Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-22/2002 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um niðurfellingu námslána

Úrskurður

Ár 2003, fimmtudaginn 13. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp úrskurð í málinu nr. L-22/2002.

Kæruefni

Með kæru dags. 5. desember 2002, kærði umboðsmaður kæranda fh. kæranda, úrskurð stjórnar LÍN frá 10. september 2002 í málinu nr. I-111/02 þar sem stjórnin hafnaði beiðni kæranda um niðurfellingu á námsláni kæranda.

Með bréfi málskotsnefndar dags. 16. desember sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Umsögn stjórnar LÍN er dags. 20. desember sl. Kæranda var með bréfi dags. 28. janúar sl. gefinn 14 daga frestur til að tjá sig um umsögn stjórnar LÍN.

Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Umboðsmaður kæranda fór þess á leit við stjórn LÍN að námslán kæranda yrði fellt niður. Umboðsmaðurinn vísaði til þess að kærandi væri öryrki og hafi verið óvinnufær með öllu frá 1980. Lagt var fram læknisvottorð beiðninni til stuðnings.

athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi skuldar svokallað V-lán, samtals rúmar 1,5 m.kr. Af láninu var síðast greitt 1989. Síðan þá hefur verið sótt um undanþágu frá fastri árlegri afborgun af láni hans og undanþágan veitt, enda kæranda ekki reiknast tekjutengd afborgun.

Erindi kæranda var synjað þar sem stjórn sjóðsins veitir einungis undanþágu frá hverri afborgun fyrir sig sbr. 6. mgr. 8. gr. laga um sjóðinn og 9. og 10. gr. reglugerðar um sjóðinn.

Þá vísar stjórn LÍN til 21. gr. reglugerðar frá desember 1981 en þar segir: "Sjóðsstjórn getur samið um undanþágur frá endurgreiðslureglum ef lánþegi býr við stórlega skertar fjárhagsástæður til langframa, t.d. vegna örorku. Sjóðsstjórn er heimilt að fella niður kröfur á dánarbú látins námsmanns, ef sýnt þykir að ella leggist óeðlileg greiðslubyrði á erfingja hans."

Samhliða nýjum lögum og innleiðingu nýrra lánaflokka hafi þess verið gætt að sömu reglur giltu fyrir alla lánaflokka um veitingu undanþága frá endurgreiðslum.

Með vísan til þessara röksemda krafðist stjórn LÍN þess að úrskurður stjórnarinnar yrði staðfestur.

Niðurstaða

Stjórn LÍN hefur heimild til að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána sbr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997.

Hins vegar er ekki að finna í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna heimild til niðurfellingar námslána. Af þessum sökum er niðurstaða stjórnar LÍN staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 10. september 2002 í málinu nr. I-111/02 er staðfestur.

Til baka