Úrskurður
Ár 2003, fimmtudaginn 13. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp úrskurð í málinu nr. L-23/2002.
Kæruefni
Með kæru dags. 7. desember 2002, sem barst málskotsnefndinni
þann 16. desember s.á., kærði umboðsmaður kæranda, f.h. kæranda, úrskurð
stjórnar LÍN frá 9. september 2002 í málinu nr. L-167/02, þar sem stjórn LÍN
hafnaði umsókn kæranda um námslán vegna sérnáms við Broadway Dance Center, á
þeirri forsendu að skólinn hefði ekki fengið viðurkenningu bandarískra
menntamálayfirvalda, þ.e. hjá National Recognition of Accrediting Agencies, og
því uppfyllti skólinn ekki skilyrði gr. 1.3.2. í úthlutunarreglum LÍN.
Stjórn LÍN var með bréfi dags. 16. desember 2002 tilkynnt um fram komna
kæru og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svar stjórnar LÍN dags. 20. desember
2002 barst málskotsnefndinni sama dag. Með bréfi dags. 28. janúar 2003 var
umboðsmanni kæranda sent afrit af svarbréfi stjórnar LÍN og honum gefinn kostur
á að koma að frekari sjónarmiðum í málinu. Engin frekari svör eða gögn hafa
borist frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hóf dansnám við Broadway Dance Center í New York (BDC)
þann 6. október sl. Um er að ræða eins árs nám (frá okt. 2002 til sept. 2003),
en að loknu þessu eina ári gefst mökuleiki á að bæta við öðru námsári við
skólann. Að sögn kæranda er um að ræða sérstaka námsbraut sem sett hefur verið
upp við skólann fyrir erlenda dansnema "International Student Visa
Program" (ISVP), og hefur skólinn fengið viðurkenningu alríkisstjórnar
Bandaríkjanna til að bjóða erlendum dansnemum upp á nám við þessa námsbraut og
gefa út svonefnd "I-20 Certificates of Eligibility to qualifying nonimmigrant
students, for M-1 Student Visa Status."
LÍN hafnaði lánsumsókn
kæranda á þeim forsendum að skólinn sem hún stundar nám við hafi ekki fengið
viðurkenningu bandarískra menntamálayfirvalda, þ.e. hjá National Recognition of
Accrediting Agencies (NRAA). Í ljósi fram kominna upplýsinga um nám kæranda sé
ekki hægt að mati stjórnar LÍN að fallast á að 1-2 ára nám við skólann sé
lánshæft nám. Af hálfu stjórnar LÍN er á það bent að mjög strangar kröfur séu
gerðar til sérnáms svo það geti talist lánshæft. Þannig teljist sérnám á Íslandi
ekki lánshæft nema um sé að ræða lögglt iðnnám eða annað starfsnám á
framhaldsskólastigi, skipulagt af viðkomandi starfsgreinaráði sbr. gr. 1.2.2. í
úthlutunarreglum LÍN. Sambærilegar reglur séu gerðar til sérnáms erlendis skv.
gr. 1.3.2. og við mat á sérnámi erlendis sé höfð hliðsjón af gr. 1.2.2. í
úthlutunarreglunum. Að áliti stjórnar LÍN er sú krafa að skóli þurfi að vera
viðurkenndur af NRAA sambærileg þeim kröfum sem gerðar eru til viðurkenningar
sérnáms á Íslandi skv. gr. 1.2.2. Í þessu sambandi bendir stjórn LÍN á að listi
NRAA yfir viðurkennda skóla sé uppfærður árlega og nýir skólar þá teknir inn á
listann og aðrir felldir út. Þannig séu dæmi um að hætt hafi verið að lána til
náms við skóla sem fallið hafi af listanum. Stjórn LÍN bendir sérstaklega á að
lánshæft dansnám sé ekki í boði á Íslandi og að dansstarfsgreinaráð sé ekki
starfandi hérlendis. Einnig sé almenna reglan sú að sérnám þufi að vera
skipulagt sem sex til átta missera nám til að teljast lánshæft og að fyrsta eða
fyrstu tvö misserin séu ólánshæf ef hægt er að leggja stund á námið beint eftir
grunnskólapróf. Dansnám kæranda sé skipulagt sem 2-3 missera nám og til að
stunda það sé gerð krafa um þjálfun og reynslu í dansi, en að öðru leyti sé ekki
gerð krafa af hálfu skólans um sérstakt aðfararnám umfram grunnskólapróf.
Af hálfu kæranda er á það bent að BDC sé þekktur um allan heim fyrir að
vera í fremstu röð á sínu sviði. Þannig bjóði skólinn upp á nám í öllum helstu
greinum dansmennta á grunni þeirrar dans- og söngleikjahefðar sem þróast hafi í
New York á umliðinni öld. Við skólann kenni margir af fremstu danshöfundum og
danskennurum Bandaríkjanna og nemendur komi úr öllum heimshlutum, enda sé
almennt viðurkennt að óvíða sé að finna sambærilegt nám í þeim gæðaflokki sem
nám við BDC sé.
Kærandi bendir á að ársnám fyrir erlenda dansnema við
BDC standi samfellt í 11 mánuði og sé eingöngu gefinn kostur á 1-2 vikna hléi
frá námi á hvoru námsári (engin jóla- eða páskaleyfi). Í reynd jafngildi eitt
námsár við BDC u.þ.b. þremur venjulegum skólamisserum. Kenndar séu 18 stundir á
viku en hver kennslustund sé 90 mínútur. Mjög strangar kröfur séu gerðar í
náminu, s.s. um námsframvindu og ástundun og umsjónarkennarar og ráðgjafar
fylgist reglulega með framvindu námsins.
