Úrskurður
Ár 2003, miðvikudaginn 21. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-5/2003:
Kæruefni
Með kæru dags. 24. mars 2003 kærði kærandi f.h. x úrskurð
stjórnar LÍN í máli nr. I-158/02 frá 9. desember 2002 þar sem stjórnin synjaði
beiðni kæranda um eftirgjöf að öllu leyti á skuldabréfi útgefnu 6. mars 2000.
Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 26. mars sl. og
jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins.
Athugasemdir stjórnarinnar komu fram í bréfi dags. 3. apríl sl. og var afrit
þess sent kæranda með bréfi dags. 4. apríl sl. en þar var kæranda jafnframt
gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir
kæranda eru settar fram í bréfi dags. 8. apríl sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Með bréfi til LÍN dags. 27. nóvember 2002 óskaði kærandi eftir
því að með sjúkdómssögu x í huga yrðu kröfur LÍN á hendur honum og
ábyrgðarmönnum hans felldar niður og skuldabréf á hendur x afturkallað. Stjórn
LÍN hafnaði erindi hans eins og fram er komið með úrskurði dags. 9. desember
2002 á þeim forsendum annars vegar að undanþáguheimildir 8. gr. laga um LÍN nr.
21/1992 og 9. og 10. gr. reglugerðar um sjóðinn nr. 602/1997 ættu ekki við í
tilviki x og hins vegar væru umsóknarfrestir um undanþágu frá endurgreiðslum
námslána liðnir skv. gr. 7.4.3. í úthlutunarreglum sjóðsins.
Kærandi
vísar til þess að x hafi þjáðst af þunglyndi í rúman áratug en það hafi ágerst
mjög árið 1995. Hann hafi ekki verið í föstu starfi undanfarinn áratug en unnið
öðru hvoru eftir því sem heilsa hans leyfði. Kröfur LÍN á hendur x nemi nú kr.
1.565.044 en foreldrar hans séu ábyrgðarmenn á skuldabréfinu. Skuldabréfið hafi
verið gefið út 6. mars 2000 en það hafi verið gjaldfellt 1. ágúst 2000. Nú þegar
hafi verið krafist fjárnáms í húseign móður x. Þá er komið fram að x hafi verið
úrskurðaður á endurhæfingarlífeyri í nóvember 2001 og líkur bendi til þess að
endanlegur úrskurður verði 75% örorka.
Af hálfu kæranda er byggt á
ákvæðum 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN og vísað til niðurstöðu málskotsnefndar í
máli nr. L-13/2002 en málin séu að ýmsu leyti hliðstæð. Bent er á að með
hliðsjón af sjúkrasögu x og tekjum á síðasta áratug ásamt fjölskylduaðstæðum
hafi mátt vera fyrirséð á sínum tíma að enginn grundvöllur var fyrir því að hann
gæti greitt upp námslán sitt.
Af hálfu stjórnar LÍN er vísað til þess að
6. mars 2000 hafi verið gert sérstakt samkomulag um skuld x og gefið út nýtt
skuldabréf vegna gjaldfallinna afborgana en endurgreiðslu námsláns hans hafi á
þeim tíma átt að vera að fullu lokið samkvæmt upphaflegum skilmálum lánsins.
Höfuðstóll skuldarinnar þann dag hafi numið kr. 850.000 og inn á hana hafi verið
greiddar samtals kr. 150.000. Skuld x, sem nú sé óskað niðurfellingar á, sé því
tilkomin vegna námslánaendurgreiðslna sem þegar árið 2000 voru fallnar í
gjalddaga og vanskila eftir 6. mars 2000. Þar sem gefið hafi verið út sjálfstætt
skuldabréf eigi undanþáguheimildir 8. gr. laga um LÍN og 9. og 10. gr.
reglugerðar nr. 607/1997 ekki við í þessu máli og því engin lagaheimild til
undanþágu.
Þá er á því byggt að allir umsóknarfrestir um undanþágu frá
endurgreiðslum námslána séu löngu liðnir en skv. grein 7.4.3. í
úthlutunarreglunum sé óheimilt að fresta afborgun hafi ósk um frestun ekki
borist 60 dögum eftir gjalddaga.
Niðurstaða
Skuld kæranda, sem óskað er niðurfellingar á, er samkvæmt
skuldabréfi útgefnu 6. mars 2000 vegna vanskila kæranda á endurgreiðslu námslána
og hafa verið greiddar 150.000 krónur inn á skuldina. Afrit bréfsins liggur
frammi og er kjörum þess lýst á þann veg að höfuðstól þess, 850.000 krónur, beri
að greiða með 10 afborgunum á 5 árum. Skuldabréfið ber meðalvexti almennra
skuldabréfa skv. tilkynningu Seðlabanka Íslands á hverjum tíma og einnig er í
bréfinu gjaldfellingarákvæði verði vanskil veruleg. Hér er því um að ræða
almennt skuldabréf og um það gilda reglur kröfuréttarins. Undanþáguheimildum 8.
gr. laga nr. 21/1992 og 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 verður af þeim
sökum ekki beitt í tilviki kæranda. Þá eru allir frestir til að sækja um
undanþágu frá endurgreiðslu liðnir sbr. grein 7.4.3. í úthlutunarreglum LÍN.
Með vísan til framanritaðs er framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í
máli kæranda staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 9. desember 2002 í málinu nr. I-158/02 er staðfestur.