Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-20/2002 - Námslengd - beiðni um undanþágu frá 5 ára reglu

Úrskurður

Ár 2003, fimmtudaginn 13. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-20/2002.

Kæruefni

Með bréfi dags. 21. nóvember 2002 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN í máli nr. L-458/02 frá 15. nóvember 2002 þar sem stjórnin hafnaði erindi kæranda um námslán vegna framhaldsnáms hennar í óperusöng við óperuhús í Regensburg í Þýskalandi námsárið 2002-2003.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 21. nóvember 2002 og gerði hún athugasemdir við kröfuna í bréfi dags. 28. nóvember 2002 og fylgdu bréfinu gögn þau sem lágu fyrir hjá sjóðnum þegar ákvörðun stjórnar lá fyrir. Með bréfi dags. 4. desember 2002 var kæranda gefinn fjórtán daga frestur til að koma frekari sjónarmiðum á framfæri. Kærandi ítrekaði framkomin sjónarmið sín í bréfi dags. 10. desember 2002. Stjórn LÍN var sent afrit bréfs kæranda með bréfi dags. 30. desember 2002 og þess óskað að stjórnin gerði frekari gein fyrir afstöðu sinni til sjónarmiða kæranda, einkum að því er varðaði tilvísun kæranda í bréfi sínu 10. desember 2002 til greina 1.3.3. og 2.4.3. í úthlutunarreglum LÍN. Athugasemdir stjórnar LÍN eru settar fram í bréfi dags. 10. janúar sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fékk námslán í þrjú ár vegna tónlistarnáms í Englandi 1992-1995 og í tvö ár vegna söngnáms í Þýskalandi 1995-1998. Eftirstöðvar lánanna nema rúmum fimm milljónum króna. Kæranda bauðst námssamningur við óperuhúsið Theater Regensburg í Þýskalandi. Námssamningurinn felur að sögn kæranda í sér að henni er falið að læra fjögur sérhæfð óperuhlutverk undir handleiðslu aðalhljómsveitarstjóra óperuhússins sem hefur eftirlit með henni og leiðbeinir. Þegar kemur að óperuuppfærslum þurfi hún að vera viðstödd æfingar og taka þátt í þeim að einhverju leyti. Kærandi sótti um námslán til þessa náms en stjórn LÍN hafnaði umsókn hennar eins og að framan greinir á þeim forsendum að námið væri ekki háskólanám og að hún hafi þegar notið aðstoðar sjóðsins í fimm ár. Kærandi kærði þann úrskurð til málskotsnefndar eins og að framan er rakið.

Af hálfu kæranda er byggt á því að nám hennar við óperuhúsið í Regensburg sé einkanám á framhaldsháskólastigi og að það sé lánshæft með vísan til greinar 1.3.3. í úthlutunarreglum LÍN. Þar komi fram sú krafa að lánþegi hafi lokið grunnnámi áður en unnt sé að heimila lánveitingu til einkanáms. Í ljósi þessa geti stjórn LÍN ekki synjað henni um námslán þar sem hún hafi ekki nýtt þann hámarkslánstíma sem tilgreindur sé í reglunni.

Kærandi bendir á að óhætt sé að meta þetta nám sambærilegt við nám í háskólastofnunum enda sé þar aðeins unnið með atvinnu- og fagfólki. Vísar kærandi til ákvæða greinar 1.3.1. í úthlutunarreglum LÍN þar sem fram komi að lánað sé til framhaldsnáms við viðurkenndar stofnanir erlendis sem geri sambærilegar kröfur til nemenda og gerðar séu í háskólanámi hérlendis. Í umsögn Bjarna Daníelssonar, óperustjóra Íslensku óperunnar, kemur fram að óhætt sé að líkja námssamningi kæranda við æðri menntagráðu í öðrum greinum háskólanáms. Námssamningur við óperuhús sé lokapunktur í löngu námi til starfa óperusöngvara og sé slíkur samningur ekki boðinn neinum sem ekki hafi gengið í gegnum langt söngnám og grunnháskólanám í söng. Einnig vísar kærandi til greinar 2.4.3. í úthlutunarreglunum þar sem segi að stutt starfstengt viðbótarháskólanám sem ekki ljúki með æðri prófgráðu, t.d. listnám, geti talist vera framhaldsháskólanám.

Þá vísar kærandi til framlagðrar yfirlýsingar Garðars Cortes, skólastjóra Söngskólans í Reykjavík, sem taki af allan vafa um að hægt sé að líta á framhaldsmenntun við viðurkennda stofnun, svo sem óperustúdíó eða óperuhús, sem einkanám á hæsta stigi. Í grein 1.3.3. í úthlutunarreglunum komi skýrt fram að einkanámið sé í eðli sínu framhaldsnám miðað við þau skilyrði sem LÍN setji fyrir lánveitingu til einkanáms. Þar sé m.a. minnst á BA gráðu og því sé eðlilegt að álykta að öll viðbót við slíka gráðu eða sambærilega hljóti að teljast til framhaldsháskólaprófs eða sambærilegrar gráðu skv. úthlutunarreglunum. Kærandi uppfylli skilyrðin um stúdentspróf og grunnháskólapróf með söng sem aðalfag, Graduate Diploma frá London College of Music. Þá hafi hún lokið 8. stigi í píanóleik frá sama skóla. Stjórn LÍN hafi fulla heimild til að vísa til reglu 1.3.3. og samþykkja lán fyrir framhaldssöngnámi hennar. Að áliti kæranda er grein 2.4.4. um að einkanám, t.d. í söng eða tónlist teljist til náms á grunnháskólastigi, í mótsögn við ákvæði greinar 1.3.3. Þegar um tvenns konar túlkanir á reglum LÍN sé að ræða eins og hér, sé eðlilegt að skýra reglurnar námsmanninum í hag.

