfæri. Kærandi ítrekaði framkomin sjónarmið sín í bréfi dags. 10. október sl. 

Með bréfi málskotsnefndar dags. 11. nóvember sl. var óskað eftir því við stjórn LÍN að hún gerði grein fyrir afstöðu sinni til þeirra raka kæranda að gildistökufrestur breytinga á úthlutunarreglum LÍN vorið 2002 hefði verið ósanngjarn og jafnvel ólöglegur, sbr. til hliðsjónar ákvæði 7. gr. laga nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Afrit bréfsins var sent kæranda. Stjórn LÍN ritaði málskotsnefnd bréf dags. 15. nóvember sl. með frekari rökstuðningi.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sótti um námslán í ágúst sl. vegna náms á 1. ári í lögfræði við Háskóla Íslands skólaárið 2002-2003. Hann tók sér námshlé í janúar 2002. Við endurskoðun úthlutunarreglna LÍN sl. vor var grein 3.3.2. breytt á þann veg að dregið var úr ívilnun við mat á tekjum sem námsmenn eiga rétt á að loknu námshléi. Í stað þess að heimilt væri að þrefalda almennt frítekjumark námsmanns er eftir breytinguna einungis heimilt að tvöfalda það. Í bréfi dags. 3. júní sl. fór kærandi fram á það við stjórn LÍN að við lánsútreikning hans yrði tekið sanngjarnt tillit til þeirra forsendna sem ríktu þegar námshlé hans hófst og að frítekjumark hans yrði þannig þrefaldað en ekki tvöfaldað við lánsútreikning. Þá skoraði kærandi á stjórnina að láta breytingar á reglum sjóðsins ekki taka gildi fyrr en að a.m.k. 7,5 til 12 mánuðum liðnum svo lánþegar fengju sanngjarnan frest til að laga áætlanir sínar að breytingunum. Einnig skoraði kærandi á stjórnina að taka umrædda grein til rækilegrar endurskoðunar. 

Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda í úrskurði 5. júlí sl. og kærandi kærði þá niðurstöðu til málskotsnefndar eins og frá er greint hér að framan. 

Af hálfu kæranda er byggt á því að framangreind breyting á reglu 3.3.2. hafi í för með sér mikla röskun fyrir hann. Hann hafi tekið sér frí frá námi í upphafi ársins til að afla tekna og greiða niður skuldir að gefnum þeim forsendum að leyfilegt væri að þrefalda frítekjumarkið hjá honum að loknu námshlénu. Um sé að ræða íþyngjandi breytingar fyrir námsmenn og því sé krafan sú að þeir fái sanngjarnan frest til að laga áætlanir sínar að hinum nýju lánareglum. Stjórn LÍN sé heimilt að breyta upphæðum og reglum sem námslán séu áætluð eftir en ósanngjarnt sé, og jafnvel ólöglegt, ef námsmenn hafi lítið eða ekkert svigrúm til að aðlagast breyttum reglum séu þær þeim í óhag, hvað þá ef áhrif reglubreytinga séu afturvirk eins og í þessu tilviki. Aðlögunarfresturinn þurfi að vera rúmur þegar um sé að ræða reglur um aukið frítekjumark vegna námshlés. Hann hafi ákveðið að fara í 8 mánaða námshlé en eftir hlé í 4 mánuði hafi LÍN breytt verulega þeim forsendum sem hann hafi tekið mið af í upphafi og gildistökufrestur svo skammur að honum hafi verið með öllu ómögulegt að bregðast við. 

Kærandi bendir á að verði niðurstaða stjórnar LÍN látin standa raskist algjörlega fjárhagslegar aðstæður hans á tímabilinu janúar 2002 til maí 2003 og hann hefði líkast til ekki tekið námshlé. Þá sé það óskrifuð regla í íslenskum rétti og grundvallarþáttur lýðræðislegs stjórnskipulags að lög og ákvarðanir stjórnsýslunnar hafi ekki afturvirk áhrif sem eru almenningi til íþyngingar. 

Stjórn LÍN kveðst endurskoða úthlutunarreglur LÍN fyrir hvert skólaár sem að jafnaði hefjist 1. júní. Fyrir skólaárið 2002-2003 hafi þeirri vinnu lokið 7. maí sl. og því hafi þær reglur, sem útreikningar láns taka mið af, legið fyrir þegar kærandi sótti um lán í ágúst sl. Við síðustu endurskoðun reglnanna hafi verið gerðar fjölmargar breytingar sem ýmist leiði til hækkunar eða lækkunar á útreiknuðu láni og ráðist heildarniðurstaðan af aðstæðum hvers og eins umsækjanda. Í tilviki kæranda sé ljóst að sumar breytingar hækki lán hans en aðrar séu til lækkunar. Breytingarnar hafi verið gerðar fyrir upphaf skólaárs 2002-2003 og áður en kærandi sótti um lán til sjóðsins og skilar lánshæfum námsárangri. 

