Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-19/2002 - Umsóknarfrestur og útborgun - beiðni um undanþágu frá auglýstum umsóknarfresti

Úrskurður

 

Ár 2002, fimmtudaginn 12. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-19/2002.

 

Kæruefni

 

Með kæru dags. 25. september 2002, sem barst málskotsnefnd 4. nóvember sl., kærði kærandi, úrskurð stjórnar LÍN frá 15. ágúst sl. í málinu nr. L-158/02 þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá auglýstum umsóknarfresti. 

Með bréfi dags. 4. nóvember sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svar stjórnar er dags. 8. nóvember sl. og fylgdu því frekari gögn. Með bréfi dags. 14. nóvember sl. voru kæranda sendar athugasemdir stjórnar LÍN og gefinn 14 daga frestur til að koma frekari sjónarmiðum á framfæri. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi hefur stundað nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands haustið 1997. Námið er fjögurra ára nám samkvæmt skipulagi skóla og hafði kærandi fengið lán í 7 misseri vegna námsins eftir vormisserið 2001. Hún skilaði umsókn dags. 13. maí sl. um lán vegna náms á skólaárinu 2001-2002 (vormisseri 2002). Umsókn hennar var hafnað og óskaði hún þá í bréfi dags. 19. maí sl. eftir undanþágu til að sækja um námslán fyrir vorönn 2002. Vísaði kærandi til þess að hún hefði lent í slysi fyrir rúmlega tveimur og hálfu ári og hefði því þurft að skipta námi sínu niður sökum slyssins og þar af leiðandi ekki fengið full námslán undanfarin misseri og engin námslán haustið 2001. Hafi safnast saman 22 einingar sem skráðar hafi verið á vorönn 2002 og geti þær veitt henni fullt námslán en því hefði hún ekki gert sér grein fyrir og því ekki sótt um lánið í tíma. 

LÍN svaraði erindi kæranda í bréfi dags. 30. maí sl. þar sem undanþágubeiðni kæranda var hafnað með vísan til greinar 5.1.2. í úthlutunarreglum LÍN. Með bréfi dags. 26. júní sl. óskaði kærandi eftir að stjórn LÍN úrskurðaði í málinu og heimilaði undanþágu frá umsóknarfresti um námslán fyrir vorönn 2002. Kvað hún hafa komið í ljós í aprílbyrjun að þær einingar sem að öllu jöfnu hefðu skráðst á haustmisseri 2001 hefðu verið færðar yfir á vormisseri 2002 sem gerði það að verkum að hún uppfyllti kröfur sjóðsins um námsframvindu fyrir vormisseri. Hún hefði haft samband við lánasjóðinn og fengið þær upplýsingar að þar sem sjóðurinn hefði tekið við umsóknum allt til marsloka ætti þetta að ganga í gegn hjá henni. Kærandi hefði því lagt inn umsókn og í framhaldi af því reynt að ná sambandi við stjórnarformann sjóðsins án árangurs. Eins og áður er fram komið var úrskurður stjórnar LÍN kveðinn upp 15. ágúst sl. 

Kærandi byggir kröfu sína um undanþágu á því að hún hefði ekki sótt um námslán fyrir námsárið 2001-2002 þar sem hún hefði ekki talið sig fullnægja kröfu um 75% lán en í byrjun apríl sl. hefði komið í ljós að einingar, sem að öllu jöfnu hefðu skráðst á haustmisseri, hefðu verið færðar á vormisseri 2002. Hefði hún því skyndilega uppfyllt kröfur sjóðsins fyrir vormisseri en umsóknarfresturinn þá verið runninn út. Kvaðst hún ekki geta haldið áfram námi yrði beiðni hennar synjað. 

Stjórn LÍN bendir á að nám á þriðja ári í hjúkrunarfræði teljist lánshæft ef námsmaður skilar 9 einingum að hausti og 12 einingum að vori. Skólaárið 2001-2002 hafi kærandi verið öðru sinni skráð á þriðja ári í náminu og þá lokið 28 einingum. Henni hafi því mátt vera ljóst þegar hún hóf nám þetta skólaár að uppfyllti hún kröfur um lágsmarkseinkunnir væri annað misserið óhjákvæmilega lánshæft, þ.e. óháð skiptingu eininga milli hausts- og vormisseris. Kærandi hafi þannig verið í sambærilegum sporum og aðrir námsmenn sem verða að skila inn umsókn áður en umsóknarfrestur rennur út og áður en þeir fá staðfest að kröfur um lágmarkseinkunnir séu uppfylltar. Engin fordæmi séu fyrir því að veitt sé undanþága frá ákvæðum síðasta málsliðar 3. mgr. greinar 5.1.2. í úthlutunarreglum sjóðsins.

 

Niðurstaða

 

Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi lent í slysi árið 1999 og því þurft að skipta námi sínu og því ekki fengið full námslán misserin á eftir. Hún hafi ekki átt von á að eiga rétt á fullu námsláni vorið 2002 og því ekki sótt um lán í tíma. Engar aðrar ástæður liggja hér að baki enda er því ekki haldið fram af hálfu kæranda. Í grein 5.1.2. í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2001-2002 segir m.a.: 

"Sækja skal sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár. Hver umsókn gildir til loka misseris. Umsókn verður að hafa borist fyrir 

15. ágúst vegna aðstoðar á haustmisseri;
1. desember vegna aðstoðar á vormisseri
1. mars ef nám hefst eftir 1. apríl;
15. maí 2002 vegna sumarlána. 

Framhaldsumsóknir sem berast eftir 1. mars eru ekki teknar gildar..."
 

Fallast verður á það með stjórn LÍN að kærandi var námsárið 2001-2002 í sömu sporum og aðrir námsmenn að því leyti að uppfyllti hún kröfur um lágmarkseinkunnir gæti hún átt rétt á námsláni. Í tilviki kæranda var ljóst að næði hún lágmarkseinkunnum yrði annað misserið lánshæft og því var henni í lófa lagið að sækja um námslán og skila inn umsókn áður en umsóknarfrestur rann út. Verður ekki séð að nokkrar þær aðstæður hafi verið uppi sem komið gátu í veg fyrir það. Niðurstaða málskotsnefndar er því sú að staðfesta hinn kærða úrskurð stjórnar LÍN.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. ágúst 2002 í máli nr. L-158/02 er staðfestur.

Til baka