Stjórn LÍN byggir synjun sína um námslán á því að nám kæranda teljist ekki háskólanám skv. úthlutunarreglum sjóðsins og að hún hafi þegar notið aðstoðar sjóðsins í fimm ár. Hún hafi fullnýtt svigrúm sitt til námslána skv. grein 2.4.2. og álitaefnið snúist um það hvort hún geti fengið lán umfram fimm ár skv. grein 2.4.3. sem heimili slíkt ef námsmaður leggur stund á framhaldsháskólanám. Ekki sé hægt að líta á óperuhús sem viðurkennda háskólastofnun eða námið þar sem framhaldsháskólanám og beri því bæði með tilliti til forms og efnis námsins að hafna erindi kæranda.

Að því er varðar tilvísun kæranda til greinar 1.3.3. í úthlutunarreglunum bendir stjórn LÍN á að þar komi fram sérstaða einkanáms þar sem það falli hvorki undir háskólanám né sérnám. Ekki sé um að ræða ósamræmi milli þeirrar greinar og greinar 2.4.4. þar sem þvert á móti séu tekin af öll tvímæli og einkanám flokkað með námi á grunnháskólastigi við mat á námslengd og heildarsvigrúmi í námi. Þar með geti grein 2.4.3. aldrei átt við um störf hennar hjá óperuhúsinu jafnvel þótt mögulega væri hægt að fallast á þau sem einkanám eða hluta af einkanámi. Niðurstaða stjórnar LÍN sé í samræmi við lög og reglur og því sé farið fram á staðfestingu á úrskurði hennar.

Niðurstaða

Ágreiningur aðila snýr að því hvort nám kæranda sé lánshæft sem einkanám á framhaldsháskólastigi með vísan til greinar 1.3.3. í úthlutunarreglum LÍN og hvort líta eigi til greinar 2.4.2., þ.e. fimm ára reglunnar, eða 2.4.3. tíu ára reglunnar við ákvörðun á lánssvigrúmi.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN veitir sjóðurinn lán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Í 2. gr. sömu laga kemur fram að sjóðnum sé heimilt að veita öðrum námsmönnum námslán en þeim sem falla undir skilgreiningu framangreinds ákvæðis ef þeir stunda sérnám. Síðan segir að sjóðsstjórn setji nánari reglur um til hvaða sérnáms skuli lánað. Þá er mælt svo fyrir í 3. mgr. 3. gr. laganna að stjórn LÍN setji nánari ákvæði um úthlutun námslána og er það gert í úthlutunarreglum sjóðsins. Í kafla 1.3. í reglunum er að finna sérreglur um lánshæfi náms í útlöndum.

Kærandi fékk námssamning við óperuhúsið í Regensburg í Þýskalandi og er þar nú í einkanámi til að starfa sem óperusöngkona. Hún vill að litið verði á námið sem framhaldsháskólanám með vísan til skilyrða fyrir veitingu lána til einkanáms í tónlist skv. grein 1.3.3. í úthlutunarreglum sjóðsins. Kærandi hefur lagt fram gögn máli sínu til stuðnings.

Í bréfi frá fyrirsvarsmönnum óperuhússins kemur fram að kærandi er í einkanámi veturinn 2002 til 2003 og nemur ákveðin óperuhlutverk. Hún mun jafnframt hafa tækifæri til að njóta þjálfunar aðalhljómsveitarstjóra óperuhússins. Jafnframt liggja frammi í málinu umsagnir Bjarna Daníelssonar óperustjóra við Íslensku óperuna og Garðars Cortes skólastjóra Söngskólans í Reykjavík. Bjarni lýsir óperunni í Regensburg sem vel metinni stofnun sem reki námsbraut með skipulögðu, metnaðarfullu og krefjandi námi fyrir unga óperusöngvara. Óhætt sé að líkja þessu við æðri menntagráðu í öðrum greinum háskólanáms. Garðar líkir framhalsmenntun eða starfsreynslu við viðurkennda stofnun, óperustúdíó eða óperuhús, við einkanám á hæsta stigi.

Þrátt fyrir framangreind gögn verður ekki litið á námssamning kæranda við óperuhúsið í Regensburg sem háskólanám við háskólastofnun. Í grein 1.3.1. í úthlutunarreglum LÍN er það gert að skilyrði fyrir lánshæfi háskólanáms erlendis að um sé að ræða framhaldsnám við viðurkenndar stofnanir erlendis sem geri sambærilegar kröfur til nemenda og gerðar eru í háskólanámi hérlendis. Ekki verður séð af gögnum málsins að námssamningur kæranda uppfylli þessi skilyrði. Nám kæranda sýnist hins vegar falla undir grein 1.3.3. í úthlutunarreglunum og gilda því ákvæði geinarinnar um hámarksnámstíma. Þar er sérstaklega vísað til greinar 2.4.4. sem skilgreinir einkanám í tónlist sem nám á grunnháskólastigi.

Ekki verður séð að um misræmi sé að ræða milli greinar 1.3.3. og 2.4.4. heldur er í síðarnefndri grein sérstaklega tekið fram með hvaða hætti skilgreina eigi einkanám í tónlist. Með vísan til þessa verður að fallast á það með stjórn LÍN að fimm ára reglan í grein 2.4.2. eigi við í máli kæranda. Eins og fram er komið hefur kærandi þegar notið námslána í fimm ár og telst hún því hafa fullnýtt lánsrétt sinn vegna grunnháskólanáms. Hinn kærði úrskurður er því staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. nóvember 2002 í máli nr. L-458/02 er staðfestur.

Til baka