Kærandi byggir á því að ekki sé
heimild fyrir því í lögum um LÍN, reglugerð um sjóðinn eða í úthlutunarreglum
hans að gera þá kröfu að skólar í Bandaríkjunum hafi hlotið viðurkenningu NRAA
til að nám geti talist lánshæft sérnám skv. gr. 1.3.2. í úthlutunarreglunum.
Telur kærandi að sé listi yfir námsstofnanir í Bandaríkjunum sem sjóðurinn hafi
viðurkennt við úthlutun námslána borinn saman við lista NRAA yfir skóla sem hafa
fengið viðurkenningu þaðan, verði ekki betur séð en að LÍN hafi veitt lán vegna
náms við skóla sem ekki sé að finna á listum NRAA. Sé þetta rétt hljóti
afgreiðsla LÍN í máli kæranda að vera brot á jafnræðisreglu
stjórnsýsluréttarins.
Kærandi bendir sérstaklega á að skv. fram lögðum
gögnum sé umsókn skólans nú til meðferðar hjá "National Association of
Schools in America" og telur kærandi að eðilegt hefði verið að taka tillit
til þessa við afgreiðslu LÍN á lánsumsókn hennar. Kærandi bendir ennfremur á að
mikilvægt sé að hafa í huga að skólum sé það í sjálfsvald sett hvort þeir sæki
um umrædda viðurkenningu á námi sínu hjá NRAA. Ýmsar ástæður geti verið fyrir
því að skólar sæki ekki um þessa viðurkenningu.
Niðurstaða
Í gr. 1.3.2. í úthlutunarreglum LÍN er eftirfarandi ákvæði að
finna:
"Heimilt er að veita lán til sérnáms erlendis. Lánshæfi er háð
því að um sé að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám sem talist getur nægilega
veigamikið, að því er varðar eðli þess, uppbyggingu og starfsréttindi, að mati
stjórnar sjóðsins. Ekki er lánað til starfsnáms sem er launað skv. kjarasamningi
umfram grunnframfærslu sbr. gr. 3.1.2."
Svo sem fram kemur í
framangreindi grein í úthlutunarreglunum er það stjórn LÍN sem metur hvort
sérnám erlendis sé lánshæft eða ekki. Skv. því sem fram hefur komið í málinu frá
stjórn LÍN, hefur af hálfu sjóðsins verið litið til gr. 1.2.2. í
úthlutunarreglunum við mat á því hvað teljist lánshæft sérnám erlendis, en gr.
1.2.2. fjallar um lánshæft sérnám á Íslandi. Er þetta gert af hálfu sjóðsins til
að gæta samræmis í kröfum sem gerðar eru til lánshæfs sérnáms hér á landi og
annars staðar.
Jafnvel þó gr. 1.3.2. í úthlutunarreglum LÍN sé orðuð með
þeim hætti sem að framan greinir, er að áliti málskotsnefndarinnar ekkert því
til fyrirstöðu að LÍN setji sér ákveðnar reglur varðandi mat á því hvað teljist
lánshæft sérnám í hinum ýmsu löndum í skilningi greinarinnar, enda séu þær
reglur lánþegum ljósar og jafnræðis gætt. Fram hefur komið að forsenda
lánveitinga af hálfu LÍN skv. greininni vegna náms í Bandaríkjunum er að
viðkomandi skóli hafi fengið viðurkenningu bandarískra menntamálayfirvalda, þ.e.
hjá NRAA. Þetta skilyrði kemur hins vegar ekki fram í gr. 1.3.2. í
úthlutunarreglum sjóðsins, eins og rétt væri fyrst þetta er ófrávíkjanleg
vinnuregla sjóðsins.
Úthlutunarreglur LÍN eiga að vera skýrar og
lánþegar verða að geta lesið úr þeim til hvaða atriða litið er við ákvörðun um
lánshæfni náms o.fl. Svo sem að framan greinir kemur ekki fram í gr. 1.3.2. að
skilyrði lánshæfni sérnáms í Bandaríkjunum sé að umræddur skóli hafi hlotið
viðurkenningu NRAA. Af þessum sökum getur stjórn LÍN ekki hafnað lánsumsókn
kæranda á þeirri forsendu einni að BDC hafi ekki hlotið slíka viðurkenningu.
Verður því að koma til mat á því námi sem kærandi stundar, eðli þess og
uppbyggingu svo sem umrædd grein í úthlutunarreglum LÍN býður að gert sé.
Af gögnum málsins þykir málskotsnefndinni ljóst að kærandi stundar nám
við metnaðarfullan skóla og að eðli og uppbygging námsins sé með þeim hætti að
námið fullnægi skilyrðum í gr. 1.3.2. í úthlutunarreglum LÍN. Ekki verður séð að
nefnd grein úthlutunarreglna LÍN veiti sjóðnum heimild til að miða við að sérnám
þurfi að vera skipulagt sem sex til átta missera nám til að teljast lánshæft og
að fyrsta eða fyrstu tvö misserin séu ólánshæf ef hægt er að leggja stund á
námið beint eftir grunnskólapróf.
Með vísan til framanritaðs er hinn
kærði úrskurður felldur úr gildi
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 9. september 2002 í málinu nr. L-167/02 er felldur úr gildi.