Stjórn LÍN bendir ennfremur á að nýjar úthlutunarreglur hafi jafnan tekið gildi eftir birtingu þeira í Stjórnartíðindum í samræmi við 7. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda og þannig hafi málum einnig verið háttað vorið 2002 en þær hafi verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda 31. maí sl. Úthlutunarreglurnar séu endurskoðaðar árlega og gildi fyrr eitt skólaár í senn, sem reglum skv. hefjist 1. júní ár hvert. Kærandi hafi byrjað lánshæft nám 1. september sl. og eigi rétt á láni í lok haustmisseris þegar hann hafi skilað lánshæfum námsárangri. Fram að þeim tíma geti breytingar á högum hans haft áhrif á lánsfjárhæð, s.s. búseta, hjúskaparstaða og tekjur. Útilokað sé að hann geti fengið útborgað lán samkvæmt öðrum reglum en þeim, sem tóku gildi 1. júní 2002, og skipti þá engu máli þó að hann hafi tekið ákvörðun um núverandi nám og lánsumsókn á síðasta skólaári þegar aðrar reglur voru í gildi. 

Úthlutunarreglur LÍN feli í sér útfærslu á lögbundinni félagslegri aðstoð og jafnvel þótt endurskoðun þeirra feli í sér einhverja skerðingu sé niðurstaðan ívilnandi á þann hátt að borgurunum séu veitt tiltekin réttindi. Setning nýrra reglna um minni aðstoð en áður, sem brjóti ekki í bága við lög og reglugerð um sjóðinn, sé þannig annars eðlis en stjórnvaldsfyrirmæli sem feli í sér boð og bönn. Gildistaka nýrra úthlutunarreglna eftir birtingu í Stjórnartíðindum sé því lögmæt og í fullu samræmi við 7. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Þá bendir stjórn LÍN á að niðurstaða síðustu breytinga á úthlutunarreglunum ráðist af breytingunni í heild og jafnframt af aðstæðum hvers og eins en hafi að meðaltali leitt til aukningar á námsaðstoð. Niðurstaða stjórnar sé því í samræmi við lög og reglur.

 

Niðurstaða

 

Kærandi krefst þess að við ákvörðun lánsfjárhæðar til hans fyrir skólaárið 2002-2003 verði tekið mið af úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2001-2002. Eins og fram er komið voru breytingar gerðar á grein 3.3.2. í úthlutunarreglum LÍN á liðnu vori sem staðfestar voru af menntamálaráðherra 21. maí sl. og birtar 31. maí sl. í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 376/2002. Í auglýsingunni segir: 

"Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna með áorðnum breytingum hefur menntamálaráðherra hinn 21. maí 2002 staðfest úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir námsárið 2002-2003 samkvæmt fylgiskjali með auglýsingu þessari. Úhlutunarreglurnar voru samþykktar samhljóða á fundi stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna hinn 7. maí 2002. Menntamálaráðuneytinu, 21. maí 2002. Tómas Ingi Olrich. Örlygur Geirsson." 

Engin sérstök fyrirmæli eru í auglýsingunni um gildistöku úthlutunarreglnanna. Í 7. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, segir að birt fyrirmæli skuli binda alla frá og með 1. degi þess mánaðar þegar liðnir eru 3 almanaksmánuðir hið skemmsta frá útgáfudegi þess blaðs Stjórnartíðinda er fyrirmælin voru birt nema þau geymi aðrar ákvarðanir um gildistöku sína. 

Þegar stjórn LÍN úrskurðaði í málinu 5. júlí sl. voru ekki liðnir 3 almanaksmánuðir frá útgáfudegi þessa tiltekna blaðs Stjórnartíðinda og voru því fyrirmæli úthlutunarreglnanna ekki bindandi fyrir kæranda á þeim tíma. Breytir engu um niðurstöðuna þótt ljóst sé að breytingin lá fyrir þegar kærandi sótti um námslán í ágúst sl. enda er það framangreindur úrskurður stjórnar LÍN sem hér er til skoðunar. Af þeim sökum er niðurstaða málskotsnefndar sú að fella verði úr gildi niðurstöðu stjórnar LÍN í úrskurði hennar í máli kæranda.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 5. júlí 2002 í máli nr. L-194/02 er felldur úr gildi.

Til baka