Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-21/2002 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2003, fimmtudaginn 30. janúar, var í málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í málinu nr. L-21/2002.

Kæruefni

Með bréfi dags. 23. nóvember 2002 kærði X f.h. kæranda, úrskurð stjórnar LÍN frá 10. september 2002 í málinu nr. I-107/02, þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum á árinu 2002 þar sem stjórn LÍN taldi kæranda ekki uppfylla skilyrði í 8. gr. laga nr. 21/1992, 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 og gr. 7.4.1. og 7.4.2. í úthlutunarreglum sjóðsins til að eiga rétt á undanþágu frá greiðslu afborgunar af námslánunum.

Stjórn LÍN var með bréfi málskotsnefndar dags. 27. nóvember 2002 tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna hennar. Stjórn LÍN svaraði með bréfi dags. 2. desember 2002. Kæranda var með bréfi málskotsnefndarinnar dags. 4. desember 2002 kynnt svar stjórnar LÍN og gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum í málinu. Engin frekari svör bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fékk námslán í tvö misseri 1995-1996 vegna náms í þýsku og kínversku í Þýskalandi, í fjögur misseri 1996-1998 vegna BA-náms í kínversku í Kína og í fjögur misseri 1998-2000 vegna BA-náms í kínversku í Danmörku. Námslok kæranda voru ákvörðuð vorið 2000 og henni ætlað að greiða kr. 65.407 sem fyrstu afborgun af námsláninu 30. júní 2002. Kærandi sótti um undanþágu frá afborgununni á þeirri forsendu að hún hefði á árinu 2001 haft mjög lágar tekjur og að fyrirsjáanlegt væri að svo yrði einnig 2002.

Í beiðni kæranda um undanþáguna kemur fram að lögheimili hennar sé í Danmörku og skv. skattskýrslu þaðan sé ljóst að framtaldar tekjur voru mjög lágar árið 2001. Það hafi einkum stafað af því að hún hafi frá því í mars 2001 að mestu leyti búið í Peking í Kína. Þar hafi hún ekki þurft mikið framfærslufé enda búið að mestu hjá vinum sínum. Einnig hafi hún stundað ýmis tilfallandi störf svo sem einkakennslu í ensku fyrir Kínverja, leiðsögu fyrir ferðamenn o.fl. Þær tekjur hafi því miður ekki verið gefnar upp í Danmörku, en heildarupphæð þeirra árið 2001 verið u.þ.b. IKR 500.000. Það sama eigi við um árið 2002 og áætlaði kærandi þá að tekjur hennar það ár yrðu u.þ.b. IKR 700.000-800.000 sem nægja myndu til framfærslu í Kína. Í kæru til málskotsnefndarinnar kemur ennfremur fram að kærandi hafi verið innrituð í Háskólann í Kaupmannahöfn bæði árið 2001 og 2002 og muni skila ritgerð til BA prófs í kínverslu í byrjun janúar 2003. Telur kærandi því eðlilegt að afborganir hennar af námslánum á árinu 2002 verði felldar niður.

Af hálfu stjórnar LÍN er tekið fram að BA-nám kæranda taki þrjú ár skv. námsskrá. Hún hafi á hinn bóginn fengið fullt lán í fjögur ár til að ljúka þessu námi þar sem hún stundaði það á tveimur stöðum, þ.e. fyrst tvö ár í Kína og síðan tvö ár í Danmörku. Þrátt fyrir að vera enn skráð í BA-nám í kínversku við Kaupmannarhafnarháskóla hafi kærandi ekki skilað lánshæfum námsárangri síðan vorið 2000. Í bréfi föður kæranda frá 23. ágúst sl. komi jafnframt fram að hún hafi að mestu leyti verið í Kína við tilfallandi störf frá því í mars 2001. Því sé útilokað að kærandi eigi rétt til undanþágu frá afborgun árið 2002 vegna náms.

Tekið er fram af hálfu stjórnar LÍN að skv. 8. gr laga um LÍN ákvarðist árleg endurgreiðsla í tvennu lagi. Annars vegar sem föst greiðsla sem skuli innheimt óháð tekjum og hins vegar sem viðbótargreiðsla háð tekjum fyrra árs. Vegna lágra tekna 2001 falli viðbótargreiðsla kæranda niður vorið 2002 og eigi hún þá einungis að greiða föstu afborgunina. Með þessum hætti sé tekið tillit til aðstæðna hennar og er afgreiðsla LÍN því í fullu samræmi við lögboðið hlutverk sjóðsins.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1002, 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 og gr. 7.4.1. og 7.4.2. í úthlutunarreglum LÍN eru ákvæði er heimila undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum ef möguleikar lánþega til öflunar tekna eru skertir á einhvern hátt, t.d. vegna veikinda, atvinnuleysis, náms o.s.frv. Í máli því sem hér er til umfjöllunar er á því byggt að tekjur kæranda hafi verið mjög lágar á árinu 2001 og því óskar kærandi eftir undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar árið 2002. Það eitt að lánþegi hafi haft lágar tekjur heimilar ekki undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum skv. ofangreindum ákvæðum í lögum, reglugerð og úthlutunarreglum. Með vísan til þessa er hinn kærði úrskurður staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli nr. I-107/02 frá 10. september 2002 er staðfestur.

Til baka